Gott að búa í Húnaþingi vestra - Áskorandi Magnús Eðvaldsson Hvammstanga

Unnur fráfarandi oddviti Húnaþings skoraði á mig að skrifa eitthvað í Feyki og ég skorast ekki undan því frekar en öðru sem ég er beðinn um að gera. Ég er fæddur og uppalinn á Hvammstanga og flutti aftur heim fyrir 14 árum eftir námsdvöl á Suðurlandinu.

En um hvað á ég að skrifa? Kannski ég tali bara um hvað það er gott að búa í Húnaþingi vestra og sérstaklega gott að ala upp börn, og hversu fjölbreytt afþreying er í boði á svæðinu.

Eldri dóttir mín er að æfa knattspyrnu, fimleika og sund hjá U.m.f. Kormáki, samtals borga ég 10.000 krónur á önn í æfingagjöld eða 20.000 fyrir veturinn, sem er örugglega lægsta æfingagjald á landinu. Auk þess er hún að læra á píanó í tónlistarskólanum.

Yngri dóttir mín er líka að læra á píanó, síðan er hún í íþróttaskóla æfir blak, badminton og fimleika hjá U.m.f. Kormáki. Auk þess æfir hún hestafimleika og er á reiðnámskeiðum hjá Hestamannafélaginu Þyt. Það vantar ekki afþreyinguna fyrir ungt fólk í Húnaþingi vestra.  Ekkert skutl og allt í rölt færi!

Ásamt því að starfa sem íþróttakennari á Hvammstanga á ég sæti í sveitastjórn Húnaþings vestra. Í sveitastjórninni hefur okkur undanfarið borið gæfa til þess að vinna saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu í málum sama í hvaða stjórnmálaflokki fólk er og erum ekkert að ulla hvert á annað eins þeir gera fyrir sunnan. Því mun betra er að standa saman en að vera í stöðugum innbyrðis illdeilum. Það er gott að búa í Húnaþingi vestra!

Ég skora á Sigurð Þór Ágústsson skólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 35. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir