Líf í höfnum landsins

Í sumar gerði Alþingi þá breytingu á fiskveiðstjórnunarlögum (116/2006) að frjálsar handfæra- og strandveiðar voru leyfðar við Ísland til loka fiskveiðiársins. Ætlunin var – samkvæmt upphaflegu frumvarpi - að heimila veiðarnar frá 1. júní – 31. ágúst, og meta reynsluna af þeim að því loknu. Málið olli deilum í þinginu, því Sjálfstæðismenn settu sig öndverða gegn frumvarpinu og gerðu hvað þeir gátu til að tefja framgang málsins bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sem og í umræðum í þinginu. Fyrir vikið varð strandveiðunum ekki komið á fyrr en 1. júlí. Þá voru tveir mánuðir eftir af fiskveiðiárinu og því ljóst að reynslan af veiðunum yrði takmarkaðri en ella.
Lagabreytingin fól það í sér að nú mátti veiða á handfæri 3.955 lestir af þorskígildum utan aflamarkskerfis. Fiskimiðunum við landið var skipt upp í fjögur svæði og ráðherra heimilað að skipta aflaheimildum á einstaka mánuði milli þessara svæða. Skyldi byggt á hlutfallslegri skiptingu byggðakvóta við útdeilingu aflaheimilda, en 2.500 lestum var auk þess skipt jafnt á öll svæðin (625 lestir á hvert svæði).
Samkvæmt lögunum var ekki heimilt að fara í fleiri en eina veiðiferð á hverjum degi, fjöldi handfærarúlla var takmarkaður og afli hvers dags skyldi ekki fara yfir 800 kg af þorski. Með þessu var leitast við að láta leyfilegt veiðimagn dreifast sem mest á landsvæði og tíma auk þess sem þetta ákvæði átti að hindra að of mikið kapp yrði í veiðunum. Þá var kveðið á um að allur afli sem landað yrði við færaveiðar skyldi vigtaður og skráður hér á landi.
Þeir tveir mánuðir sem liðnir eru frá því strandveiðunum var komið á, hafa leitt góða reynslu í ljós. Við lok fiskveiðiársins þann 31. ágúst s.l. höfðu 3.9555 þorskígildistonn komið að landi. Landanir í sumar hafa verið 7.313 og 554 bátar á sjó. Mest hefur veiðst af þorski (3.397 tonn) en 576 tonn veiddust af ufsa og enn minna af öðrum tegundum.
Eitt af því sem vakti athygli við þessa tilraun sem staðið hefur í sumar, er hversu misjöfn aflabrögðin reyndust milli svæða. Þannig var búið að veiða allt leyfilegt aflamagn á svæði A (norðvestursvæðinu) þegar í byrjun ágúst, á meðan innan við helmingur veiðiheimilda var enn óveiddur á öðrum svæðum. Á norðvestursvæðinu voru langflestir bátar í róðrum, eða 195 samanborið við t.d. 94 báta á svæði B sem nær frá Skagabyggð í Grýtubakkahrepp. Þetta vekur spurningar um sókn á svæðunum í samhengi við aflamarkið og þarf að skoða vel.
Það er þó samdóma álit allra sem til þekkja að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar. Þess sáust skýr merki þegar á fyrstu dögum eftir að veiðarnar hófust. Bryggjur þar sem vart hafði sést maður – hvað þá fiskur - árum saman iðuðu nú skyndilega af lífi. Aftur heyrðist vélahljóð báta í fjörðum kvölds og morgna, fólk að fylgjast með löndunum og spriklandi fiskur í körum.
Háskólasetur Vestfjarða hefur tekið að sér að skila skýrslu um reynsluna af þessum veiðum og verður fróðlegt að sjá hvað hún mun leiða í ljós.
En svo mikið er víst, að strandveiðarnar færðu líf í hafnir landsins – þær glæddu atvinnu og höfðu í alla staði jákvæð áhrif á mannlíf í sjávarbyggðum. Loksins, eftir langa mæðu, fengu íbúar við sjávarsíðuna að upplifa eitthvað sem líkja má við eðlilegt ástand – einhverskonar frelsi eða opnun á því niðurnjörvaða kvótakerfi þar sem mönnum hefur verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendur landsins nema þeir gerðust leiguliðar hjá útgerðum eða keyptu sér kvóta dýru verði.
Tilraunin með strandveiðarnar hefur nú þegar sannað gildi sitt, og því hlýtur endurvakning strandveiða við Ísland að vera ráðstöfun til framtíðar.
Ólína Þorvarðardóttir
Alþingismaður
Varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis
