Alveg laus við sérvisku eða hjátrú - Íþróttagarpurinn Sveinbjörn Óli Svavarsson

Ísak Óli og Sveinbjörn Óli. Mynd af netinu.
Ísak Óli og Sveinbjörn Óli. Mynd af netinu.

Í nóvember sl. var tilkynnt hverjir fengu þann heiður að vera valdir í landsliðshóp fyrir komandi verkefni hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands. Tveir Skagfirðingar eru í þeim hópi, Ísak Óli Traustason og Sveinbjörn Óli Svavarsson. Kapparnir tveir úr Skagafirðinum eru þrautreyndir á keppnisvellinum og hafa ósjaldan staðið á verðlaunapalli.

Sveinbjörn Óli er skráður í spretthlaup/grindahlaup/boðhlaup líkt og Ísak Óli sem einnig er skráður í þrautir en hann er ríkjandi Íslandsmeistari í sjöþraut. Feykir hafði samband við Sveinbjörn Óla og birti smá viðtal í Feyki í kjölfar fréttanna en hann býr í Reykjavík þar sem hann stundar nám í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Hann segir þó Sauðárkrók vera sitt heimili. Hann er af árgangi 1997 sonur Hafdísar Ólafsdóttur og Svavars Helgasonar á Sauðárkróki. Feykir hafði samband við Sveinbjörn Óla sem svaraði spurningum í Íþróttagarpi Feykis.

Íþróttagrein: -Spretthlaup 100m og 200m hlaup.

Íþróttafélag: -Hef alltaf keppt fyrir Ungmennasamband Skagafjarðar.

Helstu íþróttaafrek: -Ætli það sé ekki að vera valinn í landsliðshópinn fyrir árið 2021.

Skemmtilegasta augnablikið: -Það sem er mér ofarlega í huga er þegar ég hljóp mitt besta 100m hlaup síðasta sumar þar sem ég kom í mark á 11.04 sekúndum. Annars held ég að ég eigi ennþá skemmtilegustu augnablikin inni!

Neyðarlegasta atvikið: -Þegar mér var úthlutað allt of stórum keppnisbúningi á síðustu Reykjavíkurleikum. Þurfti að keppa í honum, og það í sjónvarpinu!

Einhver sérviska eða hjátrú? -Nei, ég held ég sé alveg laus við svoleiðis.

Uppáhalds íþróttamaður? -Christian Coleman.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Ég myndi skora á Jón Arnar Magnússon í golfi.

Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Held að sveiflan hjá honum gæti verið góð en ég myndi taka hann á greeninu!

Lífsmottó: -Góðir hlutir gerast hægt (meira að segja þegar það kemur að spretthlaupi).

Helsta fyrirmynd í lífinu: -Jóhann Björn Sigurbjörnsson liðsfélagi og vinur. Hann hefur aldrei gefist upp þótt á móti blási.

Hvað er verið að gera þessa dagana? -Læra fyrir lokaprófin og æfa.

Hvað er framundan? -Halda áfram í náminu og vonandi landsliðsferðir næsta sumar.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Ég er mjög þakklátur íþróttastarfinu á Sauðárkróki og þjálfara mínum Sigurði Arnari Björnssyni.

Áður birt í 46. tbl. Feykis 2020

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir