Að kunna á kerfið - leikdómur um Gullregn

Sigmundur Jón Jóhannesson, Sæunn Hrönn Jóhannesdóttir og Ingibjörg Sólveig Halldórsdóttir í hlutverkum sínum. Mynd: Valdís Brynja Hálfdánardóttir.
Sigmundur Jón Jóhannesson, Sæunn Hrönn Jóhannesdóttir og Ingibjörg Sólveig Halldórsdóttir í hlutverkum sínum. Mynd: Valdís Brynja Hálfdánardóttir.

Það ríkir alltaf mikil eftirvænting þegar Leikfélag Hofsóss setur upp nýja sýningu. Í þessu litla byggðarlagi er haldið uppi ótrúlega öflugu Leikfélagi, sem vakið var upp af nokkrum dvala fyrir tæpum 20 árum að mér skilst. Kjarni félagsins, hvort sem er innan sviðs eða utan, eru miklir reynsluboltar. Það sýnir sig svo sannarlega í nýjustu uppfærslunni, Gullregni eftir Ragnar Bragason í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar.

Leikstjórinn segir sjálfur í viðtali í leikskrá að hann hafi gefið sér góðan tíma til að velja í hlutverkin. Hefur það skilað sér, því að hver einasti leikari skapar frábæran karakter sem unun er að fylgjast með. Að mínu mati átti Fríða Eyjólfsdóttir, í aðalhlutverki sem Indíana, stórleik, þann besta sem ég hef séð hjá henni og hefur hún þó verið góð. Sérstakt hrós fær hún fyrir að halda úti að vera á sviði allan tímann í löngu verki og það hálf raddlaus. Ingibjörg Sólveig Halldórsdóttir (Veiga á Mannskaðahóli) er einfaldlega fædd til að leika gamanhlutverk og klikkar ekki sem hin trúaða og bakveika Jóhanna sem vill allt fyrir alla gera og lifir gegnum samfélagsmiðlafærslur nánustu ættingja. Þriðji reynsluboltinn, Sigmundur Jóhannesson, skilar skemmtilega hlutverki sonarins Unnars, þrátt fyrir að þurfa að leika þó nokkuð niður fyrir eigin aldur. Sæunn systir hans á einnig góða spretti sem hin pólska Daníela. Þá má ekki gleyma Kristjáni Jónssyni sem að þessu sinni leikur tvö ólík hlutverk og fer vel með þau bæði. Margrét Árnadóttir skilaði á sannfærandi hátt embættismanninum ósveigjanlega frá ráðuneytinu. Þá átti Anna Árnína frábæra innkomu undir lokin í nokkuð óvenjulegu hlutverki sem ekki verður upplýst um hér.

Verkið er fremur nýtt af nálinni og býður upp á skemmtilega persónusköpun. Manni finnst maður þekkja einhvern sem líkist hverri einustu persónu og langar að lesa yfir hausamótunum á sumum þeirra. Svo ekki sé frá of miklu sagt er inntakið líf miðaldra konu sem er kerfisfræðingur og hefur ofverndað og sjúkdómavætt son sinn sem nú er kominn á fullorðinsaldur. En í lokin kemur á daginn að ekki er allt sem sýnist og eins og góð vinkona mín myndi orða það, „þetta er út af svolitlu“.

Sýningin sem undirrituð fór á var frumsýning. Í einstaka tilfellum var eins og smá hik á leikurum en þeir björguðu sér alltaf út úr því. Raunar er aðdáunarvert að fólk sem vinnur fulla vinnu á daginn og stundi leiklist á kvöldin skuli á ekki lengri tíma læra jafn ruglingslegan texta og þarna er um að ræða.

Sýningin er löng og á köflum nokkuð hæg, en ekki leiddist manni þó eina mínútu. Það kann líka að vera að í samanburði við hina hröðu hurðarfarsa, sem flest áhugaleikfélög sem ég hef fylgst með hafa valið sér til sýningar í gegnum árin, virðist flest annað ganga heldur hægt.

Sýningin samanstendur af tólf atriðum sem gerast á nokkuð löngu tímabili. Atriðunum eru gerð skil í leikskrá, en líklega hefði þurft að benda fólki á að skoða listann, eða gera grein fyrir þessu á sýnilegri hátt. Þetta hefði sýningarstjóri t.d. getað gert í upphafi, svona um leið og fólk er áminnt um að slökkva á farsímum.

Sviðsmyndin er sérlega vel heppnuð og hefur augljóslega verið nostrað heilmikið við hana. Maður dettur strax inn í blokkaríbúðina í Breiðholti seint á síðustu öld og allt sem snýr að sviði, leikmunum og búningum er mjög sannfærandi. Lýsing og hljóð er líka ágætlega heppnað og gera má ráð fyrir að allar skiptingar slípist enn frekar þegar líður á sýningarferlið.

Það eina sem skyggði á gleði mína þessa góðu kvöldstund í notalegu kaffihúsumhverfinu í Höfðaborg var hversu fáir gestir mættu á frumsýningu. Hvort það er feimni við að frumsýning sé aðeins fyrir útvalda, eða tímasetningin á fimmtudagskvöldi, skal ósagt látið. Hinn fámenni og góðmenni salur mátti hins vegar eiga það að viðbrögðin voru góð og hafa vonandi skilað sér upp á svið til leikaranna. Ég skora á lesendur Feykis, hvort sem þeir þurfa að bregða undir sig betri fætinum eða betri bílnum, að kíkja á Gullregn í uppsetningu Leikfélags Hofsóss.

Kristín S. Einarsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir