Meiri íslenskan landbúnað
Í kjölfar bankahrunsins í haust urðu kom berlega í ljós hversu mikilvægt það er að hafa hér innlenda búvöruframleiðslu. Þeir erfiðleikar sem fylgdu í kjölfar hruns bankanna á gjaldeyrisviðskiptum kenndu okkur að upp geta komið atvik sem leiða til þess að innflutningur nánast stöðvast til landsins. Fleiri þættir geta vissulega haft áhrif á innflutning landbúnaðarvara til landsins, þótt þetta sé nærtækasta dæmið í augnablikinu, en vel væri hægt að sjá fyrir sér önnur áföll eins og t.d. verkfall hafnarverkamanna, skipskaða eða búfjársjúkdóma úti í heimi.
Það hefur ekki þótt fínt reka landbúnað á Íslandi á síðustu misserum forstjóri Haga gekk meira að segja svo langt að leggja það til að svína- og kjúklingarækt yrði lögð af á Íslandi. Skömmu eftir hrunið auglýsti hinsvegar Bónus, sem er undir Högum, íslenskt kjöt sem aldrei fyrr því þá var ekkert annað að fá.
Ég segi við verðum að vernda og hlúa að því sem íslenskt er, við megum aldrei aftur detta í þá gryfju að þykja það ófínt að stunda framleiðslu á matvælum hér á landi, öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar byggist á því að hér sé stunduð matvælaframleiðsla.
Við þurfum hinsvegar að tryggja framleiðendunum umhverfi sem hægt er að starfa við þannig að íslenskur landbúnaður sé rekstrarhæfur.
Það sem ég tel forgangsmál núna fyrir bændur:
Vextir verða að lækka, bændur eru með háan fastakostnað í hlutfalli við veltu og þar af leiðandi eru margir bændur skuldugir. Vextir eru það háir að fá skuldsett fyrirtæki lifa af nema til komi frysting lána, niðurfærsla lána eða eignaaðkoma lánadrottna. Þegar verðbólga lækkar er lag að afnema verðtryggingu en það tel ég algjörlega nauðsynlegt til þess að halda lánveitendum og lántökum á tánum í framtíðinni.
Betri nýting lands og auðlinda
Stórauka þarf kornækt en árlega eru flutt inn um 70-80 þús. tonn af korni. Helmingur af árlegri byggnotkun landsins er fenginn erlendis frá og nær allt hveiti er innflutt. Það er ekki miklum vandkvæðum bundið að auka verulega þessa framleiðslu sem leiða myndi til aukinnar verðmætasköpunar í landbúnaði, minna útstreymis gjaldeyris , aukið fæðuöryggi og minni mengunar samfara minni flutningum.
Aukin skógrækt sem er mannaflsfrekur landbúnaður og bætir/græðir land, bindur CO2 og er gjaldeyrir framtíðarinnar.
Lækkun rafmagnskostnaðar til garðyrkjubænda gæti stóreflt greinina og aukið hlutfall íslensks grænmetis.
Það má segja að aldrei hafi verið mikilvægara en nú að bændur hugi að hverskonar nýbreytni á búum sínum til að auka verðmætasköpun og að hlutfall innlendrar framleiðslu á matvælamarkaði verði hærra í framtíðinni.
Aukið gegnsægi í viðskiptum
Smásalar hafa verið gagnrýndir fyrir að taka of stóran hlut þegar kemur að verðlagningu landbúnaðarvara og það hefur m.a. verið nefnt á síðum Bændablaðsins að hlutur smásala sé 60-70% á svínakótilettum og 70-80% á kartöflum. Álagning smásala á innfluttar vörur hefur hins vegar verið mun lægri skv. þeim upplýsingum sem birtar hafa verið, en þessi mismunur álagningar skekkir samkeppnisstöðu íslenskra bænda. Auk þess mismunar sem verið hefur í álagningu þá er skilaréttur smásalans á kjöti að valda kjötvinnslum, neytendum og bændum óhagræði sem nemur tugum milljóna á hverju ári og veikir samkeppnisstöðu gangvart innfluttu kjöti. Innflutta kjötinu er aldrei skilað og það hlýtur að vera gerð sama krafa gagnvart því innlenda að smásalinn selji allt sem hann pantar og skilarétturinn sé afnuminn.
Höfundur hefur boðið sig fram til 3. sætis í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.