Að alast upp í sveit - Áskorandapistill Ólöf Rún Ólafsdóttir brottfluttur Skagfirðingur

Ég er alin upp á Melstað í Skagafirði, og var mikið hjá ömmu minni Dísu og afa Lofti. Frelsið að fá að vafra um sveitina og leika sér, baka með ömmu, vinna í fjósinu og leika við dýr. Ég man ekki eftir mörgum reglum, en ég man eftir tveimur. Númer eitt var að klifra ekki í trjám, þá skemmirðu þau eða dettur og meiðir þig. Oft heyrði maður köllin frá ömmu: „Niður úr trénu!“.

Önnur regla var að fara ekki í lækinn, þá myndi ég drukkna. Ég veit ekki hve oft ég braut þessar reglur en það var mjög oft. Ég elskaði sveitina og geri enn. Alltaf þegar ég kem þá finn ég hvernig ég er komin heim.

      Ég hef tekið eftir því hvað munurinn á fólki sem, til dæmis er alið upp í Reykjavík og svo þeim sem eru aldir upp á sveitabæ, er mikill. Ekki endilega á slæman hátt heldur meira svona skemmtilegan. Ég bjó í Reykjavík í tvö ár og náði aldrei almennilegri andlegri ró, því stressið var svo mikið. En aftur á móti leiðast þeim sem eru úr borginni þegar komið er í sveitina. Alltof hljótt, ekkert að gera. Mín kenning er sú að þau elska stressið og hraðann á öllu, því það er það sem þau ólust upp við.

        Ég bý núna á Stokkseyri, og elska það, því það er svo lítill og krúttlegur bær með einni sjoppu og kyrrð og ró, og það besta sem ég veit er að drekka kaffi og spjalla, prjóna og horfa á sjónvarpið, labba með hundinn niður í fjöru og dást af umhverfinu.

         Sveitin mótaði mig þannig að ég vil hafa rólegt og kósý. Og ég gæti ekki hugsað mér að hafa það öðruvísi.

Áður birst í 42.tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir