Hugsanir bílsstjóra Bíls Smáframleiðenda

Þegar ég byrjaði að keyra fyrir verkefnið Smáframleiðendur á ferðinni, sumarið 2020 hafði ég ekki hugsað mikið út í smáframleiðendur. Ég vissi að þeim færi fjölgandi enn hafði ekki velt fyrir mér tilveru þeirra eða tilgangi. Á síðustu tveimur árum hef ég fengið að kynnast breidd smáframleiðenda sem hefur komið mér mjög skemmtilega á óvart.

Vörur frá 30 framleiðendum hafa verið seldar í Bíl Smáframleiðenda á Norðurlandi vestra síðustu tvö árin. Þar er verið að tala um yfir 250 vörutegundir. Ær-, lamba-, geita-, folalda-, gæsa-, nauta- og kvígukjöt, undirflokkar kjötsins hljóma svo upp á steikur með og án beins, þykkar og þunnar sneiðar, heila vöðva, vöðva í sneiðum, gúllas, snitsel, hakk og ótrúlega margt annað sem er á mörkunum að hinn almenni viðskiptavinur hafi hugmyndaflug í. Þá eigum við samt eftir að skoða það sem garðyrkju- og ostabændurnir bjóða upp á. Svo ekki sé talað um sultu-, fæðubóta-, krem-, garn- og síðast en langt frá því að vera sístur, rósaframleiðenda. Ef ég færi að telja upp allt það sem væri í boði hjá þessum flottu smáframleiðendum, þá myndi enginn lesa til enda því úrvalið frá þeim er magnað.

Ég hef oft undrað mig á því hvernig þeir hafi hugmyndaflug í þá framleiðslu sem þeir skella sér í og hvernig ég komi öllu fyrir í Bíl Smáframleiðenda. Það er stundum áskorun en hefur tekist fram að þessu. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að smáframleiðendur eru listamenn og landinn fær að njóta. Það eru þó til spurningar sem ég hef verið spurð að og mig langar að svara.

Hvers vegna eigum við að versla við smáframleiðendur?

Stutta svarið er: Því þeir verða að vanda sig.
Smáframleiðendur leggja sig fram við alla framleiðslu frá upphafi til enda. Ef þú færð viðmót frá viðkomandi sem þér líkar ekki við eða framleiðslan er ekki eins og þú gerðir ráð fyrir þá bitnar það einungis á þeim sem framleiddi vöruna. Ég hef ekki orðið vör við annað en að framleiðendurnir sem ég hef verið í samskiptum við vilji allt fyrir sína viðskiptavini gera, hvort sem það sé að endurgreiða krukku sem var skemmd eða saga kótiletturnar í nákvæmlega þá þykkt sem beðið er um.

Það sem er algjör snilld og ég var ekki búin að hugsa út í fyrr en núna á dögunum er að allar vörur frá smáframleiðendum eru upprunamerktar. Viðskiptavinurinn getur meira að segja fengið upplýsingar um í hvaða haga dýrið eyddi sinni ævi, nákvæma staðsetningu um hvar grænmetið var ræktað eða fiskurinn veiddur.

Það hlýjar mér um hjartaræturnar þegar ég heyri setningar frá viðskiptavinum eins og:
Þetta er mikið betra kjöt heldur en það sem maður kaupir í stórmörkuðum.
Þessar kartöflur eru mikið fallegri en þær sem eru í búðinni.
Í alvöru áttu hnúðkál og er blómkálið fjólublátt.
Áttu appelsínumarmelaðið, sólþurrkuðu tómatana, rauðkálið eða þykku sneiðarnar sem ég fékk hjá þér síðast, það var svo gott.

Þessar setningar myndu ekki heyrast nema vegna þess að smáframleiðendur vanda sig virkilega mikið og flestir leggja mikla áherslu á að hinn almenni borgari sem lifir ekki og hrærist í matvælaiðnaði skilji hvað hann sé að borða. Það er mjög lítið af E – efnum sem við hin vitum tæplega hvað er.

Er verðið í bílnum ekki mikið hagstæðara heldur en í búðum, það eru engir milliliðir? Er önnur spurning sem hefur heyrst.

Ég persónulega hef ekki fundið vörur í búðum sem eru samkeppnishæfar við vörur smáframleiðenda til að gera raunhæfa verðkönnun. Það er ekki sambærilegt að skoða verð á kjöti sem var sett í frost morguninn eftir slátrun, sagað og pakkað en þá algjörlega ómeyrnað eða kjöt sem fær tíma í kæli áður en það er fryst og er því full meyrnað. Sumir framleiðendur skrá meira að segja á umbúðirnar hvenær dýrinu var slátrað og hversu margir dagar liðu þar til kjötið var fryst.

Smáframleiðendur leggja sig fram við að vita uppruna þeirra hráefna sem þeir nota. Þeir hafa vissulega ekki alltaf möguleika á því, þar sem það er svo margt sem ekki er framleitt eða vex á Íslandi.

Smáframleiðendur tína berin sín sjálf úti í móa, rækta rabarbarann, kemba geitunum sínum og rýja rollurnar fyrir garnið. Þeir gera eins og þeir geta til að nýta allt sem móðir náttúra gefur. Þeir sem hafa farið í berjamó, rúið eða ræktað sitt eigið grænmeti, vita að það er ekki hlaupið að því.

Smáframleiðendur hugsa um vörurnar sínar eins og börnin sín. Stoltið og hamingjan sem skín úr augum þeirra þegar þau koma með framleiðsluna í bílinn er dásamleg. Það er eins og þau séu að fylgja barninu sínu fyrsta skóladaginn. Þau eru búin að gera það sem þau geta og nú er komið að barninu að sanna hvað í því býr.

Smáframleiðendur standa sig vel og framleiðslan þeirra fær langoftast framúrskarandi einkunn. Auðvitað eins og alls staðar fær einn og einn falleinkunn, en það gerist ekki aftur og aftur hjá þeim sama. Smáframleiðendur hlusta og gera sitt besta til að koma til móts við viðskiptavininn sinn. Þess vegna eru vörur smáframleiðenda stundum dýrari en vörurnar sem koma frá stórframleiðendum.

Ég er ekki smáframleiðandi en ég er komin með smáframleiðendahjarta því ég veit orðið hvað þeir leggja á sig og hvað þeir vilja gera fyrir sína viðskiptavini. Ég er stolt af því að fá að vera partur af þessu samfélagi og fylgjast stolt með því sem er að gerast.

Það skiptir ekki máli hvar á landinu smáframleiðandinn er, allir smáframleiðendur eru að vanda sig og starfa í nánd við sína viðskiptavini.
Þetta er ástæðan fyrir því hvers vegna ég vel smáframleiðendur og vil hvetja aðra til þess sama.

Auðbjörg Ósk Guðjónsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir