Galopið bréf til yfirstjórnar Samkaupa

Kæru yfirmenn Samkaupa!
Þannig er að þið rekið búð á Blönduósi en í Húnabyggð búa um 1200-1500 manns auk fjölda ferðafólks sem kemur hér við. Ástandið á búðinni sem þið rekið hér hefur verið til mikillar skammar fyrir ykkur. Við höfum lent í vandræðum við að fá nauðsynjavörur eins og t.d. mjólk, brauð, kartöflur, grænmeti, ávexti o.fl.

Það getur alltaf komið upp á að eitthvað fáist ekki en þegar það endurtekur sig aftur og aftur er það mjög slæmt fyrir alla, okkur og ykkur. Í gær fékk kona hér í bæ vinkonu sína til að koma með grænmeti til sín þegar hún keyrði hér í gegn frá Akureyri. Það eru fleiri dæmi sem eru svona. Fólk hér er hætt að treysta á það að grunnvörur séu til hér á staðnum.

Vöruverð er líka til háborinnar skammar hér. Ég keypti ódýrt hafrakex á rúmar 400 krónur hér en samstarfskona mín keypti hafrakex, betra merki og meira magn, í annarri búð á tæpar 200 krónur. Skagfirðingabúð, sem hefur verið með hærra verð en gengur og gerist, er með sláandi lægra verð en þið hér. Önnur kona hér í bæ fór í Skagfirðingabúð og tók myndir af vöruverði þar og hér, þið komuð vægast sagt illa út úr þeim samanburði.

Ég gat keypt þrjá pakka af kaffibaunum, sama magn og merki í Krónunni, og fengið einn frían miðað við að kaupa tvo hjá ykkur. Okkur þykir vænt um búðina okkar og viljum hafa hana, en við viljum líka fá góða ferska vöru á sambærilegu verði og annarsstaðar. Okkur, alla vega mér, líður þannig að ykkur sé bara drull sama hvernig búðin er, þið viljið bara græða sem mest. Vera með unga krakka í vinnu til að þurfa ekki að borga þeim almennileg laun, fullorðna fólkið helst ekki í vinnu því þið viljið ekki borga þeim almennilega til að halda þeim í starfi.
Þetta er alla vega orðið á götunni!

Ég er ekki viðskiptafræðingur en ég hélt í fávisku minni að til að verslun og þjónusta gangi vel, þurfi að vera til vörur að selja og þjónustan lipur, annars færi kúnninn annað. Ég persónulega fer og versla í lágvöruverslunum þegar ég hef kost á því, því þar fæ ég ferskt og nýtt grænmeti og ávexti, ný brauð og miklu lægra vöruverð. Ég vil líka segja að ég myndi vilja versla allt á Blönduósi en mér ofbýður vöruverðið og vil frekar eyða millimuninum í eitthvað annað.

Það hafa margir sent ykkur tölvupóst, ég líka, en ekkert gerist. Því sendi ég ykkur þetta hér á opnum vef. Ekki segja að við séum eitthvað verri eða erfiðari en aðrir kúnnar. Því þið eruð að þjónusta okkur, þið eigið að aðlaga ykkur að okkur, en ekki öfugt, þannig virkar verslun (að ég held). Það væri gaman að fá svör eða best af öllu að sjá breytingar til batnaðar og metnað hjá fyrirtækinu Samkaup að koma þessu í lag.

Hlakka til að sjá hver viðbrögð ykkar hjá yfirstjórn verða.

Ps, fólkið sem vinnur í búðinni er upp til hópa gott, en margir af erlendum uppruna og kunna ekki íslensku sem mörgum Íslendingnum finnst erfitt sem tala og skilja ekki ensku né pólsku. Hvernig munduð þið reyna að útskýra fyrir pólskumælandi afgreiðslufólki að ykkur vanti hamsatólg?

Virðingarfyllst
Sigríður Helga Sigurðardóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir