Höfum eyrun opin - Hlustum á börnin og unglingana :: Áskorendapenninn Ástrós Kristjánsdóttir Melstað Miðfirði

Sem starfsmaður í grunnskóla tel ég mjög mikilvægt að við, sem vinnum með börnum og unglingum, hlustum á þau og mætum þeim á jafningjagrundvelli. Ég vil að nemendurnir í skólanum upplifi að þau geti alltaf nálgast mig ef þau þurfa að létta á hjarta sínu sama hvað bjátar á. Hvort sem eitthvað minniháttar kemur uppá eins og er oft hjá börnunum eða eitthvað stærra og meira sem þau vilja ræða. Ef við bregðumst við strax þegar við sjáum að barni líður illa í skólanum þá er mikið auðveldara að vinna úr málum barnsins frekar en þegar gripið er inní alltof seint.

Gott samband okkar við nemendur verður æ mikilvægara þar sem kvíði eykst hjá börnum og unglingum m.a. vegna aukinnar snjalltækjanotkunar. Erfiðara er orðið að fylgjast með samskiptum barna í dag en áður og þau geta oft verið köld og ópersónuleg samskiptin á internetinu. Snjalltækjanotkun hefur á sama tíma aukist hjá fullorðnum sem veldur því oft að samskipti milli foreldra og barna hafa minnkað.

Börnin eiga rétt á góðum og innihaldsríkum samskiptum við foreldra sína jafnt sem vini. Þjálfa þarf börn í að ræða um tilfinningar sínar svo að þau fái góða tilfinningavitund. Oft líður börnum og unglingum illa en þau geta einfaldlega ekki tjáð af hverju. Ætli það sé ekki útaf of lítilli tilfinningavitund? Ef við tölum við börnin frá unga aldri þegar þau gráta eða haga sér „illa“ og hjálpum þeim að átta sig á hvaða tilfinningar þau eru að upplifa þá ættu þau að vera betur í stakk búin fyrir framtíðina og unglingsárin sem reynast oft á tíðum mjög erfið.

Ég vil því hvetja þá sem vinna með eða eiga í samskiptum við börnin og unglingana okkar að tala meira við þau og leyfa þeim að tjá sig eins og þau þurfa. Við þurfum öll að hafa mismikil samskipti á hverjum degi og ég held að fullorðna fólkið sé sjaldan að gefa sér nægan tíma til að uppfylla þá þörf og þau tengsl sem börnin þurfa á að halda. Þegar einstaklingur fær ekki að tjá sig og hefur engan sem veitir honum virka hlustun þá getur hugurinn orðið yfirfullur af hugsunum sem eru óæskilegar. Það hjálpar svo mikið að tala við einhvern um vandamálin sín sem dæmir þig ekki, hlustar og leyfir þér að segja frá því sem þú upplifðir.

Stundum þurfum við að hjálpa þeim að tala, láta þau vita að ef þau vantar einhvern til þess að ræða málin við að þá séum við alltaf til staðar. Láta þau vita að þau eru ekki ein. Engin ætti að þurfa að vera einn.

Ég skora á vinkonu mína, Fríðu Marý Halldórsdóttur að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 42. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir