Gatan heitir Laugarvegur því þarna var ein laug

Laugarvegur í Varmahlíð. Mynd: Erna Geirsdóttir.
Laugarvegur í Varmahlíð. Mynd: Erna Geirsdóttir.

Undanfarna daga hefur gatan sem ég ólst upp í verið mikið til umræðu, ekki af góðu þó, aurskriða féll á tvö hús í henni og þurfti að rýma þau. Gatan sem ég ólst upp í og hefur verið til umfjöllunar er Laugarvegur í Varmahlíð. Já takið eftir, hún heitir Laugarvegur því þarna var ein laug, ekki margar og því heitir gatan ekki Laugavegur.

En afhverju er ég að setjast niður og skrifa um þetta, jú vegna þess að í flestum tilkynningum sem hafa komið frá yfirvöldum hefur verið talað um Laugaveg en ekki Laugarveg eins og stendur á götuskiltinu góðan sunnan við Hótel Varmahlíð. Það er þó ekki þannig að þar hafi alltaf staðið hið rétta nafn, það eru í raun sárafá ár síðan það kom rétt götuskilti og það er þannig að í þjóðskrá heitir gatan enn röngu nafni. Mér hefur verið sagt að uppruna þessarar villu megi rekja aftur til þess þegar skrá þurfti götur formlega, væntanlega handskrifað á einhverja pappíra, að sá sem skrifaði nafn götunnar hafi bara ruglast. Það hefur verið mikið áhugamál okkar sem höfum búið hvað lengst á Laugarveginum að fá þetta leiðrétt en það hefur ekki tekist alla leið ennþá, þó vissulega sé jákvætt að skiltið sé orðið rétt.

Það er líka áhugavert að leita á heimasíðu sveitarfélagsins Skagafjarðar að Laugarvegi og Laugavegi en þessi nöfn virðast notuð sitt og hvað í stjórnsýslunni.

Ég vil með þessum skrifum nota tækifærið og skora á þar til gerð yfirvöld að leiðrétta þetta alla leið svo þeir sem enn búa á Laugarvegi í Varmahlíð séu rétt skráðir í þjóðskrá og þ.a.l. öllum öðrum skrám.

 

Rúnar Birgir Gíslason

Fyrrverandi Laugarvegsbúi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir