Menntun er grundvöllur framfara

Síðastliðin ár hefur orðið bylting í menntamálum í Norðvesturkjördæmi og það undir forystu Sjálfstæðisflokksins í málaflokknum. Hvergi á landsbyggðinni er jafn blómlegt skólastarf og í þessu kjördæmi. Við eigum þrjá háskóla, á Bifröst, Hvanneyri og á Hólum sem hver og einn hefur byggt upp sérstöðu sem starfið byggir á. Framhaldsskólarnir fimm á Ísafirði, Sauðárkróki, Grundarfirði, Borgarnesi og Akranesi eru öflugir hornsteinar í heimabyggð sem skapa ný tækifæri fyrir ungmenni og þá sem ekki hafa haft tækifæri til menntunar áður eða horfið frá námi.

 

Þá hafa opnast nýir gluggar með aðferðafræði dreifmenntunar á Patreksfirði, hvar rekið er útbú frá Fjölbrautarskóla Snæfellsness. Nú þarf ekki lengur að senda börnin í burtu við lok grunnskóla heldur eiga þau tök á að sinna framhaldsskólanámi í tvö ár í heimabyggð. Þetta er bylting fyrir lítil samfélög eins og eru á suðurfjörðum Vestfjarða. Nú er útlit fyrir að nemendafjöldinn þrefaldist næsta haust frá því sem upphaflega var þegar verkefnið hófst, haustið 2007. Símenntunarmiðstöðvarnar í kjördæminu gegna lykilhlutverki í fullorðinsfræðslu og endurmenntun og eflist starf þeirra með ári hverju. Símenntunarmiðstöðvar voru settar á laggirnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins í menntamálum og eru ein áhrifamesta aðgerð sem framkvæmd hefur verið til að hækka menntunarstigið í dreifðum byggðum landsins.

Bylting hefur orðið í  tækifærum fyrir háskólamenntaða einstaklinga í Norðvesturkjördæmi með Háskólasetrunum í Stykkishólmi, Ísafirði og á Sauðárkróki. Ekki má gleyma Rannsóknarsetrinu Vör í Snæfellsbæ sem þegar hefur fengið margs konar viðurkenningar fyrir störf sín og komið með athyglisverðar rannsóknarniðurstöður þrátt fyrir það að hafa ekki starfað lengi. Snorrastofa Rannsóknarsetur í miðaldarfræðum hefur byggst upp „hægt og hljótt“ og er að gera mjög athyglisverða hluti. Með Náttúrustofum Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra hefur orðið til fræðasamfélag sem smitar út frá sér og býr til ný tækifæri og framlag þessarar starfsemi hefur þegar haft mjög mikil á nærsamfélagið þar sem starfsemin er og sannar enn og aftur framsýni og kjark Sjálfstæðisflokksins til að efla byggðir landsins og standa vörð um þær.

Í því tímabundna efnahagsástandi sem við búum við nú, er lykilatriði að standa vörð um  rannsóknar-og menntastarfsemi sem byggð hefur verið upp í Norðvesturkjördæmi á undanförnum árum og efla hana enn frekar vegna þess að grunnur velferðar og aukin hagsæld framtíðar byggist á aukinni menntun og þekkingu fólksins og bættu hæfi þess til að takast á við krefjandi verkefni framtíðarinnar.   Aðferðafræðin að bjóða upp á möguleika til að afla sér fjölþættrar þekkingar i heimabyggð er hin eina rétta, um leið er  öðrum skapaður möguleiki á að koma og dvelja við nám í okkar frábæra umhverfi.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er að efla atvinnulífið og mikilvægasti grunnur þess er aukin þekking og til að takast á við framtíðina, atvinnulíf í Norðvesturkjördæmi hefur notið góðs af þeirri menntunarstarfsemi sem byggð hefur verið upp hér í Norðvesturkjördæmi á undanförnum árum undir forystu okkar. Kjósandi góður. Taktu þátt í því með okkar að byggja upp atvinnulífið með öflugum þekkingarstörfum til framtíðar.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, viðskiptafræðingur

Höfundur situr í 3. æti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir