Betri þjónusta – allra hagur

Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar okkar í sveitarstjórn leiði hugann að því að þeir eru þjónar fólksins í sveitarfélaginu. Þeir eru kosnir til að gæta hagsmuna þeirra og setja metnaðarfull verkefni af stað. Verkefni sem þjóna öllum íbúum hvar svo sem þeir velja að búa, inn til dala og út með firði sem og á Sauðárkróki.

Verkefni sveitarfélagsins snúa að miklu leyti að þjónustu. Rekstur grunn- og leikskóla eru þar fyrirferðarmestir. Þjónusta við eldri borgara er ekki síður mikilvæg en þar þarf að huga að jafnræði. Ekki má mismuna íbúum eftir búsetu. Það er óviðunandi að eldra fólki í sveitinni sem velur að búa í eigin húsnæði sé neitað um samskonar þjónustu og veitt er í þéttbýli. Allir sem þurfa á þjónustu að halda s.s. að fá heimsendan mat eiga rétt á henni burt séð frá búsetu. Hér þarf að breyta um stefnu og vinna að bættum hag aldraðra í samvinnu við hið nýja öldrunarráð.

Sveitarfélagið Skagafjörður er leiðandi í þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra. Það þýðir að sveitarfélagið ber ábyrgð á rekstri og þjónustu við fatlað fólk á svæðinu. Málaflokkurinn hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og skilningur og nálgun á þörfum fatlaðra hefur breyst. Mikilvægt er að huga enn frekar að bættri þjónustu og ákveðið hefur verið að taka í gagnið aðferðarfræði í þjónustu við fatlað fólk sem heitir „Þjónandi leiðsögn“. Sveitarfélagið Skagafjörður mun í haust hefja innleiðingu á þessari aðferðarfræði í umönnun og þjónustu við fatlað fólk og verður spennandi að vera þátttakandi í því. Ekki má heldur gleyma aðgengismálum. Þar bíða mörg verkefni úrbóta, s.s. hjólastólaaðgengi í Bifröst. Hluti af aðgengismálum fatlaðra snúa ekki síður að snjómokstri og hálkuvörnum. Þar þarf að þarfagreina hvað hægt er að gera betur. Vinnuaðstaða fatlaðra er nú komin í gott húsnæði við Sæmundarhlíð. Aðstaðan er til fyrirmyndar og starfsemin hefur dafnað á liðnum mánuðum. Í vetur hafa íbúar á heimili fyrir fatlað fólk á Blönduósi nýtt sér aðstöðuna í Iðju.

Það er ekki síður mikilvægt að kjörnir fulltrúar hugi að samfélagslegum þáttum, svo sem heilsu, almennri vellíðan og félagslegum þörfum. Rekstur og stjórnun sveitarfélagsins á ekki bara að snúast um tölur á blaði. Mikilvægt er að hefja samtal á milli allra aðila er koma að uppeldismálum í víðu samhengi. Þar á ég við bæði grunn- og framhaldskóla, íþróttahreyfinguna, heilbrigðisyfirvöld og lögreglu. Sala og neysla fíkniefna hefur verið áberandi og þar þarf svo sannarlega að spyrna við fótum. Það er ánægjuefni að stofnuð hefur verið staða rannsóknarlögreglumanns við lögregluembættið á Sauðárkróki. Það er von mín að með auknum mannafla í löggæslu fáum við tækifæri til að snúa þessari þróun við. Markalaus hegðun í tengslum við neyslu vímuefna og kynferðismál sem við höfum séð á liðnum mánuðum á að vera okkur áminning um að hafa augun opin. Við þurfum að sýna samfélagslega ábyrgð og ekki undan líta. Þar höfum við okkur orðið á og slíkt má aldrei aftur gerast. Við þurfum að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning og tryggja aðgengi þeirra að þjónustu. Verkferla þarf að skýra og þolendur utan höfuðborgarsvæðisins eiga rétt á viðunandi sálfræði og geðheilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð. Það er von mín að breytt skipurit hjá fjölskyldusviði tryggi betri þjónustu við alla aldurhópa og ekki síður við barnavernd.

Gerum gott samfélag enn betra. Setjum x við D á kjördag.

Ari Jóhann Sigurðsson
Forstöðumaður á heimili fyrir fatlað fólk á Blönduósi og
skipar 6. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir