Lífið sjálft - Áskorandinn Brynjar Rafn Birgisson (Binni) - Brottfluttur Króksari

Ég er fæddur á því frábæra ári 1986, þegar Gleðibankinn gerði allt vitlaust og við vorum búin að vinna Eurovision keppnina áður en hún byrjaði, einnig var Stöð 2 og Bylgjan sett á laggirnar. Ég verð 33 næstkomandi 29. október. Þið sem kannist ekki við mig þá er alltaf gott að rýna í ættartöluna en ég er sonur Bigga Rafns, sem er útibústjóri Landsbankans á Sauðárkróki og fyrrverandi kennari við FNV með miklum sóma, móðir mín Hrafnhildur Sæunn Pétursdóttir sjúkraliði. Bróðir minn Pétur Rúnar Birgisson,  körfuboltamaður með Tindastól og systir mín Hera Birgisdóttir, læknir.

Það var örlagaríkt  kvöld í aprílmánuði 2011, sem ég segi við móður mína að ég sé búinn að kynnast konu úr bítlabænum Keflavík, og keyri af stað klukkan 19:30 á laugardagskvöldi  eftir að hafa unnið til 18 í fallegu sundlauginni á Hofsósi. Svo líður tíminn og ég að renna í Keflavík um kl. 23 og hitti ég hana heima hjá henni og segir hún við mig eftir smá tíma: ,,Ef þig langar að hitta mig aftur þá gerum við það ekki á fyrsta stefnumóti!“ 

Ég vildi hitta hana aftur, þannig að ekkert gerðist og ég fór heim daginn eftir. Þessi kona sem ég hitti þá er konan mín í dag og minn besti vinur, Arndís Líf Sanchez Birgisson. Hún er kokkur og er frá Filippseyjum en hefur búið á Íslandi síðan 2001 og er Íslendingur. Hún á eina dóttur, Shelamarl Sanchez Diaz, sem ég lít á sem dóttur mína og gætum við ekki verið heppnari með dóttur. Við höfum verið gift síðan 24. ágúst 2013. Ég flutti frá Króknum 15. mars 2012.

Mig langar að segja ykkur eina sögu í viðbót, þegar konan mín heimsótti mig haustið 2011 í fyrsta skiptið norður. Þá voru mamma og pabbi ekki heima og fannst henni gott mál að taka allt húsið í gegn og þrífa. Þau spurðu mig seinna hver hafi tekið svona vel til og ég segi að það hafi verið kærastan mín. Þá spyr pabbi: ,,Hvenær kemur hún aftur?“. Í dag búum við saman þrjú ásamt kisunum okkar í Keflavík.

Þetta sýnir, finnst mér, að lífið er óútreiknanlegt og ég væri ekki á þessum stað í dag ef það væri ekki vegna hennar. Ávallt að muna að njóta þess að vera til og fylgja hjartanu. Njótum lífsins, því lífið er núna.

Ég skora á Árna Gísla Brynleifsson að koma með pistil.

Áður birst í 24. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir