Flutningskerfi raforku til Skagafjarðar og um Skagafjörð

Fyrir liggja sjö tillögur að breytingum á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021. Af þeim tillögum er lega Blöndulínu 3 um Sveitarfélagið Skagafjörð umfangsmest, en einnig eru þar mikilvægar tillögur t.d. um lagningu á jarðstreng frá spennivirkinu í Varmahlíð til Sauðárkróks ásamt breytingum á staðsetningu núverandi spennuvirkis. Einnig mætti nefna tillögur um að fella út af skipulagi urðunnarsvæðið við Brimnes og stækkun á iðnaðarlóð í Varmahlíð.  Hér að neðan verður þó eingöngu fjallað um tillögur vegna legu Blöndulínu 3 um Skagafjörð og reynt að skýra sem best allar hliðar þess máls.     

Stefna stjórnvalda
Það hefur legið fyrir lengi af hálfu stjórnvalda að ætlun þeirra er að leggja 220 KV raflínu sem megin flutningslínu raforku um landið. Nú síðast í janúar 2019 var samþykkt af Orkustofnun ný kerfisáætlun fyrir árin 2018-2027. Þar er stefna stjórnvalda um flutningsgetu byggðalínunnar óbreytt frá fyrri áætlunum. Sveitarfélaginu ber, í  sínum skipulagsáætlunum, að aðlaga sig að stefnu stjórnvalda, kerfisáætlun og raforkulögum. Sveitarfélagið getur því ekki lagt til aðrar stærðir á þeim hluta byggðalínunnar sem fer í gegnum Skagafjörð en gerð er krafa um í gildandi kerfisáætlun stjórnvalda.

Innan sveitarfélagsins hefur lagning þessara lína verið til umfjöllunar í meir en 15 ár. Árið 2012 þegar núgildandi aðalskipulag var samþykkt varð niðurstaðan að fresta ákvörðun um legu línunnar frá Kolgröf og að sveitarfélagsmörkum við Akrahrepp í Norðurárdal. Sú frestun var, samkvæmt skipulagslögum,  möguleg í fjögur ár eða til ársins 2016. Ítrekuð beiðni kom frá Landsneti árið 2016 um að málið yrði tekið upp á grundvelli 9. gr. c. raforkulaga nr. 65/2003 um að samræma þyrfti skipulagsáætlanir og tíu ára kerfisáætlun. Í framhaldi af þeirri beiðni var málið tekið til skipulagslegrar meðferðar hjá sveitarfélaginu.

Hagsmunir sveitarfélagsins
Fyrir liggur að núverandi flutningskerfi raforku er fulllestað og því ekki hægt að auka á afhendingu raforku til fyrirtækja eða einstaklinga við núverandi aðstæður. Hagsmunir sveitarfélagsins í lagningu línunnar liggja fyrst og fremst í auknu afhendingaröryggi raforku í Skagafirði og möguleikum fyrirtækja að fá meiri raforku en hægt er í dag. Bygging línunnar í heild mun einnig hafa jákvæð áhrif á afhendingaröryggi annarra sveitarfélaga, en í stóra samhenginu er lega línunnar um Sveitarfélagið Skagafjörð lítill hluti af heildar veglengd Blöndulínu 3.

Af hálfu sveitarfélagsins er búið að leggja mikla vinnu og tíma í að skoða þá valkosti sem taldir eru koma til greina sem línuleið. Í öllum valkostum skoðar sveitarfélagið annars vegar jarðstreng og hins vegar loftlínu. Greinargerð skipulagstillögunnar fylgir ítarlegt umhverfismat áætlunarinnar á þeim valkostum sem til skoðunar eru fyrir lagningu línunnar. Í því samhengi er m.a. lagt mat á möguleika þess að leggja línuna alla í jörðu innan sveitarfélagsins. Megin niðurstaða þeirrar vinnu er að óraunhæft sé að gera ráð fyrir því að leggja Blöndulínu 3 alla í jörðu í Skagafirði. En það getur verið raunhæft að gera ráð fyrir a.m.k. 3 km gætu farið í jörðu. Sveitarfélagið hefur því skilgreint 3 km jarðstrengskafla á svæðinu frá Svartá, norðan Saurbæjar, og austur fyrir Vindheima sem mun draga úr sýnileika línunnar frá hringveginum, ferðamannastöðum í nágrenninu og áhrifum hennar á landslag og ásýnd.

Umhverfismat valkosta
Niðurstöður umhverfismatsins á möguleikunum þremur, Héraðsvatnaleið, Efribyggðarleið og Kiðaskarðleið leiddu til þess að sveitarfélagið hefur ákveðið að leggja til Héraðsvatnaleið með ákveðnum skilyrðum. Rétt er samt að nefna að allar leiðirnar hafa bæði kosti og galla, eins og lesa má um í greinargerðinni og umhverfismatinu sem unnið var fyrir sveitarfélagið. Það mælir gegn Kiðaskarðsleiðinni að gera þyrfti tengivirki, sennilega á Mælifellsdal og leggja frá því jarðstreng og/eða loftlínur í spennivirkið við Varmahlíð til að tryggja raforkuöryggi og aukið aðgengi að raforku í Skagafirði. Þá er leiðin um Kiðaskarð að mestu um ósnortið land og það samræmist ekki stefnu stjórnvalda að leggja línur um slík svæði ef mögulega er hægt að láta þær fylgja mannvirkjabeltum. Í umsögn Umhverfisstofnunnar segir m.a. að stofnunin telji að leggja ætti Blöndulínu 3 samkvæmt Héraðsvatnaleið, en með því væri verið að leggja línuna nærri núverandi mannvirkjabelti þar sem fyrir eru Hringvegur 1 og Rangárvallalína 1. Umhverfisstofnun lítur þannig á að Blöndulína 3 sé viðbót við þau mannvirki sem fyrir eru á núverandi mannvirkjabelti. Jafnframt segir Umhverfisstofnun um Héraðsvatnaleið að „Hér er því um stigsmun að ræða í umfangi mannvirkja en ekki eðlismun sem um væri að ræða ef línan væri lögð um svæði sem bæru ekki merki nútíma mannvirkjagerðar“. Framangreind niðurstaða og neikvæð umhverfisáhrif af legu línu frá Kiðaskarði að tengivirkinu í Varmahlíð setja valkost um Kiðaskarðsleið því til hliðar. 

Samandregnar niðurstöður úr umhverfismatinu um þessa þrjá möguleika sýna eftirfarandi:

  • Héraðsvatnaleið skerðir vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi minna en Kiðaskarðsleið með tengingu við Varmahlíð og Efribyggðaleið.
  • Héraðsvatnaleið skerðir votlendi minna en Kiðaskarðsleið með tengingu við Varmahlíð og Efribyggðaleið, og skerðir minnst votlendi sem nýtur sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.
  • Héraðsvatnaleið skerðir vatnsverndarsvæði minnst.
  • Fleiri ferðamannastaðir eru í nágrenni Héraðsvatnaleiðar, innan 5 km fjarlægðar, en á öðrum leiðum. Til að bregðast við því er lagt til að hluti línunnar frá Svartá og austur fyrir Vindheima fari í jörðu, til að draga úr sjónrænum áhrifum.

 

Skilmálar og tenging við Skagafjörð
Í auglýstri breytingartillögu á aðalskipulaginu er einnig búið að setja inn tengivirki efst í landi Kirkjuhóls og gert er ráð fyrir jarðstreng frá því og niður að spennivirkinu í Varmahlíð. Þannig tengist Skagafjörður inn á nýju byggðalínuna sem opnar á möguleika á meiri afhendingu á raforku til aðila í Skagafirði en núverandi línur gætu veitt.

Sveitarstjórn Skagafjarðar er mjög vel meðvituð um þau neikvæðu sjónrænu áhrif sem raflínur geta haft. Við teljum mikilvægt að lágmarka fjölda þeirra um sveitarfélagið og gerum því skilmála fyrir lagningu Blöndulínu 3, að núverandi Rangárvallalína og Blöndulína 2 verði settar í jörðu ekki seinna en tveimur árum eftir að framkvæmdum við Blöndulínu 3 er lokið. Þannig verði loftlínum í sveitarfélaginu ekki fjölgað og dregið úr sjónrænum áhrifum raforkuinnviða í sveitarfélaginu. Auk þess setur sveitarfélagið þá fyrirvara að ef forsendur breytast, t.d. vegna tækniþróunar, muni það krefjast að lengri hluti línunnar fari í jörðu.

Umræðan er eðlileg
Málefnaleg gagnrýni og umræður um lagningu Blöndulínu 3 er sjálfsögð. Öll búum við í  sveitarfélaginu og það eru hagsmunir okkar allra að í Sveitarfélaginu Skagafirði sé sambærilegt aðgengi að rafmagni og í öðrum sveitarfélögum, en um leið er ljóst að skiptar skoðanir eru um leiðina enda eru áhrif á landeigendur mismunandi eftir leiðarvali. Frá því að þetta mál kom fyrst inn á borð sveitarfélagsins hefur mikið samráð verið haft við íbúana. Mjög margir fundir hafa verið haldnir bæði af hálfu sveitarfélagsins, Landsneti og íbúum sveitarfélagsins. Þar hafa málin verið rædd og ólíkum sjónarmiðum komið á framfæri. Sveitarfélagið hélt t.d. einn slíkan fund núna í janúar sl. þar sem breytingartillagan á aðalskiplaginu var kynnt með sérstakri áherslu á Blöndulínu 3. Einnig var frestur til að gera athugasemdir lengdur umfram lögboðin frest og fleira mætti nefna. Varðandi þann hluta gagnrýninnar, að sveitarfélagið hafi ekki haft nægt samband beint við einstaka landeigendur þá er það miður. Sveitarfélagið mun taka slíkar ábendingar til skoðunar í áframhaldandi skipulagsvinnu. Fyrir liggur einnig að framkvæmdarleyfi fyrir framkvæmdinni verður ekki veitt fyrr en umhverfismat og  samningur milli framkvæmdaraðila og landeigenda er frágengið. Það er því framkvæmdaraðilinn sem er í þessu tilfelli Landsnet, sem sér um þau samskipti og alla þá samninga sem þarf að gera við einstaka landeigendur. Sveitarfélaginu er hins vegar skylt að passa að hagsmuni heildarinnar með því að tryggja að allir skipulagsferlar og aðkoma íbúa allra sé með sambærilegum hætti.

 

Mikil vinna eftir
Að afloknu þessu ferli mun Landsnet hefja undirbúning að nýju umhverfismati fyrir Blöndulínu 3. Þar kunna að koma fram nýjar hugmyndir að legu línunnar. Mikilvægasti undanfari þess umhverfismats er stefna sveitarfélagsins og skilmálarnir sem það setur. Landsnet þarf að taka mið af þeim í áætlunum sínum og við gerð umhverfismatsins. Að því loknu og þegar álit Skipulagsstofnunnar liggur fyrir um umhverfismatið mun sveitarfélagið taka afstöðu til niðurstöðunnar. Sú afstaða kann að leiða til breytinga á skipulagi sveitarfélagsins. Sveitarfélagið getur þá bætt við og/eða breytt skilmálum fyrir framkvæmdir í leyfisveitingum fyrir lagningu línunnar í samræmi við nýja niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum línunnar og álits Skipulagsstofnunnar.

Næsta skref hjá sveitarfélaginu er að vinna úr þeim athugasemdum sem berast og bregðast við þeim þar sem því veður viðkomið á grundvelli þeirrar umgjörðar sem ferlinu eru settar af hálfu opinberra aðila. Það er því ljóst að mikil vinna er eftir við mat og útfærslu þessara valkosta og einnig hvernig unnið verður úr þeim skilyrðum sem sveitarfélagið setur um lagningu línunnar.  

Að lokum viljum við benda á að á heimasíðu sveitarfélagsins er greinargerðin aðgengileg en í henni er ítarleg umfjöllun um þessa breytingu á aðalskipulaginu og hinar sex sem verið er að leggja til á gildandi Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Einar E. Einarsson og Regína Valdimarsdóttir, fulltrúar meirihluta í Skipulags- og byggingarnefnd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir