Burt með græðgina – endurreisum sparisjóðina
Margoft varaði ég við „háeffun“ sparisjóðanna, braski og taumlausri markaðsvæðingu sumra þeirra. Ég hef krafist þess að einungis þeir sparisjóðir sem starfa á grunni hugsjóna félagshyggju og samvinnu fái að bera heitið „sparisjóður“ í nafni sínu.
Ég hef gagnrýnt Fjármálaeftirlitið fyrir að standa ekki vörð um hagsmuni almennings þegar gírugir fjárplógsmenn réðust á sparisjóðina til að komast yfir stofnfé þeirra og samfélagslegar eignir.
Það vekur ónot að heyra að sparisjóður, sem borgaði svokölluðum „eigendum“ sínum á annan tug milljarða í arð, verður svo að sækja sömu upphæð eða meira rúmu hálfu ári seinna til ríkisins til að bjarga sér frá hruni. Það er mín skoðun að þeir sem skammta sér arð af fé sem aðrir eiga skulu krafðir um að skila því til baka!
Mikilvægt er að rannsaka rækilega framferði þeirra sem brutust inn í sparisjóðina og hirtu eigur þeirra og samfélagsins og láta þá svara fyrir gjörðir sínar. Þetta á einnig við um eftirlitsstofnanir eins og Fjármálaeftirlitið.
Dæmigert var fyrir viðbrögðin, þegar bændum og almennum stofnfjárhöfum í Skagafirði var vísað á dómstóla þegar þeir reyndu að leita réttar síns hjá Fjármálaeftirlitinu og verja sparisjóðinn sinn. Nú væri ef til vill lag að ná Sparisjóði Skagafjarðar til baka aftur í hendur heimamanna.
Heiðarleika til vegs á ný
Nú eru flestir sammála um að hlutafélagavæðing SPRON hafi verið alvarleg mistök. En þetta máttu menn sjá fyrir. Ég og fleiri þingmenn VG fluttum ítrekað tillögur á Alþingi til varnar sparisjóðunum og heiðarleika í fjármálaviðskiptum. Stjórnvöld skelltu við því skolleyrum.
Einlægir samvinnumenn og stofnfjárhafar í ýmsum héraðssparisjóðum vissu hvað var í húfi og börðust fyrir sparisjóðinn sinn. En sumir urðu að lúta í lægra haldi, oft gegn sameinuðum kröftum græðgisaflanna og svokallaðra eftirlitsstofnana.
Þeir sparisjóðir og forsvarsmenn þeirra, sem ekki fóru út í braskið og fjárglæfrana, standa sem betur fer áfram með óskert orðspor.
Sparisjóður skal vera sparisjóður
Sparisjóðirnir munu gegna lykilhlutverki í endurreisn heiðarlegs fjármálakerfis í landinu. Mikilvægt er því að hefja aftur til vegs héraðssparisjóði sem geta þjónað minni fyrirtækjum og einstaklingum í nærumhverfi sínu. Til að svo megi verða þarf að tryggja hinn félagslega grunn sparisjóðanna og standa vörð um þá sjóði, sem stóðu græðgisvæðinguna af sér. Látum þá sparisjóði sem vörðust árásum braskaranna ekki gjalda hinna.
Það á að vera forsenda fyrir aðkomu ríkisins að sparisjóðunum sem verða endurreistir, að þeim sé gert skylt að endurskipuleggja sig í samræmi við grunngildi sparisjóðanna.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp frá mér og fleiri þingmönnum VG um að þeir einir mega bera heitið sparisjóð í nafni sínu sem sannanlega starfa á hugsjónagrunni þeirra.
Stöndum vörð um sparisjóðina, stöðu þeirra og hlutverk í heiðarlegri og traustri fjármálaþjónustu hins nýja Íslands.
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.