Leggið frá ykkur prjónlesið og reiðtygin – á laugardag ætla bleikliðar að skrifa söguna

Koma svo Kormákur Hvöt! AÐSEND MYND
Koma svo Kormákur Hvöt! AÐSEND MYND

Laugardaginn 16. september geta liðsmenn Kormáks Hvatar skrifað söguna. Sameiginlegt lið okkar sem búum sitt hvoru megin við Gljúfrá sendi fyrst lið til Íslandsmóts karla árið 2013 og hefur löngum spilað í fjórðu deild, þeirri neðstu þegar var. Fyrir tveimur árum reis liðið upp og komst í fyrsta sinn upp í þá þriðju (D-deild íslenska knattspyrnustigans). Í fyrra stóðst liðið þolraunir allar sem sterkari deild er, ásamt ytri aðstæðum ýmis konar, og hélt þar velli.

Í ár hefur Kormákur Hvöt svo sent úrtölumönnum innan héraðs og utan langt nef og náð á topp fjallsins, þvert á allar spár. Fyrir tímabil var liðinu spáð falli, eða í besta falli álíka sprikli rétt fyrir ofan eldlínuna og í fyrra. Liðið situr í 2. sæti þegar síðasti leikur tímabilsins er framundan. Í raun er það svo að liðið hefur setið í 2. sæti í tvo mánuði. Í tíu umferðir sem er öll seinni umferðin. Þetta er engin tilviljun, því liðið er gott.

Rétt eins og síðustu tímabil hefur Kormákur Hvöt teflt fram liði sem ekki mörg samfélög af svipaðri stærð og með svipaða íþróttainnviði geta stært sig af. Við erum með heimamenn sem hafa fórnað miklu fyrir málstaðinn í gegnum árin og lagt allt undir síðustu ár. Þeim til fulltingis eru gríðarlega öflugir erlendir leikmenn, því ekki fást íslenskir leikmenn í sumarævintýri úti á landi eins og í „gamla daga“. Við þurfum að stóla á leikmenn runna undan rifjum póstnúmeranna frá 500 til 550, plús svo alþjóðlegri póstnúmer.

Blandan er góð. Húnvetnsk þrjóska, spænsk leikni og balkönsk tækniundur. Blandan hefur skilað okkur hingað – við erum einum sigri frá því að fara upp úr 3. deildinni og leika í 2. deild að ári. Íslenska deildarkeppnin verður sterkari með hverju árinu. Venslalið stóru félaganna á Höfuðborgarsvæðinu ganga að stöðugum straumi góðra leikmanna ár hvert. Í 3. deild eru sjö slík hreinræktuð, nokkur njóta þess að vera skammt frá stórum liðum sem geta sent liðstyrk að láni, á Eyjafjarðarsvæðinu eða á Suðurnesjum.

Í þessu samhengi er ljóst að afrek Kormáks Hvatar, sigri liðið næsta leik, er þeim mun stærra. Við erum ekki að keppa á móti HSÞ-b eða Narfa frá Hrísey, með allri virðingu fyrir þeim ágætu félögum sem áður náðu í lið. Við erum að keppa á móti venslungum Breiðabliks, FH og annarra stórbokka íslenskrar knattspyrnu.

Ágætu Húnvetningar og nærsveitungar. Leggið frá ykkur prjónlesið og reiðtygin. Laugardaginn 16. september frá klukkan 14:00 til 16:00 ætlum við bleikliðar að skrifa söguna. Við viljum ekkert meira en að þið takið þátt í því með okkur og ÍSGEL ætlar að bjóða frítt á leikinn. Hjálpumst öll að og styðjum liðið okkar yfir stóru endalínuna!

Áfram Kormákur Hvöt!

/Aðsent ákall frá Aðdáendasíðu Kormáks Hvatar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir