Hefur farið á einn leik á Old - Trafford Liðið mitt :: Sunna Björk Atladóttir

Sunna Björk ásamt Arnari Skúla, litla bróður á Sauðárkróksvelli.
Sunna Björk ásamt Arnari Skúla, litla bróður á Sauðárkróksvelli.

Sunna Björk Atladóttir, leikmaður Tindastóls til fjölda ára og lögmaður hjá Pacta lögmönnum á Sauðárkróki, heldur með Manchester United í Enska boltanum. Hún segir að sex ára gömul hafi pabbi hennar farið með hana á fótboltaæfingu án þess að hún hefði nokkuð um það að segja. „Jólin, það sama ár, fengum við systkinin jólagjöf frá enska jólasveininum sem innihélt Manchester United treyju nr. 7, Beckham, handa mér en bróðir minn fékk treyju nr. 20, Solskjær. Þá var ekki aftur snúið,“ segir Sunna sem svarar hér spurningum í Liðinu mínu á Feyki og kemur þar með leiknum af stað á ný.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Fyrir tímabilið spáði ég okkur meistaradeildarsæti. Eins og staðan er í dag er ég ansi hrædd um að við verðum um miðja deild.

Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Alls ekki! Spilamennska liðsins er léleg og langt fyrir neðan það sem þetta lið á að vera að gera.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já! Kiddi, sambýlismaður minn, er eldheitur Liverpool-maður og höfum við mjög gaman af því að skjóta á hvort annað varðandi fótboltann. Þegar við byrjuðum saman hafði gengi Liverpool ekki verið upp á marga fiska og gat ég nýtt mér það og haft gaman af. Nú er dæmið hins vegar að snúast við og ég hef ekki eins gaman af því.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Beckham.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já, ég hef farið á einn leik, en það var árið 2008 þegar United mætti Liverpool á Old Trafford. Leikurinn fór 3-0 fyrir United. Geggjaður leikur.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Ég á nokkrar treyjur og ýmsa smærri fylgihluti sem maður sankar að sér með því að vera meðlimur í Manchester United klúbbnum á Íslandi.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Pabba tókst vel til og ól okkur systkinin öll upp sem United stuðningsmenn. Það hefur ekki reynt á mína uppeldishæfilega í þessum efnum.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, en ég hef aldrei verið eins nálægt því og á þessu tímabili sem nú er í gangi. Að sjálfsögðu mun ég aldrei breyta um lið en leikjunum sem ég horfi á gæti fækkað á meðan spilamennska minna manna er ekki betri.

Uppáhalds málsháttur?  -Þú skapar þína eigin hamingju.

Einhver góð saga úr boltanum? -Mfl. kvk. hjá Tindastóli spilaði fyrir nokkuð mörgum árum bikarleik á Grundarfirði. Leikurinn var spilaður í slagveðurs rigningu og var vindurinn þannig að erfitt var að spila boltanum, nánast ómögulegt. Við komust þó í sókn sem endaði með skoti en boltinn fauk í varnarmann andstæðinganna og í horn. Boltinn fauk lengst út í rassgat og þar sem engir boltasækjar voru á svæðinu ákvað Rakel Hinriksdóttir sem þá spilaði með okkur að ná í boltann. Málið var hins vegar það að dómarinn dæmdi markspyrnu en ekki horn og alveg nokkrum mín frá því Rakel lagði af stað að sækja boltann stillti hún honum upp hjá hornfánanum og ætlaði að fara að taka hornið þegar hún sá að leikurinn var í fullum gangi.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Einu sinni þegar ég var í grunnskóla fórum við nokkrar vinkonurnar og komum okkur vel fyrir ofan á undirgöngunum sem eru á milli heimavistarinnar og FNV. Við útbjuggum svo mannslíkan úr útifötunum okkar og hentum fram að undirgöngunum þegar einhver labbaði í gegn. Fyrir þá sem voru að labba í gegnum göngin leit þetta út eins og einhver væri að detta fram af. Fólki brá því eðlilega mikið. Okkur stelpunum fannst þetta mjög fyndið en eflaust ekki þeim sem voru að labba í gegn.

Spurning frá leynivini: -Hefur Manchester United einhvern séns á því að komast í  Meistaradeildina á næstu leiktíð? -Eins og spilamennska liðsins er í dag þá nei.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Sigurður Guðjón Jónsson.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? Hver er maðurinn? Ég er fæddur í Birkenhead á Merseyside. Ég fékk samning hjá 3. deildarliði Bolton og fór með þeim upp í efstu deild áður en ég gekk til liðs við Liverpool, uppáhaldsliðið mitt frá því í æsku. Þar spilaði ég 139 leik og náði að festa mig í sessi í landsliðinu. Frá Liverpool gekk ég til liðs við Blackburn. Þaðan fór ég til Sunderland en endaði ferilinn heima í Liverpool borg hjá Tranmere.

Áður birst í 39. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir