Ég er Framsóknarmaður - Hannes Bjarnason skrifar frá Noregi

Þessi orð hef ég ekki þorað að segja opinberlega í mörg herrans ár. Jafn mörg ár og eru liðin frá því að Steingrímur Hermannson hætti opinberum afskiptum af pólitík.

Leið mín og Framsóknarflokksins skildu er flokksforystan fór að halla sér lengra og lengra til hægri. Það hefur verið sorglegt að horfa upp á Framsóknarflokkinn sigla inn í kjölfar Sjálfstæðisflokksins og berjast þar fyrir lífi sínu. Á meðan forysta Framsóknarflokksins hefur haldið því fram að flokkurinn eigi rétt á sér og sé góður valkostur í íslenskri politík – þá hef ég og fleiri kallað flokkinn „Litla Íhald“ – og það með réttu.

Seinustu ár hafa Sjálfstæðisflokkurinn og „Litla Íhald“ hafa farið stóran og barið sér á brjóst, stundað einkavæðingu, gefið ævintýramönnum miklar eignir sem þeir síðan hafa nýtt til síns ýtrasta í kapphlaupi kapítalismans. Almúginn hefur staðið og horft á þetta undur sem kapítalisminn er og veitir, þ.e. gnægð peninga, vöxt, góðæri og ennþá meiri peninga. Það er svo sem ekkert undarlegt þó Sjálfstæðisfolkkurinn hafi haldið sínu fylgi vel, að minsta kosti á meðan vel gengur.

Á sama tíma hefur „Litla Íhald“ tapað sínu fylgi ár frá ári án þess að flokksforystan hafi náð að skýra það. Auðvitað skilur almúginn það ósköp vel af hverju þetta fylgishrun hefur orðið. Af hverju ætti einhver að kjósa „Litla Íhald“ þegar maður getur bara kosið Sjálfstæðisflokkinn beint?

Halldór Ásgrímsson hætti og ég sakna hans alls ekki. Með Halldór sem leitoga flokksins hvarf samvinnustefnan í Framsókanflokknum og úr íslenskum stjórnmálum – því miður.
Það hefur lengi verið mín von, eða draumur að Framsóknarflokkurinn muni finna aftur til uppruna síns og verða það afl í íslensku þjóðfélagi sem byggir á hinum gullna meðalvegi – sem að mínu mati er í raun og veru samvinnustefnan.

Það var stórkostleg að sitja erlendis og lesa bréf það sem lak út í fjölmiðla og sem er tileinkað Gunnari Oddsyni og Sigtryggi Björnssyni. Þeirra orð eru eins og töluð út úr mínum munni. Það er mér léttir þegar ég sé að það finnast ennþá þeir framsóknarmenn sem eru trúir uppruna sínum – menn sem eru Framsóknarmenn.

Nú er tími til að leggja „Litla Íhald“ dautt og líta til framtíðar og segja „Ég er Framsóknarmaður“

Kveðja fra Noregi,
Hannes Bjarnason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir