Mark Watsons minnst í Glaumbæ

Í tilefni af afmæli skoska aðalsmannsins Mark Watson nk. fimmtudag stendur Byggðasafn Skagfirðinga fyrir dagskrá í Glaumbæ. Watson var mikill Íslandsvinur og er honum margt að þakka, þar með talið rausnarleg peningagjöf til viðgerða á gamla torfbænum í Glaumbæ árið 1938 sem átti sinn þátt í að bærinn er enn varðveittur.

Watson hefur jafnframt verið titlaður bjargvættur íslenska fjárhundakynsins og er afmælisdagur hans 18. júlí Dagur íslenska fjárhundsins. Af því tilefni ætla íslenskir fjárhundar að heimsækja safnið á fimmtudag. Hundarnir eru ljúfir og spakir og óhætt er að klappa þeim með leyfi eigenda. Þá verður ungum gestum boðið á bak á hestum frá Syðra– Skörðugili.

„Blessuð góða, farðu með hann í Glaumbæ“

Watson fæddist 18. júlí 1906 og lést árið 1979. Hann kom af auðugu fólki en fjölskylda hans átti búgarð í  Skotlandi, sumarbústað í Austurríki og bjó glæsilega í Lundúnum. Sjálfur var hann í utanríkisþjónustu Bretlands á yngri árum sínum og ferðaðist víða um heiminn.

Mark Watson kom hingað til lands fyrst sumarið 1937 og tók þegar ástfóstri við landið. Í endurminningum Önnu S. Snorradóttur, leiðsögumanns Watson sumarið 1938, gefnar út af Byggðasafni Skagfirðinga (1989) lýsir hún ferðalögum sínum með Watson um Skagafjörð, en ferðin hófst á björtum og sólríkum degi:

„Við ókum upp úr hádegi frá Akureyri og hafði Kristján Kristjánsson á B.S.A. leigt okkur sinn besta bíl og eftirlætisbílstjóra. Þetta var sólbjartur dagur, hlýr og fallegur. Ekki bar neitt  sérstakt til tíðinda á leiðinni, en að sjálfsögðu var staldrað við á Víðimýri og kirkjan skoðuð. Það leyndi sér ekki að Mark Watson var yfir sig hrifinn af gömlu kirkjunni, sem hann hafði þó séð árið áður. Síðla dags komum við til Sauðárkróks og gistum á Hótel Tindastóli. Kvöldið á Sauðárkróki var undurfagurt og þessir erlendu gestir nutu þess að ganga meðfram sjónum og horfa á Skagafjörðinn baðaðan kvöldsól. Þá bættust nokkur orð í enskuforða fylgdarmanns, lýsingarorð, flest öll til að dásama fegurð náttúrunnar.

Á Sauðárkróki átti ég skólasystur úr M.A., Sigurbjörgu Guðmundsdóttur og var ákveðin í að líta til hennar áður en við færum að sofa og sagði þeim félögum frá því. Hafði ég í huga að fá fréttir hjá heimafólki, hvort ekki væri einhver staður í grenndinni  sem gaman væri að sýna þessum erlendu gestum á leið heim til Akureyrar næsta dag. Mér var fjarska vel tekið á heimili Sigurbjargar, og er ég spurði föður hennar hvort hann gæti bent mér á einhvern sérkennilegan eða áhugaverðan stað til að sýna þessum mönnum og sagði honum að Mark Watson hefði mikinn áhuga á fornminjum hverskonar, svaraði hann að bragði: „Blessuð góða, farðu með hann í Glaumbæ“.

Maður þessi var Guðmundur Sveinsson, fulltrúi hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, þegar þetta var. Ég er honum  þakklát enn í dag fyrir ábendinguna, en  aldrei datt mér í hug að þessi stutta heimsókn ætti eftir að hafa jafn afdrifarík áhrif og raun varð á. Guðmundur lýsti fyrir mér hvar fara ætti út af veginum til þess að komast niður að Glaumbæ, og ég kvaddi glöð og hlakkaði til morgundagsins.

Næsta morgun komst ég í kynni við hafragraut, þykkari og meiri um sig en ég hafði áður kynnst! Síðar í lífinu áttum við Mark vinur minn oft eftir að brosa þegar þetta var rifjað upp. Þegar ég var búin með mjólkina allt í kringum grautarfjallið, og þeir félagar  höfðu lokið snæðingi og fararstjóri sat enn með skelfingarsvip yfir diski sínum, segir Mark: „Eat your porridge“ (Borðaðu grautinn þinn). Þá varð  ég  að  játa  að  mér væri það um megn. „Skipaði ég þér að éta grautinn?“ spurði hann eitt sinn, og við hlógum dátt að þessu, en ég skammaðist mín alltaf svolítið fyrir að hafa verið svo vandlát á grautinn.

Það sem gerðist næsta dag líður mér seint úr minni. Ég hafði sagt bílstjóranum okkar að beygja út af þjóðveginum þegar við kæmum á móts við Glaumbæ, án þess að hafa til þess nokkra heimild eða segja frá því, hvað til stóð. „Hver hefur beðið um að hér sé beygt út af þjóðveginum“? spurði Mark, þegar bílstjórinn okkar breytti um stefnu. Þá greip leiðsögu-maður til einnar af fáum setningum, sem tiltækar voru: „Just wait and see“ (Bíðið bara og sjáið), og vonaði að það dygði. En ekki var gesturinn ánægður með þetta tiltæki og kvaðst hafa ætlast til að farið væri beinustu leið til Akureyrar.

Við sátum hljóð fáeinar mínútur, en svo var ekið í hlað á Glaumbæ. Þarna stóð þessi merki burstabær, fallegur í sumarsólinni og virðulegur, þrátt fyrir fátæklegt útlit og töluverða hrörnun. En grasið á þökunum var grænt og samhliða stafnar blöstu við augum. Er skemmst frá að segja að þarna urðu kærleikar við fyrstu sýn.Mark Watson hvarf inn í bæinn, kom að vörmu spori aftur út til okkar og sagði óðamála, að viðskyldum halda ferðinni áfram til Akureyrar, því að hann ætlaði að dvelja hér það sem eftir væri dags og reyna að fá gistingu næstu nótt. Að svo mæltu hvarf hann aftur inn í bæinn. Bo Nisbeth sem þekkti hann betur en ég tók mig afsíðis og sagði að við skyldum fara í gönguferð, hann myndi jafna sig. Og það gekk eftir. Þegar við komum aftur úr langri göngu, stóð vinur okkar á hlaðinu,  fáorður en tilbúinn til að halda förinni áfram til Akureyrar.

Sagan gæti endað hér, en það sem á eftir fylgdi er þó kjarninn. Mark Watson vildi kaupa Glaumbæ og hafði áform um að endurreisa hann í upprunalegri mynd og gera að safni. Þetta sagði hann mér löngu síðar. Þegar til átti að taka var bærinn ekki falur. Næst gerist það að þegar hann er kominn heim til Bretlands síðsumars, ákveður hann að senda tvöhundruð sterlingspund til Íslands, svo að hefja megi viðgerðir á Glaumbæ. Þetta var mikið fé árið 1938, og ég held, að ekki verði um það deilt, að gjöfin frá Mark Watson skipti sköpum, hvað varðar örlög gamla bæjarins, sem nú er meðal fallegustu minjasafna landsins. Hann ætlaði að koma sumarið eftir og fylgjast með framkvæmdum, en þá voru styrjaldarblikur á lofti og ekki varð úr þeirri ferð.

Það gladdi hann til æviloka að fylgjast með því, hvernig mál þróuðust í Glaumbæ. Hann kom þar nokkrum sinnum og hafði orð á hve vel hefði tekist til“. (Anna S. Snorradóttir, 1989, bls. 11-15).

Mikill dýravinur

Höfðingsskap sinn sýndi Mark Watson á margvíslegan hátt m.a. með því að gefa þjóðinni fyrsta dýraspítala landsins með öllum búnaði. Spítalinn er í Víðidal skammt frá höfuðborginni og ber nafn gefandans. Þjóðminjasafni okkar gaf hann m.a. á annað hundrað vatnslitamynda eftir W.G. Collingwood, breskan málara, sem ferðaðist um landið í lok síðustu aldar. Ekki má gleyma að nefna hið stórmerka bókasafn, sem hann arfleiddi Landsbókasafn að, en hann hafði um langan aldur safnað bókum um Ísland og Færeyjar, auglýst víða um heim eftir sjaldgæfum bókum og ekkert til sparað.

Mark Watson var mikill dýravinur og til marks um það er dýraspítalinn fyrrnefndi. Hann kynnti sér náið íslenska hundastofninn og skrifaði bók um það efni. Bókin heitir á ensku „THE ICELAND DOG 874-1956“ og undirtitill: „A Research on the Iceland Dog“ og kom út árið 1956, en þá var höfundurinn búsettur í Nicasio í Kaliforníu. Einnig samdi hann bókina „HUNDURINN MINN“ um meðferð og uppeldi hunda, sem gefin var út hér á landi í þýðingu Halldórs Þorsteinssonar. Áhugi hans á íslenska hundinum hélst ævilangt og enginn vafi er á því að varðveisla íslenska hundastofnsins er að miklu leyti honum að þakka.

Verið velkomin í Glaumbæ næstkomandi fimmtudag frá kl. 16-18.

 

Heimild: Anna S. Snorradóttir. (1989). Mark Watson og Glaumbær. Smárit Byggðasafns Skagfirðinga (VI). http://www.glaumbaer.is/static/files/Skjol/vi-mark-watson-og-glaumbaer.pdf  

 

/Fréttatilkynning

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir