Ekki reyndist það aprílgabb hjá Hinna - Áskorandinn Árni Gunnarsson Sauðárkróki

Vinur minn Guðmundur Stefán Sigurðsson, fornleifafræðingur, skoraði á mig að taka við áskorandapennanum. Austurdalur í Skagafirði er okkur báðum kær. Dalurinn er fallegur og ósnortinn og á sér langa og merkilega sögu. Frægasti draugur dalsins er Skotta kennd við Ábæ en fjölskyldufyrirtækið okkar Elenóru, Skotta Film heitir einmitt eftir Ábæjar Skottu.

Eftirminnilegast er það góða fólk sem bjó í dalnum og ég kynntist í æsku. Þá var búið á Stekkjarflötum, Gilsbakka, Merkigili, Skatastöðum og Bústöðum og þó Kelduland sé ekki í Austurdal var Stefán Hrólfsson, gangnaforingi þar í áratugi,  fæddur og uppalinn í dalnum. Það var og er þannig að bændur á þessu svæði hjálpast að. Hjörleifur Kristinsson var póstur og bóndi á Gilsbakka og bjó þar einn síðustu áratugina. Hann var mikill vinur okkar barnanna í Flatatungu, fór með okkur í rannsóknarferðir og fjallgöngur, kenndi bræðrum mínum að lesa plöntur og mér að yrkja ferskeytlur og ljóð. Við og fleiri hjálpuðum honum að heyja á sumrin og stundum fór ég í nokkra daga fram í Merkigil að hjálpa Helga Jónssyni bónda við heyskapinn en hann bjó þar með Moniku Helgadóttur og síðan einbúi eftir að Mona dó. Eins var það árvisst að við bræðurnir fórum í göngur og eftirleitir með þeim á Bakkadal. Þá gat færst fjör í leikinn þegar reynt var að koma höndum yfir sauði og útigangskindur eins og Hjörleifur lýsti í kvæðinu um Kollu með skemmda eyrað.

Óþekku ærnar þjóta
óspart þær neyta fóta,
ég elti þær alltaf og blóta,
að því kominn að skjóta. 

Ég ætla bráðum með Árna,
engan þarf hest að járna,
að elta útigangs kindur,
enda sé lítill vindur.

Landið er giljótt og geirað,
gamlir lækir og fleira að,
svo hvergi er hægt að keyra að,
Kollu með skemmda eyrað.

Ég var um fermingu þegar ég fór í þessa eftirleit með Hjörleifi og Helga á Merkigili. Löngu síðar er þessir vinir mínir voru báðir dánir orti ég kvæði í minningu látinna vina sem ég nefndi „Í Austurdal“. Þegar við Ingimar Ingimarsson, bóndi á Ytra-Skörðugili og Þorvarður Björgúlfsson, kvikmyndagerðarmaður, gerðum samnefnda heimildamynd um Stefán Hrólfsson gangnaforingja í dalnum, samdi ég lag við kvæðið og það var notað í myndinni í flutningi Karlakórsins Heimis. Stefán Gíslason, stjórnandi kórsins, skrifaði lagið upp og raddsetti það. „Í Austurdal“ var síðan á söngskrá Heimis veturinn eftir og í flutningi Heimis rataði lagið inn á indverska Youtube síðu. Aðdáendur Heimis leynast víða.

Að þessum formála sögðum kem ég að kjarna málsins. Nefnilega því að Hinrik Már Jónsson, bóndi á Syðstu-Grund, sóknarnefndarformaður og söngmaður í Heimi og fleiri kórum sendi mér svohljóðandi skilaboð á Snjáldurskinnu (Facebook) skömmu fyrir miðnætti þann 1. apríl sl.

„Sæll. Það hafði samband Frakki nokkur sem hefur áhuga á að gera eitthvað með lagið þitt um Austurdal. Sendi þér link á hann. Kv. HMJ.“

Þessu fylgdi linkur frá einhverjum Berndard Baillot og þar stóð. “Halló herra, ég er meðlimur í kór karla í Frakklandi og ég sá myndband á Youtube af kórnum þínum. Lagið er mjög fallegt og ég vil gjarnan aðlaga það á frönsku... Með vinalegum kveðjum mínum B.B.“

Þetta fannst mér góð tilraun til aprílgabbs hjá Hinna og svaraði honum daginn eftir að fyrsti apríl hefði verið í gær. „Svo var“, svaraði Hinrik, „en ég held samt að þessum sé einhver alvara.“ Við þetta varð ég hálf skömmustulegur, að hafa grunað minn gamla vin og sveitunga um græsku svona alveg að ósekju. Svaraði herra Baillot og viti menn sá reyndist vera meðlimur í kór karla í Frakklandi sem heitir  Choeur des 3 Abbayes og vildi endilega fá nótur af laginu og franska þýðingu á textanum.

Sjálfur var ég búinn að glata nótnasetningunni af laginu en annar gamall sveitungi og Heimisfélagi, Þorleifur Konráðsson, frá Frostastöðum, ljósritaði fyrir mig nóturnar. Granni minn úr Víðihlíðinni, Kári Heiðar Árnason, hefur í samvinnu við franska samverkakonu úr Verinu, Camillie Leblanc, tekið að sér að snara Austurdalnum yfir á frönsku. Nóturnar eru farnar til Frans, textinn fer fljótlega líka.

Ég hlakka til að heyra hvernig „Í Austurdal“ hljómar á frönsku í flutningi Choeur des 3 Abbayes. Kannski hafa Helgi og Hjörleifur heitinn - gangnafélagar mínir úr leiðangrinum sem gerður var til höfuðs Kollu með skemmda eyrað og aðrir gengnir vinir úr Austurdalnum góða – einhver ráð með að hlusta á þetta líka úr Sumarlandinu í austrinu mikla. Hver veit? Ég vona það allavega.

Að lokum langar mig að biðja litlu systur, Sigríði Gunnarsdóttur, sóknarprest á Sauðárkróki, að taka við áskorandapennanum.

Áður birst í 18. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir