Er ég miðaldra? Áskorandinn Kristín Jóna Sigurðardóttir Blönduósi

Að mínu mati er ég lífsglöð, kát, ung manneskja. En á vafri mínu um netið nýlega rakst ég á grein í glamúrriti sem bar yfirskriftina „Tuttugu atriði sem benda til að þú ert orðin miðaldra“.

Þar er meðal annars talað um að þú sért miðaldra ef þú þarft að horfa yfir lesgleraugun (já, auðvitað farin að nota lesgleraugu), ef þú ferð fyrr í rúmið á kvöldin, ef það er orðið erfiðara að halda vigtinni í skefjum,ef þú þekkir ekki lengur vinsælustu lögin í útvarpinu, ef þú þolir ekki lengur háværa staði, ef þú stynur þegar að þú beygir þig og ef þú hugsar um að panta þér ferð í siglingu með skemmtiferðaskipi. Já, ef þetta er það sem segir til um hvort maður sé miðaldra, er ég það mjög líkleg.

En er það slæmt að vera miðaldra? Er það ekki einmitt mjög jákvætt að hafa fengið að lifa í nærri hálfa öld og upplifa allskonar, bæði gleði og sorg?
Það að hafa átt gott líf, þroskast og lært er gjöf. Ég hef upplifað margt og hef öðlast reynslu sem ég get miðlað til næstu kynslóða. Þrátt fyrir að aldurinn að aldurinn sé ekki mjög mikill þá ólst ég upp við aðrar aðstæður en kynslóðin sem nú er að alast upp.

Ég er fædd á síðasta fjórðungi síðustu aldar. Foreldrar mínir voru unglingar þegar að þau áttu mig og ákváðu snemma að ganga hvort sinn veginn. Ég ólst því upp hjá einstæðri móðir, en undir verndarvæng foreldra hennar. Ég fór í leikskóla og forskóla. Ég fékk nesti með mér í skólann í majonesdollu og mjólk í flösku. Ég var send í sveit þrjú sumur. Ég fór að vinna í fiski 14 ára gömul og ég flutti á heimavist 15 ára. Eftir það hef ég lítið búið í foreldrahúsum, þar sem ég var á heimavist, fór síðan til Reykjavíkur á nemendagarða og í leiguhúsnæði og flutti svo með þáverandi kærasta (núverandi eiginmanni) í sveit og síðar í bæ.

Ég er viss um að lífshlaup mitt sé talsvert öðruvísi en lífshlaup þeirra barna sem nú eru að alast upp verður. Ég hef alveg þurft að takast á við áskoranir en þær áskoranir sem börn og ungmenni mæta núna eru öðruvísi. Þar er það sennilega tækniþróun og hraði samfélagsins sem hefur mestu áhrifin.

En mikilvægustu gildi lífsins eru samt enn mikilvægasta nesti sem hægt er að gefa ungu fólki út í lífið. Gildi eins og þrautseigja, góðvild, vinnusemi, jákvæðni og umburðarlyndi eru enn mikilvæg og jafnvel enn mikilvægari nú en áður. Ég hvet því alla miðaldra einstaklinga (og aðra sem telja sig ekki alveg komna þangað) að miðla af reynslu sinni til sér yngri einstaklinga, því að við höfum reynsluna.
Svar mitt við spurningunni „er ég miðaldra?“ er já - og það er frábært.

Ég skora á Brynhildi Erlu Jakobsdóttur að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 22. tbl.  Feykis 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir