Einelti er dauðans alvara :: Leiðari Feykis

Það er alltaf sami hausverkurinn að finna hvað skuli skrifa um í leiðara og oftar en ekki snarsnýst efnið í höndum skrifara áður en skrifum er lokið. Einhverjir kunna að halda að efnið sem tekið er fyrir hverju sinni sé útpælt og djúpt kafað í málin en hér verður mikið leyndarmál dregið fram úr skúmaskoti. Oftast nær er leiðarinn það síðasta sem ritað er í blaðið og ætíð undir tímapressu þar sem dauðalínan, eða „dead line“ upp á ástkæru enskuna, er nánast undir iljum skrifara.

Ýmislegt væri hægt að grípa í núna til að skrifa um; eineltismál, lespróf, yfirvofandi heimstyrjöld eða komandi kjarabaráttu, jafnvel erfiðleika unga fólksins við að koma þaki yfir höfuð sér. Fyrst dettur mér í hug eineltismálið, sem landsmenn hafa fylgst með í fjölmiðlum, sem er eins sorglegt og hægt er að hugsa sér. Þrettán ára stúlka, Ísabella Von, reynir sjálfsvíg eftir hrottalegt einelti annarra stúlkna á sama reki. Móðirin, Sædís Hrönn Samúelsdóttir, vekur athygli á málinu í fjölmiðlum og nær þeim árangri, a.m.k. í bili, að eitthvað virðist þokast í áttina að vopnahléi.

Móðirin hefur upplýst að eineltið hafi viðgengist í marga mánuði, án afláts, og er það umhugsunarvert hvernig á því standi. Hefur hún reynt að fá hjálp úr ýmsum áttum en ekkert gengið. Það er ekki fyrr en málið kemst í fjölmiðla sem gripið er í taumana. Þá spretta líka fram alls kyns sérfræðingar sem vita nákvæmlega hvers vegna fólk hagar sér á þennan hátt, hvernig á að tækla vandamálið og hvernig megi koma í veg fyrir að álíka hlutir gerist aftur.

Á Vísi kemur fram að líf þeirra mæðgna hafi verið tilfinningaleg rússíbanareið síðan þær stigu fram  og greindu frá raunum Ísabellu en síðan þá hafi líka fjöldi ungmenna beðið Ísabellu afsökunar. Það er með hreinum ólíkindum að þetta hafi fengið að viðgangast eins lengi og raun ber vitni og allar þær eineltisáætlanir sem til eru, og ýmsar stofnanir skreyta sig með, skuli ekki virka til að stöðva svona lagað. Ég held að það sé ekki rétta leiðin að koma öllum eineltismálum, sem þarf að grípa inn í, í fjölmiðla þó þeir fagni athyglinni. En ef það er sú lausn sem virkar, þá tek ég þátt!

Góðar stundir!
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir