Hestamennskan meðal íþrótta landsmanna

Sigurbjörn Bárðarson var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1993 en það er æðsta viðurkenning sem veitt er í íslenskum íþróttaheimi. Sigurbjörn er eini hestaíþróttamaðurinn sem hefur hlotið þennan heiður. Hesturinn á myndinni er Oddur frá Blönduósi farsæll keppnishestur Sigurbjarnar í tölti. Ljósmynd: Brynjar Gauti Sveinsson.
Sigurbjörn Bárðarson var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1993 en það er æðsta viðurkenning sem veitt er í íslenskum íþróttaheimi. Sigurbjörn er eini hestaíþróttamaðurinn sem hefur hlotið þennan heiður. Hesturinn á myndinni er Oddur frá Blönduósi farsæll keppnishestur Sigurbjarnar í tölti. Ljósmynd: Brynjar Gauti Sveinsson.

Fyrir áratugum síðan komst þulur á hestasýningu svo að orði, að hestamennskan væri elsta og þjóðlegasta íþróttin; ríðandi hefði Skarphéðinn komið að Markarfljóti þá er hann vann langstökksafrekið. Þetta vakti hrifningu og kátínu þeirra er á hlýddu en strax tóku stöku menn að ræða um íslenska glímu í sambandi við þjóðlegheit og aldur íþrótta. Kjarni málsins er hins vegar sá að hestamennskan sé íþrótt, það heyrðist fyrst fyrir löngu síðan en hefur stöðugt fest í sessi og er sá skilningur nú orðinn almennur.

Hér áður hefur verið greint frá stofnun fyrstu hestaíþróttadeildar landsins, innan Fáks 1976, fleiri hestamannafélög fylgdu svo í kjölfarið og stofnuðu íþróttadeildir. Árið 1977 var íþróttaráð LH sett á laggirnar, 1984 fékk Íþróttadeild Fáks inngöngu í ÍBR og 1987 fékk svo Íþróttaráð LH stöðu sérsambands innan ÍSÍ. Síðan kemur viss lykkja á þennan þráð, þ.e. að heildarsamtök hestamanna falli undir íþróttahreyfinguna, þegar Hestaíþróttasamband Íslands (HÍS) var stofnað árið 1990 og gerðist aðili að ÍSÍ í stað Íþróttaráðs LH sem þar með var lagt niður. Þennan klofning má eflaust skýra með vísan til ýmissa samtímahræringa, HÍS starfaði stutt en það sameinaðist LH að nýju árið 1997 sem varð aðili að ÍSÍ og þar með eitt af sérsamböndum íþróttahreyfingarinnar.

Hér fyrr í greinaflokknum var fjallað um Evrópumeistaramótin, hvernig þau festust í sessi og þróuðust síðan yfir í heimsmeistaramót, jafnframt sem þátttaka kynbótahrossa á mótunum formgerðist. Það mótahald hefur núna lengi verið í föstum skorðum og mótin verið haldin á oddatöluárum, þar til núna í ár að mótinu hefur verið aflýst.

Hestamaður verður íþróttamaður ársins
Ekki er nokkur vafi á að góður stígandi hefur orðið í hestamennskunni og íþróttamennskan fest í sessi, sá skilningur að hestamennsku megi læra og bæta sig í henni með þjálfun og ástundun er orðið almennur. Keppnisform íþróttakeppninnar hefur þróast, greinum heldur fjölgað og flokkaskipting eftir aldri og getu tekin upp. Inniaðstaðan sem hvarvetna er nú aðgengileg, þökk sé þeirri þróttmiklu uppbyggingu sem átti sér stað upp úr síðustu aldamótum, hefur opnað á mikla möguleika til þjálfunar, vitaskuld en líka til sýninga og keppna margs konar.

Það er raunar ótrúlegt að ímynda sér þá byltingarkenndu breytingu sem orðið hefur hvað alla aðstöðu varðar á þeim 34 árum sem liðin eru frá því að fyrsta reiðhöllin reis sem var Reiðhöllin í Reykjavík sem svo hét og var fyrsta hús sinnar tegundar á landinu. Eigandi var hlutafélag í eigu samtaka hrossaræktar og hestamennsku, auk einstaklinga. Reksturinn var afar erfiður þrátt fyrir glæsilegar sýningar og margháttaða starfsemi og gekk í gegnum miklar kollsteypur. Núverandi eigandi hússins er íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og nýtist húsið til þeirrar starfsemi sem því var ætlað.

Jafnframt hefur orðið byltingarkennd breyting á skilningi opinberra aðila til aðstöðumála hestamennskunnar, reiðhúsin af hinum ýmsu stærðum, sum svo myndarleg að kalla má hallir en önnur minni, eru nú almennt flokkuð sem íþróttahús og eru í eigu hestamannafélaganna flest hver, rétt eins og hús fyrir aðrar tegundir íþrótta eru í samsvarandi eigu íþróttafélaga.

Þó hestamennskan sé í grunninn einstaklingskeppni; knapi og hestur í íþróttakeppnunum og hestur með knapa sínum í íslensku gæðingakeppninni og hefðbundnum kappreiðum, hefur hugmyndin um liðakeppni náð að skjóta rótum. Einkum nú á seinni árum í sambandi við allar þær deildarkeppnir sem fram fara í reiðhöllum víða um land. Fyrsti vísir að slíku keppnisformi er þó eldri en til að mynda voru haldin svokölluð Bikarmeistaramót Norðurlands um og fyrir 1990 og voru liðakeppni hestaíþróttadeilda hestamannafélaga á Norðurlandi.

Meistaradeildin í hestaíþróttum er án nokkurs vafa kunnust af deildarkeppnunum í hestaíþróttunum. Starfsemi deildarinnar er nú samfelld allt frá árinu 2006 en tilraun með deildina var gerð 2001 og 2002. Var það upphafleg stefna þeirra sem komu að stofnun Meistaradeildarinnar, sem allt eru einstaklingar, að hún yrði haldin í húsum á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi, þannig yrði hún eins konar úrvalsdeild fyrir landið. Tilraun var gerð keppnistímabilið 2002 að dreifa mótum með þessum hætti, auk Ölfushallarinnar var þá keppt í Reiðhöllinni í Víðidal og Skautahöllinni á Akureyri. (Sjá https://www.meistaradeild.is/sagan.html).

En áður en reiðhallir risu nema á örfáum stöðum var nokkur hefð fyrir að nota skautahallir fyrir reiðsýningar, þannig var haldið afskaplega vinsælt ístölt í Skautahöllinni í Laugardal um árabil og eins í Skautahöllinni á Akureyri í nokkur skipti. Árið 2006 skrifaði Meistaradeildin í hestaíþróttum undir tímamótasamning við VÍS og tókst þannig að renna stoðum undir reksturinn sem hefur verið samfelldur síðan þá, fyrstu árin alfarið í Ölfushöllinni en seinni árin einnig í reiðhöllum á höfuðborgarsvæðinu. (Sama heimild og fyrr).

Ekki er nokkur vafi á að stofnun og starfræksla Meistaradeildarinnar hefur orðið hestamennskunni sönn lyftistöng. Keppni í deildinni er sífellt að verða sterkari faglega. Nú um árabil hefur verið sjónvarpað frá deildinni og keppninni streymt á netinu. Fleiri deildir eru starfandi og er KS-deildin á Norðurlandi öflugust þeirra.

Þó svo mikið hafi áunnist í að vinna hestamennskunni sess sem íþrótt, þykir þó enn þá vanta nokkuð upp á að íþróttafréttamenn setji hestaíþróttir á sama sess og aðrar íþróttir, eða svo þykir flestum að ég hygg innan greinarinnar. Skýringarnar á þessu eru eflaust margar, keppnisgreinarnar eru mjög sérhæfðar og til undantekninga heyrir að íþróttafréttamenn séu vel heima þar. Koma enda sjaldnast að lýsingum móta e.þ.h. Einnig hefur verið nefnt sem ástæða að greinin sé algerlega lokuð, þ.e. íslenski hesturinn keppi bara innbyrðis á sérhæfðum mótum fyrir hann einan.

Í skýrslu nefndar á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem út kom 2009, Markaðssetning íslenska hestsins erlendis, (sjá https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/6752/Markadssetning_isl_hestsins_erlendis.pdf?sequence=1) var m.a. lagt þar til að markviss vinna yrði hafin til að fá viðurkenningu á hestaíþróttum íslenska hestsins sem ólympísk íþrótt, þar sem töltkeppni (T1) og gæðingaskeið (PP1) yrði sett á oddinn. Þáverandi forystumenn LH og ÍSÍ sýndu verkefninu mikinn áhuga en þeirra naut ekki lengi við, auk þess sem undirtektir FEIF til að koma verkefninu áfram voru engar. Loks má nefna að utanumhald um landsliðið í hestaíþróttum og afreksstefnu hefur þótt lítið en á því hvoru tveggja hefur verið gerð mikil og góð bragabót á síðustu árum.

Sá áfangi hefur þó náðst einu sinni að hestaíþróttamaður hefur náð því að verða íþróttamaður ársins. Sigurbjörn Bárðarson var útnefndur íþróttamaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna árið 1993. Enginn hestaíþróttamaður hefur verið valinn í Heiðurshöll ÍSÍ.

Niðurlagsorð
Í næstu grein verður fjallað um kennslu í hestamennsku á seinni árum, í skólum og á skipulögðum námskeiðum.

Kristinn Hugason
forstöðumaður
Söguseturs íslenska hestsins

Áður birst í 18. tbl.  Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir