Að vera fjölburaforeldri - Áskorandapenni Stefanía Sigurðardóttir Sauðárkróki

Inga María skoraði á mig að taka við pennanum og eins og öllum áskorunum í lífinu þá tek ég henni. Mér finnst það viðeigandi að skrifa um mína stærstu áskorun hingað til, að verða fjölburaforeldri!

Málið er að ég er fjölburaforeldri eins og svo margir aðrir hér á Norðurlandi vestra. Á síðastliðnu ári hefur margt fólk undið sér að mér í búðinni, á göngu eða jú bara fyrir utan heima hjá mér og spurt mig hvort að þau séu tvíburar, þegar ég svara því játandi þá er það fyrsta sem fólk segir „og er það ekki erfitt að vera með tvö?“, „eru þau þæg?“, „hvernig sofa þau?“ „mikið ertu heppin, mig langaði alltaf til að eignast tvíbura“. Ég svara þessum spurningum oftast mjög kurteis og segi svo að ég eigi líka eina stelpu til viðbótar sem er aðeins 22 mánuðum eldri en þau. Þá fær fólk hálfgert áfall og ekki skánar það þegar að ég segi þeim að ég sé líka að vinna með fæðingarorlofinu.

Samfélagið hefur breyst mikið á stuttum tíma og í dag miklar fólk fyrir sér að eiga mörg ung börn (meira að segja heldra fólk sem á mörg börn með stuttu millibili), það kallar mig hetju fyrir það eitt að koma elstu stelpunni í leikskólann með tvíburana með mér, nánast á hverjum morgni í nánast öllum veðrum. Kallar mig hetju fyrir að koma börnunum á fætur, klæða þau og koma þeim út. Fyrir mér er þetta ekki að vera hetja, heldur er ég einungis að sinna „vinnunni“ minni.

Málið er, það að sinna heimili og að vera fjölburaforeldri í fæðingar“orlofi“ er ekkert annað en vinna og krefst mikils skipulags til þess að heimilið gangi. Vinnudagurinn í fæðingar“orlofinu“ er 24 klukkustundir og það sem skiptir mestu máli er að halda rútínu, það þarf að þvo þvott, taka til, þrífa,  elda mat, gefa börnum (dag og nótt), veita ást og umhyggju og síðast en ekki síst að finna sér tíma til að borða sjálfur. Kæru lesendur þið megið samt ekki misskilja mig, hugtakið vinna er ekki alltaf leiðinlegt! Starfsheitið fjölburaforeldri er krefjandi, skemmtilegt, fjölbreytt og gefandi. Þeim einstaklingi sem tókst að klína hugtakinu „orlof“ á heimavinnandi foreldra sem sinna börnum allan sólarhringinn á launum hjá ríkinu hlýtur að vera snillingur. Það er engin tenging milli þess að vera heimavinnandi með mörg börn og að vera í fríi.

Það sem mér finnst verst fyrir okkur fjölburaforeldra er að við töpun heilum 6 mánuðum í réttindi til fæðingarorlofs með því að koma með tvö í einu! Við fáum okkar venjulegu 9 mánuði eins og allir, en svo einungis 3 mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt. Er þetta sanngjarnt? Ímyndið ykkur að þið væruð í venjulegri vinnu, þyrftuð að leggja fram tvöfalt vinnuframlag en þið fengjuð einungis 1/3 af yfirvinnunni borgaða. Enginn lifandi maður myndi láta bjóða sér það… allavega enginn sem ég þekki.

Ég skora á Sigrúnu Ben tengdamóður mína að taka við pennanaum.

Áður birst í 37. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir