Ertu að reima skóna þína rétt? Áskorandinn - Guðný Hrund Karlsdóttir Hvammstanga

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig hægt er að festast í viðjum vanans án þess að gera sér nokkra grein fyrir því.  Eitthvað sem lærðist einu sinni verður að vana, eins og heilagur sannleikur sem aldrei er efast um, jafnvel þó því fylgi stundum vandamál.   

Í því sambandi dettur mér í hug myndband sem ég horfði á af TED örfyrirlestri um það hvernig maður reimar skó eða öllu heldur um það hvernig maður hefur reimað skó vitlaust alla ævi. Þetta mikilvæga atriði þ.e. að reima skó virkar léttvægt og flestir þykjast kunna það upp á hár. En hver hefur ekki lent í því að skóreimin losnar og til að leysa málið, oftast í flýti, þá er bundinn tvöfaldur hnútur/rembihnútur sem í besta falli er leiðinlegt að leysa en oftar erfitt. Svo ekki sé talað um nælon reimar sem eru vinsælar víða. Um leið og reynir eitthvað á skóna þá losna reimarnar.

Það voru einmitt slíkar reimar sem örfyrirlesarinn, Terry More, tók fyrir í fyrirlestrinum sínum, hann ætlaði að skila fínu þægilegu skónum sínum vegna reimanna. Sjálf hefði ég líklega bara skipt um reimar.  En maðurinn í búðinni sýndi honum hvernig hann ætti að reima skóna rétt. Það er nefnilega hægt að gera það á tvo vegu, hann kallar þetta sterka og veika hnútinn. Fyrri partur aðgerðarinnar að reima er eins og við öll þekkjum en í stað þess að færa vinstra bandið yfir lykkjuna þá færir þú það undir lykkjuna og klárar síðan hnútinn. 

Það er ekki mikill munur á því hvernig hnútarnir eru reimaðir en samt skiptir þessi litli munur grundvallarmáli.  Við álag strekkist þá á hnútnum í stað þess að hann losni.

Vaninn er þægilegur og getur í mörgum tilfellum einfaldað lífið.  Hjá flestum eru daglegar áskoranir og ákvarðanir þannig að gott er að gera suma hluti ósjálfrátt.  En ef eitthvað er að valda óþægindum þá er sjálfsagt að staldra aðeins við og spyrja sig hvað hægt væri að gera öðruvísi.
Ég skora á Jennýju Þórkötlu Magnúsdóttur, sviðsstjóra fjölskyldusviðs Húnaþings vestra að taka við pennanum.

Áður birst í 41. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir