Já „Allskonar“ er á stefnuskrá framsóknarmanna
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og formaður Sjálfsbjargar skrifaði góða grein í Feyki þar sem hún minnir á að samfélagið gerir ekki alltaf ráð fyrir að allir komist óhindrað leiðar sinnar eða að allir eigi sömu möguleika á að framkvæma daglegar athafnir sem okkur ófötluðum þykir sjálfsagðar og eðlilegar. Greinin er í senn þörf áminning til okkar sem forgangsröðum framkvæmdum sveitarfélagsins en um leið ágæt lýsing á hugsunarleysi okkar sem ekki þurfum að velta fyrir okkur öllum þeim fjölmörgu athöfnum, stórum sem smáum, sem daglegt líf býður okkur.
Þuríður spyr hvað sé á stefnskrá framboðanna varðandi málefni fatlaðs fólks. Það er okkur framsóknarmönnum afar dýrmætt að gera Sveitarfélagið Skagafjörð að fyrirmyndarsamfélagi í málefnum fatlaðs fólks og að því munum við vinna. Í þeim tilgangi höfum við ákveðið að stofna faghóp strax að kosningum loknum sem verði skipaður fulltrúum Sjálfsbjargar og sveitarfélagsins sem hafi það hlutverk að fara yfir m.a. þjónustu sveitarfélagsins við fatlað fólk og skila tillögum til úrbóta. Okkur öllum má ljóst vera að það er brýnt að bæta þjónustu við fatlað fólk og ég hygg að við sem bjóðum okkur fram til að fara með málefni sveitarfélagsins séum öll sammála um að betur má ef duga skal.
Það veit þó enginn betur en þeir sem búa við hindranir vegna fötlunar hvernig best er að standa að úrbótum sem koma til móts við þarfir og óskir fólks um þjónustu og framkvæmdir. Þess vegna er faghópnum jafnframt ætlað að forgangsraða og tímasetja framkvæmdir sem lúta að aðgengi að byggingum í sveitarfélaginu, skilgreina þjónustu og skýra betur hlutverk og samskipti. Það er von mín að faghópur þessi marki upphaf að reglulegu samráði og árangursríku samstarfi á milli kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn, fyrirtækja í sveitarfélaginu og samtaka fatlaðs fólks.
Ég sé fyrir mér að allar nefndir sveitarfélagsins hefðu aðgang að faghópnum til umsagnar um fyrirhugaðar aðgerðir.
Notendastýrð persónulega aðstoð hefur gefist vel og mun ég beita mér fyrir því að hún sé komin til að vera og nái að þróast og þroskast eftir þörfum hvers og eins.
Samfélaginu öllu er mikilvægt að sem flestir geti lagt sitt af mörkum og geti notið hæfileika sinna. Þetta á við um okkur öll, óháð líkamlegri eða andlegri getu. Ég vona að ég fái tækifæri til að vinna markvisst að úrbótum í málefnum fatlaðs fólks og hlakka til að eiga samstarf við fulltrúa þeirra um þau mál sem á þeim brenna og Þuríður Harpa spyr um í grein sinni.
Sigríður Magnúsdóttir, skipar 2. sæti B-lista Framsóknarflokks í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.