Hlátrasköll í Höfðaborg :: Leikhúsupplifun

Skrautlegt skógarlið á fjölum Höfðaborgar. Aðsendar myndir.
Skrautlegt skógarlið á fjölum Höfðaborgar. Aðsendar myndir.

Það ríkti verðskulduð eftirvænting í loftinu þegar Hofsósingar og nærsveitungar brugðu sér í félagsheimilið Höfðaborg á Hofsósi á laugardaginn. Óhætt er að segja að það hafi verið fullt út úr dyrum. Höfðu einhverjir á orði að þetta væri bara eins og í miðbæ Reykjavíkur. Aftur var húsfyllir seinna um kvöldið og ekki síður góðar undirtektir þar. Enda kominn tími til að sýna sig og sjá aðra og hlæja svolítið hressileg eina kvöldstund.

Það er ekki markmiðið hjá þeim stöllum í menningarfélaginu Frásögu að semja tímamótaverk í bókmenntum. Þær taka sjálfar sig ekki mjög hátíðlega, en hafa í fyrirrúmi heldur að reyna að skemmta fólki með „bulli og bröndurum“. Það tókst svo sannarlega í Höfðaborg þetta laugardagskvöld.

Þetta er önnur sýningin sem þær Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir og Margrét Berglind Einarsdóttir, „miðaldra húsmæður á Hofsósi“ (eins og þær kynna sig sjálfar) standa fyrir í nafni félagsskaparins Frásögu, sem þær stofnuðu fyrir nokkrum árum. Byggjast sýningarnar á þekktum slögurum úr heimi dægurtónlistar og söguþræði sem spunninn er kringum þær. Að þessu sinni er þemað frumskógurinn. Tarzan og Jane, ásamt öðrum íbúum skógarins, undirbúa hátíð en það gengur ekki sem skyldi. Ekki bætir úr skák þegar einn af bræðrum Tarzan tekur upp á því að vingast við norn. En eins og í öllum góðum sögum verða öll dýrin í skóginum vinir áður en yfir lýkur.

Það er vel af sér vikið hjá tónlistarfólki, leikurum og fólkinu á bak við tjöldin að rigga upp sýningu á aðeins tveimur vikum. Þarna stíga fram reynsluboltar úr hinu rómaða Leikfélagi Hofsóss og valda engum vonbrigðum. Þau kunna svo sannarlega að kitla hláturtaugarnar og virðast ekki síður skemmta sér sjálf við flutninginn. Stundum hefur maður hugsað með sér að það þyrfti að klóna fólk eins og hana Veigu (Ingibjörgu Sólveigu Halldórsdóttur). Og svei mér þá ef það hefur ekki tekist, án þess að hér verði meira gefið upp um það. Á þessum stutta tíma hefur öllum leikurunum tekist að skapa líflegar og skemmtilegar persónur, undir dyggri stjórn höfunda sem leikstýrðu verkinu sjálfar.

Sama má segja um frammistöðu fólksins á bak við tjöldin. Förðun, búningar og leikmynd skapa skemmtilega umgjörð og draga áhorfandann langt inn í frumskóginn. Þarna er hæfileikafólk á ferðinni, Ása Pálsdóttir sem sér um förðun, mæðgurnar Ástríður Einarsdóttir og Hrafnhildur Saga Guðmundsdóttur sem saumuðu búninga og Þuríður Helga Jónsdóttir sem gerði sviðsmynd. Þá vakti sérstaka athygli mína skemmtilegt myndband í upphafi sýningar sem hinn ungi og efnilegi Gísli Þór Magnússon hristi fram úr erminni.

Í bakgrunni er svo heil hljómsveit sem fór afar vel með fjölmarga íslenska og erlenda slagara. Flest eru lögin þess eðlis að a.m.k. við, sem komin erum á miðjan aldur, förum ósjálfrátt að dilla okkur. Aðalsöngvarar sýningarinnar, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Ívar Helgason, eru afar fjölhæf og fóru vel með þessi þekktu lög. Bæði hafa þau líflega sviðsframkomu og virkilega gaman að horfa og hlusta á þau. Sömuleiðis voru þarna á ferð flottir hljóðfæraleikarar. Gjarnan vildi ég sjá og heyra meira frá öllu þessu fólki. Það er raunar alveg magnað hvað við eigum mikið af hæfileikafólki hér í Firðinum. Síðast en ekki síst verð ég að nefna frábæra frammistöðu hinnar ungu og efnilegu Ingunnar Marínar Ingvarsdóttur sem hefur skemmtilega rödd sem á vonandi eftir að hljóma sem oftast í framtíðinni.

Það er dýrmætt að einstaklingsframtak í menningarlífinu skuli skila okkur skemmtun af þessu tagi. Þar er líka mikilvægt að menningarsjóðir skuli styðja við slíkt framtak. Nú er að lifna yfir öllu menningarlífi eftir ládeyðu sem faraldurinn alræmdi kallaði yfir samfélagið. Það er eflaust freistandi að halda áfram tryggð við sófann og fjarstýringuna, en ef við leyfum okkur það er hæpið að halda menningarlífinu gangandi. Áhorfendur eru jú mikilvægur partur af því.

Takk fyrir ykkar framlag, Jóhanna, Berglind og allir hinir sem komu að Villimönnum og villtum meyjum.

Kristín S. Einarsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir