Á Þveráreyrum 1954 - Kristinn Hugason skrifar um hesta og menn
Yfirskrift greinarinnar er raunar fengin úr öðru bindi rits Gunnars Bjarnasonar; Ættbók og saga íslenzka hestsins á 20. öld. Gunnar birti í bókaflokki þessum sem var 7 bindi, starfssögu auk ættbókar BÍ. Bókasamningin var einkaframtak Gunnars, en útgefandi var Bókaforlag Odds Björnssonar á Akureyri.
Ég ætla hér að fjalla ögn um sögufræg dómstörf kynbótahrossa á þessu móti. Þetta var annað landsmót LH og BÍ og var sá háttur þá hafður á að „kjósa“ meðdómendur eins og Gunnar kallar það í téðum bókarkafla. Hvernig sú „kosning“ fór fram er ekki útskýrt en líklegast þykir mér að stjórn LH hafi valið meðdómendurna en oddamaður var formaðurinn; landsráðunautur BÍ í hrossarækt.
Dómnefndina skipuðu, auk Gunnars: Bogi Eggertsson frá Laugardælum, brautryðjandi í röðum hestamanna í Reykjavík; Jón Jónsson bóndi á Hofi á Höfðaströnd, alkunnur og virtur hestamaður, einn hinna svonefndra Nautabúsbræðra; Jón Pálsson dýralæknir á Selfossi, forystumaður Hrossaræktarsambands Suðurlands og Símon Teitsson í Borgarnesi, hestamaður, sveitarstjórnarmaður o.fl. „Símon var mikill unnandi Skugga frá Bjarnanesi (201) og félagi Ara Guðmundssonar í Borgarnesi.“, eins og Gunnar greinir frá í téðum frásögukafla. Ari Guðmundsson verkstjóri og hestamaður í Borgarnesi sýndi einmitt Skugga á Landbúnaðarsýningunni í Reykjavík 1947 þar sem hann stóð efstur og vann fyrstur hesta verðlaunagripinn glæsilega; Sleipnisbikarinn. Hann var svo sýndur aftur á fyrsta landsmótinu 1950 þar sem hann hafnaði fjórði í röð stóðhesta 6 vetra og eldri. Þess skal getið hér í framhjáhlaupi að eiginlegar afkvæmasýningar stóðhesta hófust ekki fyrr en 1958 en frá þeim tíma hefur Sleipnisbikarinn verið veittur á landsmótum efsta hesti með afkvæmum. Símon kom inn í dómnefndina í stað Sverris Gíslasonar bónda í Hvammi í Norðurárdal sem var í dómnefndinni 1950 en hann var eins og Gunnar segir „friðsamur að eðlisfari og kærði sig ekki um að hafa meiri afskipti af íslenzkri hestapólitík.“
Í starfssögu sinni greinir Gunnar frá því að allt hafi leikið á reiðiskjálfi í hrossapólitíkinni á þessum tíma. Öldur lægði þó á milli BÍ og LH er Gunnar fékk því til leiðar komið að einn af stofnendum LH; Skagfirðingurinn Hólmjárn Jósefsson Hólmjárn, var felldur sem formaður LH en Hólmjárn var brautryðjandi mikill, landbúnaðarvísindamaður og iðnrekandi; einn af stofnendum Skógræktarfélags Íslands, Félags íslenskra iðnrekanda og Loðdýraræktarfélags Íslands, auk LH. Um sextugt gerðist Hólmjárn bóndi á Vatnsleysu og bjó þar til áttræðs og kenndi jafnframt á Hólum, frá því um sjötugt til að verða áttræður.
Átökin jukust hins vegar um allan helming hvað hrossapólitíkina varðar. Um það segir Gunnar í sama frásögukafla og fyrr: „Norðlendingarnir, undir forystu Jóns bónda á Hofi, höfðu ákveðið að láta til skarar skríða á þessu landsmóti og láta dæma hornfirzku hestana, ættirnar út af Blakk (129), Skugga (201), Nökkva (260) og Svip (385) út úr reiðhestarækt á Íslandi fyrir fullt og allt.“. Er skemmst frá því að segja að allt fór upp í loft á téðu móti, dómarar töluðust sumir hverjir, lítið eða ekki við og dómstörfum var raunverulega aldrei lokið. Jón á Hofi, Bogi og Jón Pálsson mynduðu samstöðu gegn ráðunautnum og Símoni Teitssyni. Sýn (vision) meirihluta dómnefndarinnar var að nauðsynlegt væri „nú á þessari sýningu (1954) að skera skarplega á milli íslenzkra reiðhestaætta og vinnuhestaætta, og þeir flokkuðu Hornfirðinganna til vinnuhesta,“ og er hér enn vitnað til frásagnar Gunnars Bjarnasonar.
Ekki skal því haldið fram hér að vinnubrögð sem þessi – að dæma eftir ættum – séu til fyrirmyndar og eftirbreytni, en þó var ákveðinn og í raun merkilegur tónn sleginn á sýningu þessari, sem segja má að hafi ekki hljómað virkilega skýrt aftur í hljómkviðu íslenskrar hrossaræktar fyrr en 1990. Með ákveðinni byltingu í dómstörfunum sem þá var gerð. Að því kem ég nánar í næstu grein.
Kristinn Hugason.
Áður birst í 10. tbl. Feykis 2018
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.