Hvað var gert í dagvistunarmálum á kjörtímabilinu?

Í ljósi umræðunnar í aðdraganda kosninga þetta vorið mætti halda að ekkert hafi verið unnið að úrlausn dagvistunarmála í Sveitarfélaginu Skagafirði síðustu misserin. Það er þó fjarri sanni.  Bráðabirgðalausnir hafa verið fundnar vegna húsnæðismála í leikskólunum á Hofsósi og í Varmahlíð og einnig þurfti að leysa bráðavanda á Sauðárkróki. En auðvitað þarf að gera betur og það er ætlun okkar sem skipum lista Sjálfstæðisflokksins fyrir þessar kosningar.

Eðli málsins samkvæmt er fjöldi notenda þessarar þjónustu misjafn frá ári til árs, því ekki hefur neinum ennþá dottið í hug að setja kvóta á fæðingar barna eða flutninga þeirra til sveitarfélagsins.  Árgangar eru því misstórir og þegar stórir árgangar koma á eftir fámennum verður erfitt um pláss á leikskólunum.  Þessi staða kom upp í fyrra á leikskólanum Ársölum þegar fámennur árgangur hætti en stór árgangur beið inntöku. Á sama tíma fækkaði dagforeldrum og engin viðbrögð voru við auglýsingum um Sveitarfélagsins eftir dagforeldrum.

Það var hins vegar augljóst að ekki  risi nýr leikskóli á örfáum mánuðum og stærsti vandinn var tímabundinn því fámennari árgangar voru í sjónmáli. Engu að síður þurfti að leysa bráðavanda strax.

Því var gripið til til þess ráðs að tillögu meirihlutans að hækka niðurgreiðslur til dagforeldra um 20% og þeim voru jafnframt tryggðar greiðslur fyrir þrjú börn í ellefu mánuði á ári, þannig að ef öll börn hjá dagforeldri fengju pláss á leikskóla á sama tíma stæði dagforeldri ekki upp án tekna. Jafnframt var ákveðið að ef ekki fengist pláss hjá dagforeldri stæðu foreldrum þessar greiðslur til boða og hæfust þær við níu mánaða aldur barns.  Algjör samstaða var um þessar lausnir í félags- og tómstundanefnd enda er það oftast þannig í nefndum sveitarfélagsins að þar vinnur fólk að lausnum sama hvar í flokki það stendur og þannig á það líka að vera.

Þessar aðgerðir skiluðu þeim árangri að nú eru starfandi dagforeldrar fimm talsins, en voru áður tveir. Foreldrar hafa nýtt sér niðurgreiðslurnar og nú í apríl var greitt með tólf börnum.  Biðlisti vegna leikskólaplássa á Ársölum eftir inntöku í haust telur sextán börn.  Aðeins átta af þessum sextán börnum verða orðin eins árs þegar inntöku líkur. Elsta barnið af þeim sem ekki komast inn er fætt í júlí.  Engir biðlistar eru við aðra leikskóla Sveitarfélagsins.

Framtíðarlausnin er hins vegar fólgin í fjölgun leikskólaplássa og það verður ekki gert nema með nýbyggingu og þá horfir Sjálfstæðisflokkurinn til viðbyggingar við yngra stig leikskólans „Glaðheima“ við Víðigrund að undangengnu samráði við aðila máls.

Búið er að ákveða framtíðarlausn á Hofsósi með viðbyggingu við Grunnskólann og lausn í Varmahlíð verður fundin á kjörtímabilinu í samráði við notendur þjónustunnar og starfsmenn þar.  Einnig rekur sveitarfélagið leikskóla á Hólum í sama húsnæði og grunnskólinn og í samvinnu við hann og hefur það reynst vel.

Það er von mín að staða dagvistunarmála í sveitarfélaginu verði önnur og betri næst þegar við  göngum til kosninga og Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja sitt af mörkum til þess að svo megi verða.

Setjum X við D á kjördag. 

Guðný Axelsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir