Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni settar í spennitreyju

 

Hinn gríðarlega harkalegi niðurskurður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur eðlilega vakið upp hörð viðbrögð almennings. Annað væti óeðlilegt. Menn skilja vel að það þarf að draga saman seglin eins og gert er í heilbrigðismálum almennt. 5% niðurskurður í heilbrigðismálum að jafnaði er staðreynd og enginn kveinkar sér undan henni.

En 20 prósent niðurskurður eins og á Ísafirði eða 30% eins og á Sauðárkróki, eða 11% á Blönduósi, strax ofan í harkalegan niðurskurð á þessu ári og svipað á Patreksfirði, það gengur auðvitað ekki.

Það er eins og ég sagði í fjárlagaumræðunni sl. þriðjudag. Það er ekki hægt að segja að þessum heilbrigðisstofnunum sé markaður rammi. Það er verið að setja þær í spennitreyju. Sjá HÉR

Þarna er allt gert með öfugum klónum.

Eðlilegt hefði verið að stefnan hefði verið mótuð fyrst, nauðsynlegt samráð haft við heimamenn og niðurstaðan síðan kynnt í fjárhagsumfangi því sem fjárlögin gerðu ráð fyrir.

Það er ekki þannig. Ekki var talað við nokkurn mann, engin fagleg ráð sótt út í héruðum. Allt unnið í eintómu leynipukri og ákvörðuninni síðan skellt framan í menn, rétt sisona. Þetta er gjörsamlega ólíðandi.

Þannig er læðst að fólkinu á landsbyggðinni og án nokkurs fyrirvara er verið að gjörbreyta þessum heilbrigðisstofnunum. Þær verða ekki eiginleg sjúkrahús á næsta ári, verði þetta niðurstaðan. Allt að 70% niðurskurður á sjúkradeildum eru skilaboð um það í gegn um fjárlögin.

En það leynist ein lítil vonartýra. En bara örlítil.

Í umræðum um fjárlögin krafði ég heilbrigðisráðherra svara um þessi mál. Sjá HÉR Hann var varkár, en sagði þó eitt, sem við þurfum að fylgja eftir. Hann útilokaði ekki að fært yrði til innan fjárhagsramma heilbrigðisráðuneytisins. Þannig þyrfti ekki að koma til þessa mikla niðurskurðar. Þessu þurfum við að fylgja eftir. Réttlæti og sanngirni krefst þess.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir