Af ökuþórum og óþokkum :: Áskorandapenndinn Anna Margrét Sigurðardóttir

Þegar áskorunin um að skrifa í Feyki barst mér vildi svo til að ég var stödd úti á Tenerife með fjölskyldunni.

Þegar kom að því að byrja að skrifa ræddi ég við manninn minn um hvað ég ætti mögulega að skrifa og sagði honum að ég nennti eiginlega hvorki að skrifa um skóla- eða sveitarstjórnarmál (vanalega fyrsta val), enda í fríi og það er mikilvægt að taka fríin sín alvarlega.

En hvað í ósköpunum gæti ég þá skrifað um? Það er gott að spyrja hann, hann fær bestu hugmyndirnar (ég fæ flestar, en alls ekki allar góðar). „Máttu skrifa um hvað sem er?” Já, hvað sem er svaraði ég. „Af hverju skrifar þú þá ekki um go kart ferðina okkar frá því í dag? Hún gekk svo ljómandi vel. „Ég urraði smá á hann og sneri upp á mig því ég var ennþá örlítið krumpuð eftir ævintýri dagsins.

Þetta átti bara að vera gaman. En það endar ekki alltaf þannig. Og eftir á að hyggja þá hefðum við átt að vita betur.

Ferðin byrjaði vel. Allir voru spenntir og glaðir. Það var ákveðið að drengirnir myndu bara fara í bílana og við fullorðnu myndum horfa á og hvetja. Opinbera skýringin til drengjanna var að ég væri í svo fínum kjól og að ég vildi ómögulega óhreinka hann. En raunverulegu skýringuna vita flestir sem mig þekkja. Ég og kappleikir hvers konar eigum ekki vel saman. Keppnisskapið er gífurlegt og þrátt fyrir góðan vilja þá tekst mér ekki alltaf að hemja skapið í hita leiksins og þarna voru alveg líkur á að ég hefði getað endað leikinn stórsködduð á líkama og sál. Maður verður að vera meðvitaður um eigin takmarkanir og leyfa skynseminni stundum að ráða. Vandinn er bara sá að annar sonur minn, almennt hinn mesti ljúflingur og geðprýðismaður - alveg eins og pabbi sinn - hefur því miður erft keppnisskap móður sinnar.

Hann byrjaði rúntinn vel. Það var greinilegt að aksturinn átti vel við hann. En okkar ólukka var sú að á sama tíma þutu um brautina þrír breskir óþokkar á svipuðum aldri sem virtust hafa það takmark eitt að taka fram úr litla ljósablóminu hennar mömmu sinnar. Og þá fór heldur að þykkna í okkar manni (og mömmu hans líka). Við það æstust óþokkarnir heldur og það sem byrjaði sem notalegur rúntur var orðin barátta upp á líf og dauða!

Ekki bætti úr skák að uppi á áhorfendapöllunum stóðu foreldrar óþokkanna, tannlausir og tattúeraðir með óskiljanlegan hreim, og hvöttu þá áfram. Að lokum var mér nóg boðið þegar liðið gargaði og fagnaði eftir að einn af óþokkunum hafði náð að þvinga minn mann út af brautinni og út á gras. Ég gat ekki stillt mig lengur og hvæsti á liðið „yeah go on. Cheer him on for ruining another kid's day. Great parenting!” Einhverjir hefðu kannski ekki lagt í að hvæsa á þennan hóp en já….. Það virkaði allavega því nú dró heldur úr liðinu og þau hvöttu sína bara pent og mátulega það sem eftir var.

Þessum þrekraunum ætlaði aldrei að ljúka en þegar að því kom tókum við á móti köppunum okkar, ég tilbúin að stappa stálinu í minn mann - ég vissi jú upp á hár hvernig honum leið.

Yngra eintakið kom valhoppandi út af brautinni brosandi allan hringinn.

Enda hafði hann ekki verið í neinni keppni. Hann var þarna kominn til þess að njóta þess að rúnta um kappakstursbrautina í eigin heimi, hring eftir hring og vék sér fimlega frá í hvert skipti sem annar bíll nálgaðist og tók fram úr. Óþokkarnir höfðu lítið gaman af þessum furðufugli.

En sama gilti ekki um elsku mömmulinginn. Froðufellandi og sótsvartur af reiði kom hann til okkar og sagði bara eitt orð. Förum.

Ég knúsaði drenginn og minnti hann á það að hann hefði ekki verið í neinni keppni. Hann hefði bara átt að víkja eins og litli bróðir hans gerði. Ég bætti því svo við í mínum umhyggjusamasta og móðurlegasta tón að hann væri líka bara barn ennþá og þetta sturlaða keppnisskap myndi örugglega eldast af honum.

Fyrir aftan mig heyrði ég niðurbælt fliss í eiginmanninum.

Nú þyngdist heldur á mér brúnin og ég hafði bara eitt að segja. Komum!


*Þessi örsaga er skrifuð með samþykki allra sem í henni eru, stórra sem smárra.

Anna Margrét skorar á Viktoríu Blöndal að taka við áskorandapennanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir