Hin alíslenska byggðastefna – nýjar leiðir - Grímur Atlason

Grímur Atlason

Staða sveitarfélaganna á Íslandi hefur um langt árabil verið uppspretta umræðna og jafnvel deilna. Á vettvangi Samtaka sveitarfélaga mátti, sérstaklega á tímum góðæris, greina ákveðna deildaskiptingu þegar kom að málefnum minni og stærri sveitarfélaga. Sum sveitarfélög voru á þenslusvæði á meðan önnur bjuggu við hagrænan kulda og þegar góðærið var sem mest vildu sumir búa til úrvalsdeild fyrir hraðskreiðustu sveitarfélögin. Þetta hefur haft afgerandi áhrif á framkvæmdir og stefnumörkun í hinum dreifðu byggðum. Ákvarðanir um framkvæmdir á vegum hins opinbera og uppbygging hafa þannig í mörg undanfarin ár að litlu eða engu leyti verið teknar útfrá skynsemissjónarmiði eða stöðu sveitarfélaga og byggðar í landinu. Oft er hinni heimsku hönd hagræðingarinnar beitt og stundum virðast tengsl kjörinna fulltrúa við fyrirtæki og einstaka byggðarlög ráða mestu.

Jöfnunarsjóður
Eitt öflugasta og mikilvægasta tækið við eflingu og styrkingu byggðar á Íslandi er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Hann er sveitarfélögunum gríðarlega mikilvægur ekki síst þar sem tekjustofnar hafa undanfarin ár orðið að mestu eftir hjá ríkinu. Fyrir rúmu ári benti ég á misræmi í reglum Jöfnunarsjóðs í samhenginu að jafna aðstöðumun sveitarfélaga. Virðist ekkert tillit vera tekið til raunstöðu hvers sveitarfélags fyrir sig, ekki útfrá skuldastöðu, tekjustöðu eða viðhaldsþörf. Meðfylgjandi mynd sýnir tekjur A-sjóðs á íbúa árið 2007 hjá nokkrum sambærilegum sveitarfélögum. Þar koma einnig fram greiðslur Jöfnunarsjóðs á íbúa og rekstrarniðurstaða ársins.

Þarna sést að Bolungarvík, sem skilar lökustu afkomunni það árið, hefur lægstar tekjurnar á íbúa eða 524 þús.kr. Meðaltekjur samanburðar sveitarfélaganna á íbúa eru 676 þús.kr. Jöfnunarsjóðurinn tekur ekkert tillit til þessarar stöðu og fær Bolungarvík aðeins 147 þús. kr. á íbúa á meðan meðaltalið hjá hinum sveitarfélögunum er 252 þús.kr. Þetta hefur því ekkert með lakan rekstur að gera – hér er bara vitlaust gefið. Ráðuneyti og stjórn Jöfnunarsjóðs hafa árum saman komist upp með að þessi vinnubrögð án þess að gefa skýringar. Hefði Bolungarík hins vegar fengið að njóta jafnréttis og fengið meðtaltal þeirra tekna á íbúa sem samanburðarsveitarfélögin eru að fá horfði dæmið allt öðru vísi við. Þá hefði sveitarsjóður skilað tæplega 60 m.kr. tekjuafgangi í stað halla upp á tæpar 80 m.kr.
Það er óskiljanlegt að sveitarstjórnarmenn, þingmenn og ráðherrar skuli ekki taka á þessu hróplega óréttlæti og tryggja að unnið sé eftir málefnalegum reglum. Vildarvinum  er hampað fyrir ráðdeild og skynsemi sem engin innistæða er fyrir. Aðrir vildarvinir nota svo þetta ranglæti til að hamast á pólitískum andstæðingum og saka þá um lélegan rekstur.  En eins og sést á þessum tölum að ofan var bara vitlaust gefið og er enn. Það skal tekið fram að starfsfólk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er hreint úrvalsfólk – það setur heldur ekki reglurnar, þær eru pólitískar.

Ástæður mismunar í tekjum sveitarfélaga má líka rekja til ákaflega misráðinna ákvarðana stjórnvalda undanfarin ár. Einkahlutafélagavæðingin og aukning í fjármagnstekjum einstaklinga hafa haft talsverð áhrif á rekstrarafkomu sveitarfélaga – ekki síst sjávarbyggða og landbúnaðarhéraða. Þannig var fjármagnstekjuskattur árið 2007 um  98 þús.kr. á íbúa að meðaltali á öllu landinu en 303 þús.kr. að meðaltali í Bolungarvík. Ekki ein króna af þeim skatttekjum rann til sveitarfélagsins – allt fór suður í ríkissjóð.

Mótvægisaðgerðir
Ríkisvaldið hefur í gegnum árin gripið til misáhrifaríkra mótvægisaðgerða þegar kemur að stöðu sveitarfélaga í landinu. Árið 2007 verður líklega lengi í minnum haft fyrir hreint furðulegar ráðstafanir á almannafé. Þar var verið að bregðast við miklum kvótaniðurskurði og afleiðingum hans. Sveitarfélög með milljarða á bankareikningum fengu mest úr einni úthlutun á meðan önnur, þar sem sjóðir voru tómir og/eða dýpt atvinnulífsins var lítil, fengu ekkert. Sveitarfélög  þar sem ekki aðrar fiskveiðar en stangveiði í vötnum og ám voru stundaðar fengu háar upphæðir á meðan önnur þar sem atvinnulífið byggði á þorskveiðum fengu nær ekkert. Hugmyndir sveitarfélaga sem bentu á margar góðar og færar leiðir voru virtar að vettugi.
Í dag er verið að skoða mannaflsfrekar framkvæmdir og í hverju þær eiga að vera fólgnar. Fyrstu hugmyndir lofa alls ekki góðu. Undirritaður er enn á þeirri skoðun að leita eigi til sveitarfélaganna vítt og breitt um landið eftir hugmyndum. Þau vita hvar verkefnin liggja og þau vita einnig hvaða verkefni er líklegt að verði sjálfbær að viðhaldi loknu. Ég legg til að 10 milljarðar verði settir í mannaflsfrekar framkvæmdir á þessu ári. Það þýða 1700 ársverk. Ríkið fær reyndar hluta þeirra peninga strax aftur í formi skatttekna auk þess sem hagkerfið fær góða innspýtingu og verslun og viðskipti aukast. Það er mikilvægt að blása strax í þá lúðra.

Ég hef bent á verkefni út um allt land sem falla vel að þessari hugmyndafræði. Eitt þeirra er  viðhald Laugaskóla í Sælingsdal. Með því að setja 200 m.kr. í viðhald skólans yrðu til 35 ársverk. Rekstur ungmennabúða sem þar eru nú yrði tryggður. Hugmyndir einstaklinga og félagasamtaka á svæðinu kæmust líklega fyrr á koppinn en ella og leiksviði Íslendingasagna og Sturlungu yrði gefinn sá sess sem því ber. Það er fjöldi annarra verkefna út um allt land sem falla undir þessa regnhlíf. Félagsheimili, menningarhús, íbúðarhús, skólar, söfn o.s.frv.  Heimamenn vita best hvar þörfin er mest – miðstýrðar ákvarðanir í ráðuneytum hafa engu skilað til þessa og munu ekki gera það nú.

Annað verkefni sem hægt er að ráðast strax í er að útdeila byggðakvóta beint til sveitarfélaga. Þeim yrði jafnframt heimilt að leigja kvótann frá sér  skv. reglugerð. Þannig myndu tekjur skapast og hægt að ráðast í verkefni á vegum sveitarfélaganna.
Við verðum að breyta þeirri þúfnapólitík sem hefur viðgengist allt of lengi á Íslandi. Við verðum að endurnýja við borðið. Nýtt fólk með hugmyndir og yfirsýn í stað kreddna og hagsmunatengsla.

Grímur Atlason býður sig fram í forvali VG í NV kjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir