Góð aðsókn að Maríudögum

Fjölmenni var mætt á Maríudaga. Mynd: Andrés Þórarinsson.
Fjölmenni var mætt á Maríudaga. Mynd: Andrés Þórarinsson.

Góð þátttaka var á Maríudögum sem nú voru haldnir í níunda sinn að Hvoli í Vesturhópi dagana 30. júní og 1. júlí sl. Maríudagar eru haldnir til minningar um Maríu Hjaltadóttur fyrrum húsmóður á Hvoli.Ásta Björg sýnir Oddnýju Jósefsdóttur myndir sínar. Mynd Andrés Þórarinsson.

Laugardagurinn var frekar blautur en lygn og nokkuð hlýr og heimsóttu okkur rúmlega 100 manns. Á sunnudaginn var þurrt og hlýtt og mátti sjá glitta í sólina öðru hvoru, en þá komu hestamenn með fáka sína að Hvoli til að fara ríðandi til kirkju og var þar sóknarpresturinn, sr. Magnús Magnússon, fremstur í flokki. Að þessu sinni fóru um tuttugu manns ríðandi til kirkju, nokkrir fóru gangandi og aðrir akandi og má segja að kirkjusókn hafi verið góð, nánast full kirkja.

Þennan dag heimsóttu okkur um 150 manns. Gestir þáðu veitingar í boði sóknarnefndar og heimilisfólks og nutu listsýningar, en að þessu sinni voru sýnendur hjónin Ásta Björg Björnsdóttir sem sýndi akrýlverk og Andrés Þórarinsson sýndi ljósmyndir. Áttu þau hjón allan veg og vanda að sýningunni sem var þeim og aðstandendum Maríudaga til sóma. Segja má að Maríudagar hafi tekist með miklum ágætum þetta árið sem endra nær og vilja aðstandendur Maríudaga þakka öllum kærlega fyrir komuna.Riðið frá Hvoli til messu á Breiðabólsstað. Mynd Andrés Þórarinsson.

Gréta Jósefsdóttir

Jóhanna Jósefsdóttir og Jóna Halldóra Tryggvadóttir á Hvoli sjá um að nóg kakó sé í pottinum. Mynd Andrés Þórarinsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir