Ferðaþjónusta - sóknarfæri fyrir Skagafjörð

Skagafjörður geymir mikla sögu og er bæði fallegur og áhugaverður heim að sækja. Við megum vera stolt af fjölda ferðamanna sem leggja leið sína hingað. Hér er meðal annars ein af fallegustu sundlaugum landsins á Hofsósi, með stórbrotnu útsýni yfir fjörðinn og Drangey.  Glæsileg söfn prýða héraðið, má þar nefna Byggðasafnið í Glaumbæ, Samgönguminjasafnið í Stóragerði og Vesturfarasetrið á Hofsósi. Fyrirtæki eins og Gestastofa sútarans á Sauðárkróki og afþreyingarfyrirtæki á borð við flúðasiglingar, eyjasiglingar og hestaleigur laða að sér ferðamenn. 

Við erum lánssöm að búa í landi þar sem tækifærin eru næg til ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi sem nauðsynlegt er að hlúa að, því vöxtur hennar hefur góð áhrif á íslenskt efnahagskerfi. Fjöldi ferðamanna jókst um tæp 18,2% á milli áranna 2016 og 2017 samkvæmt Ferðamálastofu. Miklar árstíðarsveiflur eru ennþá í greininni, en ferðamannatíminn er þó að lengjast. Náttúran á Íslandi hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og er mikilvægt að nýta og njóta hennar af virðingu. VG og óháð vilja verja ásýnd héraðsins og marka sveitarfélaginu Skagafirði sérstöðu í umhverfismálum.

Reiðvegi um héraðið þarf að skipuleggja og bæta í samvinnu við hagsmunaaðila, en mikil aukning hefur orðið í hestatengdri ferðaþjónustu. Reiðvegir víða eru mönnum og hestum hættulegir og ógna umferðaröryggi. Einnig er mikilvægt að sveitarfélagið geti sýnt fram á umhverfisstefnu hvað varðar flokkun á sorpi um allan fjörðinn og bæti úr salernisaðstöðu fyrir ferðamenn.

Skagafjörður mun taka þátt í nýjum ferðamannavegi, með tilkomu Artic Coast Way ferðamannaveginum sem mun opna á næsta ári 2019. Það er leið um strandlengju Íslands sem nær frá Vopnafirði að Húnavatnssýslum sem gefur okkur Skagfirðingum ný sóknarfæri. Við hjá VG og óháðum viljum tryggja gott samstarf við ferðaþjónustuaðila innan sveitarfélagsins og sjá til þess að þessi ört vaxandi atvinnugrein njóti sín sem best. Þó ferðaþjónusta sé ekki lögbundið verkefni innan stjórnsýslunnar, þá er það hagur hvers sveitarfélags að stuðla að því að íbúum sé gert kleift að byggja upp fjölbreytta ferðaþjónustutengda atvinnu.

VG og óháð vita hversu mikilvægt er að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun tengdri ferðaþjónustu og koma til með að leggja mikla áherslu á það í samstarfi við íbúa sveitarfélagsins.

VÓ fyrir fólkið í firðinum

Auður Björk Birgisdóttir - skipar 5. sæti VG og óháðra
Ingvar Daði Jóhannsson - skipar 9. sæti VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir