Sjónarhorn - Áskorendapenninn Laufey Leifsdóttir, Stóru – Gröf syðri, Skagafirði

Eftirleitir í Vesturfjöllunum.
Eftirleitir í Vesturfjöllunum.

Hún kom mér svo á óvart öflug gleðitilfinningin sem hríslaðist um mig augnablikið þegar Skagafjörðurinn birtist mér er ég ók niður af Vatnsskarðinu. Það var daginn sem ég flutti aftur norður. Ég gat nánast ekki hreyft mig í bílnum því agnarsmá Nissan Micra-bifreiðin sem ég ók var úttroðin af hreytunum úr íbúðinni sem við bjuggum í fyrir sunnan, svo troðin að börnin fóru í hinum bílnum og ég fékk að keyra ein með Rás eitt á fullu gasi.

Ég man enn hvað ég varð hissa á þessum sterku hughrifum, Eyfirðingurinn átti alls ekki von á því að gleðjast svona innilega yfir breiðum en alltumlykjandi Skagafirðinum. En hvað gekk eiginlega á? Tekur Skagafjörðurinn öðrum fremur betur á móti aðfluttum andskotum eða var bara óvenjugott janúarveður þegar ég ók niður Vatnsskarðið og sjónarhornið heppilegt?

Vissulega var sjónarhornið gott. En Skagafjörðurinn kemur mér enn á óvart eftir nokkurra ára búsetu. Það sem ég reiknaði með að yrði næstum því komin heim er orðið heim; með Drangey út um eldhúsgluggann og Mælifellshnjúk um stofugluggann. Nálægðin við skepnurnar og náttúruna allt um kring gerir manni gott. Og þegar daglegt strit er við það að ganga af manni dauðum gera lítil augnablik þetta allt þess virði, eins og þegar ægifagurt sólsetrið heldur fyrir manni vöku, kvakið í álftum og gæsum neðan úr eylendinu, og jafnvel einföldustu hlutir eins og nýútsprunginn túnfífill eða maríuerla sem velur sér hreiðurstæði í dráttarvél. Fegurðin í því smáa, sjáið þið til, í augnablikinu. Og fólkið, hér býr ákaflega gott fólk sem ég hefði ekki viljað missa af því að kynnast fyrir mitt litla líf.

Auðvitað er þetta ekki þannig að í Skagafirði sé allt fullkomið og ekkert megi betur fara. Suðvestanáttin er til dæmis óþolandi og rusl við hliðina á ruslagámum fullkominn óþarfi þegar við búum svo vel að vera með Flokku innan seilingar. Við getum alltaf gert betur, vandað okkur við að vera til og lagt okkar af mörkum til að gera gott samfélag betra.

Ég skora á samstarfskonu mína, Eyrúnu Sævarsdóttur, að hripa niður nokkur orð.

/ Lee Ann

 Áður birst í 28. tbl. Feykis 2018

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir