Hólahátíð :: Gísli Gunnarsson Hólabiskup skrifar

Frá Hólum. Hóladómkirkja er elsta steinkirkja landsins. Kirkjuturninn til hægri er 27 metra hár en hann var reistur á 400 ára dánarafmæli Jóns Arasonar.  Mynd: ÓAB
Frá Hólum. Hóladómkirkja er elsta steinkirkja landsins. Kirkjuturninn til hægri er 27 metra hár en hann var reistur á 400 ára dánarafmæli Jóns Arasonar. Mynd: ÓAB

Hólahátíð hefur verið haldin árlega í 17. viku sumars allt frá stofnun Hólafélagsins árið 1964, eða í tæp sextíu ár. Áður voru svipaðar hátíðir haldnar í kringum 1950 þegar turninn var reistur við Hóladómkirkju, en þá var þess minnst að fjögur hundruð ár voru liðin frá aftöku Jóns Arasonar biskups og sona hans tveggja, Björns og Ara. Á þessu ári eru liðin 260 ár frá vígslu Hóladómkirkju.

Hólahátíðin 2023 verður haldin helgina 12.-13. ágúst.

Seinnipart laugardagsins verður útgáfuhátíð á Hól-um, en þá verða gefnar út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags sálmabækur Marteins biskups Einarssonar og Gísla biskups Jónssonar, svo og sálmabók Guðbrands biskups Þorlákssonar.

Dagskrá útgáfuhófsins verður í höndum þeirra sem unnið hafa að útgáfunni, en það eru: Jón Torfason, Karl Sigurbjörnsson biskup, Kristján Eiríksson, Bragi Halldórsson, svo og tónlistarkonurnar Elín Gunnlaugsdóttir og Guðrún Laufey Guðmundsdóttir.

Á laugardeginum verða einnig Pílagrímagöngur. Sr. Þorgrímur Daníelsson mun leiða göngu úr Svarfaðardal um Heljardalsheiði til Hóla. Einnig verður boðið upp á göngu upp í Gvendarskál í Hólabyrðu og létta göngu um hinn fallega Hólaskóg.

Hátíðarmessa verður á sunnudeginum kl. 14. Sr. Kristján Valur Ingólfsson fyrrverandi Skálholtsbiskup prédikar og Kammerkór Skagafjarðar syngur ásamt kirkjukór Hóladómkirkju. Organisti er Jóhann Bjarna-son og stjórnandi Helga Rós Indriðadóttir. Síðan verður öllum boðið að þiggja veitingar og eftir það er hátíðardagskráin í kirkjunni. Þar mun Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og Hólamaður, flytja hátíðarræðu og Kammerkór Skagafjarðar syngur.

Löngum hefur Hólahátíð verið héraðshátíð okkar Skagfirðinga, auk þess sem fólk úr Hólastifti og frá landinu öllu sækja okkur heim. Ef Skagfirðingar standa ekki vörð um Hóla og starfsemina þar, bæði varðandi Háskólann og biskupsembættið, þá gera ekki aðrir það. Gerum Hólahátíð aftur að héraðshátíð.

Verið hjartanlega velkomin heim að Hólum, á Hólahátíð.

Gísli Gunnarsson,
Hólabiskup

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir