Listin að lifa

Ég hitti nýverið konu sem spurði mig af kurteisissökum hver væru mín helstu áhugamál. Það runnu skyndilega á mig tvær grímur því í fljótu bragði mundi ég ekki eftir neinum raunverulegum áhugamálum, hverju skyldi ég svara.

Síðar sama dag var mér enn hugsað til þessarar spurningar, gat það virkilega verið að ég, bráðum 28 ára gömul konan, ætti engin sérstök áhugamál? Ég hvorki spila golf né syng í kór, stunda ekki líkamsrækt nema af illri nauðsyn (enda er afrekaskrá mín í íþróttum ansi þunn) og síðast en ekki síst hefur steingleymst að leggja mér í arf ögn af hæfileikum á sviði handverks.

En þegar allt kemur til alls hafa síðastliðin fjögur ár helgast fjölskyldunni, að koma barni á legg, eignast eigið húsnæði og búa okkur gott heimili, ásamt því að stunda um tíma bæði nám og vinnu. Ef heilt er á litið hefur það tekist vel að mínu mati og voru þessar áhyggjur mínar af áhugamálunum eflaust með öllu óþarfar. Því ef vel er að gáð eru samverustundir fjölskyldunnar nefninlega fullgildar sem besta áhugamál í heimi, eða það bara hlýtur að vera. Í selskap við fjölskyldu og vini stunda ég útivist í nærumhverfinu, fer í ferðalög og ævintýraleiðangra og á með þeim gæðastundir sem eru ómetanlegar.

Nú á liðnu sumri hefur lífið hvað eftir annað minnt okkur á hverfulleika sinn og er það því mitt ráð til allra að hætta að velta okkur of mikið upp úr hlutunum og njóta augnabliksins, því lífið er núna!

Ég vil skora á bekkjarsystur mína og íþróttaálfinn hana Ingu Maríu Baldursdóttir til að taka við áskorendapennanum.

Áður birst í 31. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir