Arfur Miklabæjar-Solveigar - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Á myndinni er faldbúningur frá 18. öld. Á beltinu má sjá skart sem að stærðinni til líkist skarti Solveigar, sem þó er einfaldara að allri gerð.
Á myndinni er faldbúningur frá 18. öld. Á beltinu má sjá skart sem að stærðinni til líkist skarti Solveigar, sem þó er einfaldara að allri gerð.

Á dögunum bárust Byggðasafni Skagfirðinga merkisgripir. Um er að ræða skartgripi, tvær litlar kúpur og pinna sem fylgir þeim. Skartgripir þessir eru í sjálfu sér tiltölulega einfaldir og látlausir, en það sem gerir þá sérstaka er saga þeirra, sem er samofin einni þekktustu þjóðsögu Skagfirðinga, nefnilega sögunni af Miklabæjar-Solveigu.[1]

Þjóðsagan um Solveigu og séra Odd á Miklabæ er ákaflega grípandi og efniviðurinn, ástir, sorg, dulúð og drama, til þess fallinn að bæra strengi innra með flestum okkar. Það eru þó ekki síður eftirmálar sögunnar sem vekja undrun og áhuga margra, en þeir eru í meira lagi forvitnilegir. Áhugasömum er bent á ítarlega umfjöllun Sölva Sveinssonar í Skagfirðingabók.[2] Í grein Sölva er þjóðsagan rakin, sem og ættarsaga og uppruni aðalpersóna og heimildir og kenningar um afdrif þeirra skoðaðar ítarlega. Hér verður aðeins stiklað á stóru um meint tengsl atburða og skartgripanna sem nú eru varðveittir á Byggðasafninu.  

Þjóðsagan um séra Odd og Solveigu skilur við okkur með þær upplýsingar að sr. Oddur hafi horfið með öllu og aldrei fundist. Síðari heimildum ber ekki saman um hvort hann hafi fundist eður ei, en ein kenning segir að það hafi hann svo sannarlega gert og verið jarðsunginn í kyrrþey í Héraðsdal. Fleiri kenningar eru til en sannleikurinn verður að liggja á milli hluta.

Þjóðsagan segir ennfremur að Solveig hafi verið dysjuð utan kirkjugarðsins á Miklabæ og það skulum við skoða nánar. 

Solveig var dysjuð utan kirkjugarðs árið 1778. Þar sem hún tók sitt eigið líf átti hún sér ekki legstað í helgum reit. Fólk taldi sig, lengi á eftir, vita hvar hún var grafin en rétt norðan við gamla kirkjugarðsvegginn var þúst sem kölluð var „leiðið hennar Solveigar“. Þegar kirkjugarðurinn var stækkaður til norðurs árið 1910 lenti þústin innangarðs. Árið 1914 var tekin gröf í garðinum og greftrunarmenn, þeir Sigurður Einarsson frá Stokkhólma og Jóhannes Bjarnason frá Grundarkoti, komu niður á kistu sem lá „út og suður“ (þvert á hefðbundna stefnu). Kistan hrökk í sundur þegar farið var að eiga við hana og komu þá í ljós bein, svart hrokkið hár og fatnaður. Þeir þóttust vissir um að þar væri Solveig fundin, en sr. Björn Jónsson, sem þá var prestur á Miklabæ, bað þá að hafa hljótt um fundinn. Kistubrotum og beinum var hliðrað suður undir grafarbakkann og jarðsett í gröfina eins og til stóð.

Vorið 1937 fóru harla sérstæðir hlutir að gerast. Maður að nafni Pétur Zophoníasson hringdi í sr. Lárus Arnórsson, sem þá var prestur á Miklabæ og bað um liðveislu við að grafa upp jarðneskar leifar Solveigar og fá leg fyrir þær í kirkjugarðinum í Glaumbæ. Hann kvað þessar óskir hafa komið fram á miðilsfundum í Reykjavík, bæði frá Solveigu sjálfri og öðrum verum. Sr. Lárus leitaði til yfirboðara sinna varðandi fyrirspurnina og 23. júní sendi Pétur son sinn, Zophonías, til að vinna verkið. Fyrst bar mönnum ekki saman um nákvæma staðsetningu beinanna. Leitað var eftir tilsögn sonar konunnar sem hafði verið jarðsett við hlið beinanna á sínum tíma, en ekkert fannst.

2) Skart (BSk-2019:4), hugsanlega nælur eða svuntuhnappar úr eir- eða koparblöndu. Gefandi er sr. Þórsteinn Ragnarsson, barnabarn sr. Lárusar á Miklabæ. Nánari upplýsingar um gripina má finna á Sarpi.

Skart (BSk-2019:4), hugsanlega nælur eða svuntuhnappar úr eir- eða koparblöndu. Gefandi er sr. Þórsteinn Ragnarsson, barnabarn sr. Lárusar á Miklabæ. Nánari upplýsingar um gripina má finna á Sarpi.[1]

Sigurður frá Stokkhólma, sem hafði fundið beinin árið 1914 og taldi sig fullvissan um hvar þau væri að finna, var þá að heiman vegna vinnu. Þá gerðist það að Þorsteinn Björnsson á Hrólfsstöðum (sem sagður var afar berdreyminn) lagði sig eftir morgunmat og dreymdi að hár og mikill maður, svartskeggjaður, kæmi til sín og segði: „Þú gerir það sem þú verður beðinn um.“ Þorsteinn fór á fund Sigurðar, sagði honum frá draumnum og fékk hann til að fara með sér að Miklabæ. Þegar þeir grófu komu kistan og beinin í ljós þar sem Sigurður hafði sagt til um. Stefán Jónsson á Höskuldsstöðum og sr. Lárus voru viðstaddir og eftir nánari skoðun beinanna gátu þeir sér til um að þau væru úr þrítugri, frekar lágvaxinni konu. Stærð kistufjalanna benti til að hún gæti hafa verið grafin í fatakistu, eins og stundum var gert. Ásamt beinum og kistufjölum komu upp úr moldinni silfurmillur og fatapjatla.

Beinin voru færð til Miklabæjarkirkju og var sungið yfir þeim sunnudaginn 11. júlí. Þaðan var farið með beinin í Glaumbæ, að viðstöddu nokkru fjölmenni. Ekki var sama hvar beinin voru jarðsett í Glaumbæ. Eina nóttina í aðdraganda þessara atburða dreymdi Stefán á Höskuldsstöðum að hann stæði í kirkjugarðinum í Glaumbæ og sæi þar opna gröf. Þar voru jarðneskar leifar Miklabæjar-Solveigar grafin og öðlaðist hún þarna, 159 árum eftir að hún var dysjuð á Miklabæ, loksins hvíld í helgum reit.

Fyrrnefndar silfurmillur sem fundust hjá beinunum eru skartið sem fært var safninu á dögunum. Í öllum upplýsingum sem fylgja skartgripunum er talað um millur, en eftir nánari eftirgrennslun virðist sem hér gætu verið á ferð einhverskonar nælur af belti eða hnappar, e.t.v. svuntuhnappar sem tilheyrðu faldbúningum fram á 18. öld. Kúpurnar eru semsagt hvorki það sem við köllum nú millur (krækjur á upphlut) né úr silfri. Þær eru úr eir- eða koparblöndu.

Vera má að búningaskart hafi verið kallað öðrum nöfnum áður fyrr eða að hugtakið millur hafi verið notað fyrir skartið í heild. Að uppgreftinum komu karlmenn og mögulegt er að þeir hafi ekki áttað sig á einstökum hlutum kvenbúningsins. Þá má einnig vera að þær hafi virst og verið silfurslegnar þegar þær fundust og að tæring, á þeim rúmu 80 árum sem þær hafa gengið manna á milli frá því þær komu úr jörðu, hafi máð þær. Í öllu falli voru kúpurnar gefnar Zophoníasi Péturssyni til eignar, með þökkum að handan fyrir veitta aðstoð, og fóru á milli einstaklinga í hans fjölskyldu þar til þær lentu hjá föður gefanda, syni sr. Lárusar á Miklabæ.

Við munum seint vita nákvæmlega hvað gerðist á Miklabæ fyrir hartnær 250 árum og ekki eru óyggjandi sannindi fyrir því að kúpurnar sem varðveittar eru á Byggðasafninu hafi tilheyrt Miklabæjar-Solveigu. En góð saga á aldrei að gjalda sannleikans. 

Áður birst í 33. tbl. Feykis 2019[1] Þjóðsöguna má finna á eftirfarandi slóð: https://www.snerpa.is/net/thjod/miklasol.htm

[2]  Sölvi Sveinsson. Af Solveigu og séra Oddi (bls. 69-127). Í Skagfirðingabók: Rit Sögufélags Skagfirðinga, 15. Árg. (1986). Ritsj. Gísli Magnússon, Hjalti Pálsson o.fl. Reykjavík. [Umfjöllun þessi byggir í meginatriðum á grein Sölva Sveinssonar].

[3]  BSk 2019:4.  http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1972046 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir