Að tilheyra

Takk fyrir áskorunina Silli, ég kann að meta hana.
Ég er upphaflega úr Reykjavík. Fermingarskórnir mínir voru ennþá volgir þegar ég flutti norður á Hvammstanga. Ég staldraði að vísu ekki lengi við í fyrstu atrennu, bara vegna þess að mér var mál að fara í skóla, en ég flutti aftur til baka með heimamann upp á arminn og vort annað barn á leiðinni árið 2003.

Að upplifa að maður tilheyri, hvort um er að ræða að tilheyra eigin fjölskyldu, vinahóp eða samfélaginu sem maður býr í er lífsnauðsynlegt. Maður verður auðvitað að vera opinn fyrir því að leyfa sér að tilheyra, sérstaklega þegar maður er aðfluttur en ég hef ekki upplifað annað en að fólkið í Húnaþingi vestra sé hlýtt, indælt og greiðvikið. Hér hef ég kynnst öllum mínum bestu vinum.

Við bjuggum í Húnaþingi vestra í nokkur ár, eða fram til 2007 og fluttum þá til Kaupmannahafnar. Við kunnum mjög vel við okkur í Kaupmannahöfn, æðislegur tími, við vorum þar í tíu ár. Lifðum og hrærðumst í risastórri borg með milljónum manna og möguleikarnir endalausir. Við héldum að við yrðum þar að eilífu, yrðum að mastera dönskuna því barnabörnin yrðu líklega al-dönsk.

Það var síðan einn góðan veðurdag á síðasta ári, inni í miðri Köben að það gerðist eitthvað inní mér, ég bókstaflega heyrði að lífið tók U-beygju. Ég vildi heim. Það sem hafði sterklega vantað upp á í líf okkar úti var tilfinningin að tilheyra samfélagi.

Við tókum því þá ákvörðun um að flytja heim til Íslands, með börnin fjögur og það kom einhvern veginn ekkert annað til greina en að flytja heim í Húnaþing vestra. Þetta var bara allt eins og að stíga í vinstri á eftir hægri, svo eðlilegt og við svo fullkomlega sátt. Við búum rétt fyrir utan Hvammstanga. Sveitalubbinn inní mér er í S-inu sínu og hve margir hafa sagt „velkomin heim“  vermir óneitanlega.

Það er auðvitað fólkið sem gerir samfélagið, og sú staðreynd hve ríkt Húnaþing vestra er af drífandi fólki á öllum sviðum, að hér er gott að vera. Hér er allt til alls, öll þjónusta og skemmtanalífið er engu líkt. Það er dagskrá allt árið!

En veðrið? Saknarðu ekki góða veðursins í Köben? Skítt með norðanáttina, settu bara á þig húfu!

 

Ég skora á Aldísi vinkonu mína að taka við pennanum.

Áður birst í 35. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir