Hér er Skagfirðingur

Jólablað Feykis 2018 umvafið greinum af Fögruhlíðar gulvíði. Plantan hefur vaxið í heimagarði í Kópavogi í þrjú ár og er um einn og hálfur metri á hæð.
Jólablað Feykis 2018 umvafið greinum af Fögruhlíðar gulvíði. Plantan hefur vaxið í heimagarði í Kópavogi í þrjú ár og er um einn og hálfur metri á hæð.

Trjágreinarnar með gulnuðu laufi sem umvefja jólablað Feykis 2018 eru greinar gulvíðis (Salix phylicifolia) sem á rætur að rekja í Fögruhlíð í Austurdal í Skagafirði. Það sem er eftirtektarvert og raunar merkilegt við þennan víðir er að hann ólíkt flestum öðrum lauftrjám, heldur sölnuðu laufinu langt fram á vetur. Þetta má greinilega sjá á myndinni sem tekin er í Kópavogi 16. desember 2018.

Undirritaður átti því láni að fagna að fá nokkur haust, að fara með félögum í Ferðafélagi Skagfirðinga fram í Hildarsel þeirra erinda að ganga frá skálanum fyrir veturinn. Líklega hefur það verið árið 1994 sem ég tók afklippur af stæðilegum gulvíðirunna, tæplega tveggja metra háum. Afklippurnar voru geymdar í frysti til vors og þá stungið í mold. Upp af græðlingunum uxu plötur og fengu sumar þeirra vaxtarstað í „Nýfundnalandi“ í Gróðrarstöðinni Mörk í Blesugróf. Þar er nú Trjásafn Kópavogsbæjar. Hæsta víðiplantan þar var komin hátt á sjöunda metra þegar hún þurfti að víkja vegna framkvæmda. Ætla má að Fögruhlíðar gulvíðirinn henti vel til ræktunar í klippt limgerði.

Ennþá vaxa nokkrar þessara víðiplantna í Fossvogsdal og í trjásafni Kópavogs og eru líkur á að þær geti „undir manna höndum“ náð 7 til 10 metra hæð. Einnig eru fáeinar víðiplöntur af þessu eðalkyni á ræktunarsvæði Brimnesskóga, félags í grennd við ána Kolku í Skagafirði.

Á vefsíðunni http://www.floraislands.is segir:

„Gulvíðir Salix phylicifolia er stærstur af íslenzku víðitegundunum. Þetta er runni sem verður oft 4 m hár við góð skilyrði, jafnvel hærri þar sem hann vex inni í þéttum skógi. Gulvíðir er algengur um allt landið upp í 550 til 600 m hæð, en vex sjaldan hærra. Hann kann oftast bezt við sig í deiglendi og velur sér lægri og votari svæðin innan birkiskógarins.

Gulvíðir breiðir mikið úr sér til hliðanna og myndar oft kringlótta runna sem verða 5-10 m í þvermál og 4-5 m á hæð“. 
Samkvæmt þessum upplýsingum úr „Flórunni“ lætur Skagfirðingurinn úr Fögruhlíð ekki að sér hæða. Hann hefur slegið óopinbert íslenskt hæðarmet gulvíðs, með því að ná tæplega sjö metra hæð, „undir mannahöndum“ í Kópavogi. Auk þess má ætla að þytur í laufi Fögruhlíðar víðisins sé meiri og betri en í utanhéraðsvíði.

Steinn Kárason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir