Vill nýtt embætti umboðsmanns fatlaðra og langveikra

Þuríður Harpa Sigurðardóttir. Mynd: obi.is.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir. Mynd: obi.is.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hefur lagt til við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að stofnað verði nýtt embætti Umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks. Þuríður Harpa afhenti Katrínu skriflega og rökstudda tillögu um þetta á fundi í gærmorgun.

Á vef ÖBÍ kemur fram að samkvæmt tillögunni yrði hlutverk umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks að taka við erindum frá einstaklingum og fella úrskurði út frá gildandi lögum, sem væru til grundvallar skaðabótamála ef ekki er brugðist við. Þá hefði embættið það hlutverk að benda stjórnvöldum á gloppur í íslenskri löggjöf um mannréttindi út frá skuldbindingum alþjóðasáttmála.

Fram kemur í tillögunni að sams konar embætti eru starfrækt annars staðar á Norðurlöndunum og mikilvægt að svona embætti verði sett á stofn hérlendis sem fyrst enda hljóti það að vera vilji stjórnvalda að tryggja réttindi þessa hóps og standa þar með jafnfætis þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við.

Þá ræddu þær Þuríður Harpa og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, ítarlega um kjaramálin á fundinum með Katrínu. Meðal annars var farið yfir fjárlagafrumvarp ársins, fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingakerfinu, krónu-á-móti-krónu skerðinguna, SFRR og vinnumarkaðinn og fatlað fólk.

Bentu þær jafnframt á að stórkostlegur niðurskurður á fyrirhugaðri aukningu á framlögum til málaflokksins væri slæmur. Búið væri að lofa fjórum milljörðum króna, jafnt í fjármálaáætlun sem lögð var fram síðasta vor, sem og í því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi í haust. Þessi breyting ein leiðir til þess að öryrkjar á Íslandi verða af ellefu hundruð milljónum króna á árinu 2019 eða sem svarar 55 þúsund krónum að meðaltali á hvern einstakling á ári.

Sjá nánar HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir