Jólin á næsta leyti

Jólin á næsta leyti, blendnar tilfinningar bærast innra með manni. Tilhlökkun og kvíði. Það eiga ekki allir gleðileg jól. Aðstæður hjá fólki eru ólíkar. Það eru veikindi, ástvinamissir, fjárhagsáhyggjur, sundraðar fjölskyldur og einsemd.  Það eru átök og atvinnuleysi. Misvitrir menn vilja hafa vit fyrir okkur með misjöfnum árangri. En stöldrum við, aðventan er gengin í garð, það eru að koma jól.

Fyrir mér eru jólin hátíð ljóssins. Daginn tekur að lengja á ný og myrkrið hörfar smátt og smátt. Við finnum hjá okkur þörf til að gleðja samferðafólk okkar, láta gott af okkur leiða á einn eða annan hátt. Segir ekki einhverstaðar að besta og bjartasta gjöfin felist í því að gleðja aðra. Gjöfin þarf ekki að vera stór, stundum er allt sem þarf bros og hlýleg orð.

Öll eigum við minningar um jól, jólin sem voru bestu jólin. Það voru ekki endilega jólin þegar við fengum flestar gjafirnar, það eru jólin sem lifa í minningunni vegna ástvina okkar sem deildu þeim með okkur á einn eða annan hátt. Jólin með börnunum og svo eru það bernsku jólin. Hangikjötslyktin úr eldhúsinu, eplalyktin úr kjallaranum, allar smákökurnar sem laumast var í, spenningurinn yfir því að fá ný föt sem mamma saumaði, allt angaði af allskonar lykt. Jólatréð sem pabbi hafði smíðað. Þegar það var sótt upp á loft vissi maður að jólin voru á næsta leyti. Ég man að það var skreytt með grenigreinum sem við bundum á með grænum tvinna, jólaljósum og alskyns jólaskrauti nýju og gömlu.

Á Þorláksmessu var alltaf soðið hangikjöt og þá voru jólin nánast á þröskuldinum. Á Þorláksmessukvöld sofnaði maður út frá suðinu í saumavélinni hennar mömmu og ilminn af hangikjötinu í bland við lyktina úr pípunni hans pabba. Á aðfangadag meðan mamma var að stússast í eldhúsinu fórum við með pabba að keyra út jólakortin, gjafir og smáræði í poka til að gleðja.

Þar kemur jólaboðskapurinn, gefa af sér, gleðja aðra. Að gleðja aðra og láta gott af sér leiða ætti að vera okkur afar mikilvægt, ef við höfum það að leiðarljósi verður allt einhvernvegin auðveldara. Í öllu annríkinu er mikilvægt að geta staldrað við og rifjað upp góða tíma. Það gefur manni styrk til að takast á við þau verkefni sem framundan eru og virðast ókleif fjöll. Gefum okkur tíma til að gleðjast yfir því að eiga góðar minningar, öll eigum við þær til ef vel er að gáð. Það eru blikur á lofti í þjóðmálum sem og annar staðar. Það er ekki einfalt að líta framhjá erfiðleikum og umróti sem engan enda virðist ætla að taka. Þessi jól ættum við sérstaklega að hlúa að hvort öðru, finna hjá okkur þörfina til að vilja gleðja hvort annað, láta gott af okkur leiða, ylja okkur við góðar minningar, halda svo inn í nýtt ár full af bjartsýni og trú á betri tíma. Við höfum verk að vinna, vinnum saman,við getum skapað okkur nýja framtíð. Við Íslendingar, þessi litla þjóð sem alltaf er tilbúin til að gefa öðrum, gefum okkur gleðileg jól og trúum á farsælt nýtt ár.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Pálmey Gísladóttir                                                                                                              varaformaður Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir