Ég er íbúi í Skagafirði

Það er svo margt sem ég elska við Skagafjörð, við eigum magnaðar náttúruperlur sem við erum svo heppin að fá að njóta á hverjum degi, við eigum stórkostlegt mannlíf og afar mörg virk starfandi félagssamtök. Við getum verið afar stolt af allri uppbyggingunni sem á sér stað í Skagafirði í íþrótta og tómstundastarfi. Við eigum endalaust af glæsilegum viðburðum og glæsilegu fólki sem er tilbúið að gefa tíma sinn og vinnu í óeigingjarnt starf fyrir samfélagið sitt, hvort sem það er í þágu menningar, íþrótta, einstaklinga, fjölskyldu eða sérstaks málefnis. Samfélagið okkar hefur þá sérstöðu að vera umhugað um hvert annað, þá sérstöðu þurfum við að passa upp á.

Skagafjörður er afar dreifð byggð, á 4,180 km2 búum við næstum 4000 manns. Við veljum að búa í t.d. Fljótum, Hofsósi, Varmahlíð, Sauðárkróki  og þar með veljum við að búa í Skagafirði. Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum“. Því miður hnýt ég við orðið réttindi, því sveitarfélagið mitt sem ég elska, er því miður ekki að standa pliktina gagnvart íbúum Skagafjarðar í þeim efnum. Árið er 2018 og þá er mér spurn hví heitt vatn sé forréttindi en ekki mannréttindi. Hví er ekki jafn réttur íbúa Skagafjarðar til þeirra gæða og þjónustu sem kostuð er af almannafé og nýtist mönnum til að vaxa og dafna. Hví er boðið upp á heimsendan heitan mat til eldra fólks einungis á Sauðárkrók en ekki í öllum Skagafirði. Hví gildir ekki jafnrétti óháð búsetu í fallega samfélaginu okkar. Réttlætiskennd mín grætur  svo sárt yfir svona ójöfnuði sérstaklega þar sem margt af þessu er svo hæglega hægt að breyta án mikils tilkostnaðar t.d. auðveldlega væri hægt að nýta skólamötuneyti hvers þéttbýliskjarna, hvort sem eldra fólk myndi vilja og hefði getu til að fara í mötuneytið í hádeginu eða að sendill yrði ráðinn á hverjum stað til að sendast með matinn. Þannig myndast einnig svæðisbundin störf.

Samkvæmt 1. gr Grunnþjónustu skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því

 a. að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti,

b. að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna,

c. að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi,

d. að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.

Sveitarfélög eiga skv. X. kafla félagsþjónustulaganna að stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf svo lengi sem verða má og tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir þá og stofnanaþjónustu þegar hennar er þörf. Í því felst að það hvílir ekki ófrávíkjanleg skylda á sveitarfélögum að reka dvalarheimili, þjónustuíbúðir eða önnur húsnæðisúrræði fyrir aldraða. Það fer eftir aðstæðum á hverjum stað og mati á þörf. Hins vegar er sveitarfélögum skylt að veita öldruðum heimaþjónustu, aðgang að félags- og tómstundastarfi og sjá þeim fyrir heimsendingu matar. Þetta er sú grunnþjónusta sem sveitarfélögum ber að veita öldruðum. Þessu er sveitarfélagið okkar því miður ekki að sinna fyrir allan fjörðinn. Látum mannréttindi, jafnrétti óháð búsetu og félagslegt réttlæti vera keppikefli næstu sveitastjórnar. Áður en við framkvæmum eitthvað annað, skulum við sameinast í að styrkja innviði og mannauð Skagafjarðar og koma þessum grundvallar réttindum í lag. Við getum það öll saman.

Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir
Höfundur skipar 3. sæti VÓ – Vinstri græn og Óháð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir