Ánægjulegt að sá EFTA ríkin funda í Skagafirði

Þegar ég tók við sem utanríkisráðherra árið 2013 lá fyrir að fundur EFTA ríkjanna það ár yrði haldinn í Vestmannaeyjum. Ég tók þá strax ákvörðun um að næsti fundur á Íslandi, árið 2018, yrði haldinn í Skagafirði og fer hann nú fram.

Það krefst mikils undirbúnings að halda slíkan fund og fékk hið frábæra starfsfólk Utanríkisráðuneytisins góðar móttökur í Skagafirði þegar undirbúningur hófst. Árið 2014 bauð ég utanríkisráðherrum Norðurlandanna til fundar og ákvað ég að sá fundur yrði haldinn utan Reykjavíkur og varð Reykholt fyrir valinu. Tókst sá fundur afar vel líkt og ég veit að sveitungar mínir í Skagafirði munu standa vel að móttöku fulltrúa EFTA ríkjanna.

Það að halda fundi sem þessa utan höfuðborgarinnar er sjálfsagt og mikilvægt að þeir séu haldnir sem víðast. Ekki eingöngu til að gestir okkar geti fræðst eða séð meira af Íslandi heldur líka til þess að sýna og sanna að þetta er hægt og koma fleiri stöðum á kortið sem ráðstefnustaðir. Eyjamenn leystu þetta vel 2013 og vonandi fara nú flestir til síns heima með þá óska í brjósti að heimsækja Skagafjörð einhvern tíma síðar.

EFTA ríkin, Ísland, Sviss, Liectenstein og Noregur eru ekki fjölmennasti samstarfsvettvangur ríkja í heimi en þessi ríki eru öll á sinn hátt efnahagslega sterk og búa yfir vörum, reynslu, tækni og þekkingu sem aðrir sækjast eftir.

Það er því ánægjulegt að sjá fríverslunarsamningum ríkjanna muni fjölga um tvo á fundinum í Skagafirði því fá lönd eru háðari frjálsum viðskiptum sem fara eftir lögum, reglum og alþjóðasamningum en Ísland og hin EFTA ríkin og mikilvægt að net fríverslunarsamninga sé víðfeðmt.

Ég vil óska Skagfirðingum til hamingju með að hýsa fund EFTA ríkjanna 2018 og um leið þakka þeim utanríkisráðherrum sem setið hafa frá 2016 að hverfa ekki frá ákvörðun minni um að halda fundinn í Skagafirði.

Gunnar Bragi Sveinsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir