Knapar ársins hjá Skagfirðingi verðlaunaðir

Daniel Gunnarsson og Elvar E. Einarsson formaður Skagfirðings. MYND FREYDÍS BERGSDÓTTIR
Daniel Gunnarsson og Elvar E. Einarsson formaður Skagfirðings. MYND FREYDÍS BERGSDÓTTIR
Uppskeruhátíð Skagfirðings var haldin í gærkvöldi mánudaginn 15.desember í Tjarnarbæ á Sauðárkróki. Knapar ársins hjá félaginu voru verðlaunaðir ásamt sjálfboðaliða ársins. Þetta kemur fram á Facebooksíðu félagsins. 
 
Knapi ársins og skeiðknapi ársins 2025 - Daniel Gunnarsson

Daniel Gunnarsson var útnefndur knapi ársins 2025 hjá félaginu en hann átti góðu gengi að fagna á skeiðbrautinni með Kló frá Einhamri 2, Smára frá Sauðanesi, Strák frá Miðsitju og Skálmöld frá Torfunesi en var einnig útnefndur skeiðknapi ársins. Daniel var valinn fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramót í Sviss þar sem hann lenti í 6.sæti í 250m skeiði og 9 sæti í 100m skeiði. Á Íslandsmótinu hlaut hann 3.sæti í 250m skeiði á tímanum 21.97sekúndur.

Á Reykjavíkurmeistaramóti sigraði hann gæðingaskeið með einkunnina 8.08, hlaut fjórða sæti í 250m skeið og 150m skeiði (14.54sek). Daniel stendur í sjötta sæti á heimslista FEIF í 250m skeiði og fjórða sæti á Íslandi. Einnig er hann í fjórða sæti í gæðingaskeiði á stöðulista með 8.08 í einkunn.
 

Knapi ársins í ungmennaflokki - Þórgunnur Þórarinsdóttir

Þórgunnur átti frábært ár á keppnisbrautinni. Hún var valin fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramótið í Sviss þar sem hún hlaut 2.sæti eftir sætaröðun í fimmgangi, reið til A-úrslita í tölti og var í 8.sæti í gæðingaskeiði. Á WR Hólamótinu sigraði hún fjórgang, tölt og gæðingaskeið. Á Íslandsmótinu var hún í þriðja sæti í fimmgangi, 8.sæti í gæðingaskeiði og samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum. Þórgunnur er í 2.sæti í fimmgangi á stöðulista yfir Ísland og top 10 í tölti og gæðingaskeiði.
 
Gæðingaknapi ársins 2025- Skapti Steinbjörnsson

 Skapti var í fimmta sæti í B-flokki á Fjórðungsmótinu í sumar með Kul frá Hafsteinsstöðum (8.71) og í B-úrslitum með Bláskegg frá Hafsteinsstöðum ásamt því að sigra B-flokk á Félagsmóti Skagfirðings og var í þriðja sæti í A-flokki á sama móti.

Íþróttaknapi ársins 2025- Kristófer Darri Sigurðsson

 Kristófer Darri Sigurðsson sigraði slaktaumatölt á WR Hólamótinu og var í fjórða sæti í fjórgangi á sama móti. Hann átti stórgott mót á Dalvík þar sem hann sigraði hann tölt (7.50) og fjórgang (7.10) með Ósk frá Narfastöðum og var í þriðja sæti í slaktaumatölt með Úlf frá Hrafnagili.

Knapar ársins í áhugamannaflokki 2025 - Þóranna & María Ósk

 Mikil aukning hefur verið síðastliðið ár í áhugamannaflokki og fór það svo að í ár voru tveir knapar jafnir að stigum. Knapar ársins 2025 í áhugamannaflokki hjá Skagfirðingi eru því Þóranna Másdóttir og María Ósk Ómarsdóttir.

-Þóranna lenti í fjórða sæti í fjórgangi, fimmgangi, og tölti í Skagfirsku mótaröðinni, í fjórða sæti í fjórgangi á Reiðmannsmótinu og 2 sæti í bæði tölti og fjórgangi á WR Hólamótinu. Einnig sigraði hún B-flokk áhugamanna á Félagsmóti Skagfirðings.
-María Ósk sigraði tölt á WR Hólamóti Skagfirðings og var í þriðja sæti í fjórgangi. Hún sigraði fjórgang og tölt í Skagfirsku mótaröðinni ásamt því að ná góðum árangri í Áhugamannadeild Norðurlands þar sem hún endaði í öðru sæti yfir heildina.
 

Katrín Ösp Bergsdóttir hlaut viðukenningu fyrir góðan árangur á árinu en þar má helst nefna bronsverðlaun í ungmennaflokki á Fjórðungsmóti Vesturlands með Hátíð frá Narfastöðum. Þær sigruðu einnig Félagsmót Skagfirðings og tölt á Stórmóti Hrings. Katrín sigraði einnig fimmgang á WR Hólamóti Skagfirðings með Alfreð frá Valhöll.

Skagfirðingur hefur í nokkur ár verðlaunað félagsmann ársins, en það er sá félagsmaður sem hefur að óeigingirni og dugnaði verið boðinn og búinn til að sinna hinum ýmsu störfum og tekið þátt í félagsstarfinu að mikilli jákvæðni svo eftir er tekið.
JÁ manneskja okkar í ár er Sædís Bylgja Jónsdóttir. Sædís Bylgja er sannur Skagfirðings félagi. Hún hefur verið mjög virk í mótanefnd Skagfirðings í fjölda ára og hefur eftir verið tekið elju og vinnusemi á því sviði. Hún mætir manna fyrst á mót til að sinna verkefnum sem þarf til að mót séu haldin, vinnur sem þulur, ritari, hefur umsjón með tölvumálum og stekkur til í öll verk. Hún fer svo ekki heim fyrr en búið er að ganga frá öllu en það eru leiðinlegu verkin sem virðast of gleymast.

 Sædís er alltaf boðin og búin til að aðstoða hvar sem þess gerist þörf. Hún er jákvæð, drífandi og mjög svo óeigingjörn á sinn tíma fyrir félagið. Sædís er svo sannarlega vel að viðurkenningu komin.

Freydís Bergsdóttir tók myndir af verðlaunahöfum og var svo elskuleg að leyfa okkur að birta þær hér á Feyki. 

Fleiri fréttir