Byggjum upp gott samfélag

Sumir sjá bara það sem þeir vilja sjá og heyra bara það sem þeir vilja heyra. Einn góður maður spurði mig um daginn: „Eru virkilega fíkniefni í Skagafirði og er fíkniefnaneysla í Skagafirði?“  Svarið við því er „JÁ“. Eða bara nákvæmlega eins og allstaðar annarsstaðar á landinu.   

Forvarnir er gríðarlega gildishlaðið hugtak sem snýr að mörgum hliðum mannlífsins. Þær hliðar sem ég ætla aðeins að fjalla um snúa að fíkniefnum og fíkniefnaneyslu. Undanfarið hafa verið uppi háværar raddir varðandi lögleiðingu fíkniefna og afglæpavæðingu einkaneyslu fíkniefna og meira að segja hafa ákveðnir þingmenn opinberað, að mínu mati, ábyrgðarlausar og kjánalegar skoðanir sínar á málefninu. Afglæpavæðing er eitt en lögleiðing er annað. Flestir fíklar sem ég hef fyrir hitt eru ekki slæmt fólk heldur ólánsfólk sem hefur orðið fíkninni að bráð. Ég hef líka hitt mörg skítseiðin sem aldrei hafa komið nærri fíkniefnum en það er önnur saga. Sitt sýnist hverjum en ég get ekki tekið undir þau sjónarmið að gefast upp fyrir þeim vágesti sem fíkniefnin eru og samþykkja fíkniefni sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut í samfélaginu okkar. Það þætti mér ábyrgðarlaust.

Það er fátt sem bendir til þess að neysla fíkniefna fari minnkandi enda hefur áróðurinn með meiri en á móti. Það virðist a.m.k. ganga illa að sporna gegn þessari þróun og er víða pottur brotinn.  

Vonandi ber okkur öllum gæfa til að taka ábyrgar ákvarðanir sem verða okkur og komandi kynslóðum til heilla. Þróunin er skuggaleg en hvað er til ráða? „Forvarnir“ er ein leið en hver sér um þær. Skólarnir, félagsmiðstöðvarnar? Ég veit ekki betur en að þar sé bara býsna vel staðið að fíkniefnaforvörnum en er það nóg? Mestu og bestu forvarnirnar fara fram inn á heimilinu þar sem foreldrar og nærumhverfið eru sterkustu áhrifavaldarnir í lífi barnanna okkar fyrstu árin og enn lengur ef sambandið er heilbrigt. Það er fyrst og síðast á ábyrgð okkar foreldranna að upplýsa börnin okkar og leiðbeina þeim og þeirri ábyrgð skellum við ekki á skólana, félagsmiðstöðvarnar, kirkjuna eða aðra sem koma að uppvexti barnanna okkar.  Samfélagið ber líka mikla ábyrgð. Sem dæmi - Hvað á sá að gera sem veit um ungmenni sem farið hafa af leið og eru komin í neyslu eða sá sem býr yfir upplýsingum eins og t.d. varðandi fíkniefnasala eða annað slíkt? Það að taka upp símann og tilkynna til þeirra aðila eins og t.d. lögreglu og barnaverndar sem gætu stigið inn í og stöðvað málið, gæti jafnvel orðið til þess að bjarga mannslífum.

Sjálfstæðisflokkurinn í Skagafirði hefur skýra sýn varðandi forvarnir. Við viljum sjá aukið samtal milli allra þeirra aðila sem koma að málum eins og lögreglu, heilsugæslu, skóla, kirkju, félagsmiðstöðva og annarra.  Með því teljum við hægt verði að halda uppi skilvirku forvarnarstarfi. Það gæti einnig átt þátt í að auðvelda fórnarlömbum fíknisjúkdóma og eins fórnarlamba ofbeldis að leita sér aðstoðar og fá framgang mála sinna. 

Við berum öll samfélagslega ábyrgð. Tökum þá ábyrgð alvarlega og stöndum hvert með öðru í að byggja upp gott samfélag.      

Steinar Gunnarsson
Höfundur skipar 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir