Magnificat í Miðgarði – Gunnar Rögnvaldsson skrifar

Myndirnar tók sr. Gylfi Jónsson.
Myndirnar tók sr. Gylfi Jónsson.

Það var sannarlega kraftur og metnaður í tónleikum Skagfirska Kammerkórsins á sunnudaginn var sem haldnir voru undir yfirskriftinni „Í takt við tímann“.  Kórinn hafði fengið  til liðs við sig Kammerkór Norðurlands og Sinfóníettu Vesturlands til flutnings á verkinu Magnificat eftir John Rutter.

Fyrir hlé voru þó íslensk einsöngslög í fyrirrúmi þar sem Helga Rós Indriðadóttir og Kolbeinn Jón Ketilsson fluttu með glæsibrag nokkrar af perlum íslenskra tónskálda mörg hver í nýjum útsetningum hljómsveitarstjórans Guðmundar Óla Gunnarssonar. Túlkun þeirra á viðskiptum Galdra Lofts og Steinunnar barnsmóður hans í verki Jóns Ásgeirssonar var svo feykilega dramatísk að mátti engu muna að Kolbeinn aflaði sér óvina í salnum sem hinn lítt geðþekki  Loftur. Tignarleiki og raddstyrkur beggja á sviði gerði enn meira úr flutningi laganna samt góðu jafnvægi undirleiks Sinfóníettunnar sem Tómas Higgerson píanóleikari lék með, en hann sá um undirleik á æfingatímabilinu.

Eftir hlé gengu sameinaðir kórar á svið og strax í upphafi var tónninn sleginn. Magnificat er að mestu á latínu og feyknalega kraftmikið tónverk þar sem reynir á bæði styrk og tónhæð söngvara. Má ég fullyrða að sjaldan hefur jafn þróttmikill blandaður kór stigið á stokk í Miðgarði og var „ekkert skilið eftir“. Í nokkrum þeirra sjö köflum, sem stykkið er, söng Helga Rós Indriðadóttir, stjórnandi Skagfirska Kammerkórsins, einsöng og var sem þetta væri skrifað fyrir hana, svo vel féll allur flutningur saman.

Guðmundur Óli hafði alla þræði í hendi sér og það er ekki bara gaman að hlusta á slíkan flutning heldur og horfa á, öll þau svipbrigði og árvekni söngvara og hljóðfæraleikara. Allt skapaði þetta saman ákaflega góða stemmingu og viðbrögð fjölmargra áhorfenda samkvæmt því. Langvarandi lófatak og fagnaðarlæti sem þakklæti fyrir framúrskarandi skemmtun. Það er líka svo makalaust að sjá hvernig tónlistin sameinar bændur, fornleifafræðinga, lækna, kennara og atvinnutónlistarfólk í einu og sama markmiðinu. Hvar gerist það annarsstaðar?

 Ég hvet alla sem tækifæri hafa á að fjölmenna á þennan viðburð sem er hluti af 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar og verður fluttur aftur í Bíóhöllinni á Akranesi á laugardaginn og Langholtskirkju á sunnudaginn kemur.

Gunnar Rögnvaldsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir