„Munaði minnstu að ég yrði atvinnumaður í knattspyrnu“ - Liðið mitt :: Sigurður Guðjón Jónsson Liverpool

Sigurður Guðjón Jónsson er Skagfirðingur sem býr í Kópavogi og starfar sem verkfræðingur hjá Mannviti. Hans uppáhaldslið er Liverpool og spáir hann liðinu sæti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Siggi, sem er sonur Sibbu Guðjóns og Nonna frá Reynistað, svarar spurningum í Liðinu mínu í Feyki að þessu sinni.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Mitt uppáhalds lið er Liverpool og hefur verið frá unga aldri. Mig minnir að það hafi verið ein jólin á Bárustígnum hjá ömmu og afa, sennilega í kringum 6 ára aldurinn, að bræður mömmu gáfu okkur ungu strákunum litla fána til þess að hengja upp á vegg. Fánarnir voru merktir liðum á borð við Man Utd, Tottenham og Liverpool. Ég var búinn að velja mér uppáhalds lið og valdi því að sjálfsögðu Liverpool fána, enda ekki bara fáni míns liðs heldur bar hann af hvað varðar fagurfræði. Fáninn fór strax upp á vegg í herberginu mínu og tók á móti mér þegar ég vaknaði í mörg ár sem styrkti samband mitt við liðið til muna.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ég sé mína menn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í vor enda bjartsýnn maður að eðlisfari. Það mun enginn geta sagt við mig eða aðra Liverpool aðdáendur að það séu liðin 30 ár frá því að liðið varð enskur meistari. 

Ertu sátt/sáttur við stöðu liðsins í dag? -Já, ég get ekki sagt annað, erum á toppnum, fáum fá mörk á okkur og skorum slatta.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Ef ég myndi segja nei væri ég að segja ósatt sem er ekki mér sæmandi. Þessar deilur hafa jafnan verið háðar við aðila með „fótbolta greindarvísitölu“ fyrir neðan meðaltal enda viðkomandi oftar en ekki aðdáandi annars liðs en míns heitt elskaða Liverpool.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Hér ætla ég að tefla fram goðsögninni John Barnes, en fyrsta treyjan sem ég eignaðist var merkt honum. 

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Ég hef farið á einn leik á Anfield Road, Liverpool – Sunderland, árið 2008 sem endaði með 3-0 sigri hjá mínum mönnum. Frábær ferð með góðum vinum og Guðbjörgu minni sem tók það ekki í mál að ég færi einn með strákunum.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já, ég á nokkrar treyjur sem og ýmsa aðra smáhluti.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Það hefur gengið vonum framar. Guðbjörg, eiginkona mín, er einnig Liverpool aðdáandi og okkur hefur tekist vel til með uppeldið á sonum okkar tveim sem eru grjót harðir Liverpool menn.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, enda gerir maður ekki svoleiðis, fólk skiptir um maka út um allan bæ en ég hef aldrei heyrt að einhver skipti um uppáhalds félag. 

Uppáhalds málsháttur? -„Margur er knár þó hann sé smár“ hefur fylgt mér alla tíð og á vel við.

Einhver góð saga úr boltanum? -Hvort sagan er góð eða grátleg verður látið ósagt hér. Þannig var að 3. flokkur Tindastóls var staddur á knattspyrnumóti í Køge, vinabæ Sauðárkróks, þar sem munaði minnstu að ég yrði atvinnumaður í knattspyrnu. Þýskur þjálfari gaf sig á tal við mig eitt kvöldið og umræðuefnið var að sjálfsögðu fótbolti. Þegar við vorum búnir að spjalla í dágóða stund og ég að fara nokkuð frjálslega með sannleikann, m.a. segja að Eyjólfur Sverrisson væri frændi minn, vildi hann ólmur fá mig yfir í þýska liðið. Við vorum langt komnir með samningaviðræður um kaup og kjör þegar einn farastjórinn okkar kallaði alla inn í svefn. Ég reyndi að malda í móinn en farastjóranum var ekki haggað og ég fór í háttinn samningslaus. Öllu gríni og rugli fylgir einhver alvara og því kýs ég að líta svo á að ég hafi verið nálægt því að verða atvinnumaður, þó ekki endilega vegna hæfileika á knattspyrnuvellinum.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Ég hef aldrei verið hrekktur enda með augu í hnakkanum þannig að ekkert fer fram hjá mér. Þeir hrekkir sem ég hef tekið þátt í eru þess eðlis að ég gæti lent í vandræðum ef þeir yrðu settir á prent.

Spurning frá Sunnu Björk: - Hver er maðurinn? Ég er fæddur í Birkenhead á Merseyside. Ég fékk samning hjá 3. deildarliði Bolton og fór með þeim upp í efstu deild áður en ég gekk til liðs við Liverpool, uppáhaldsliðið mitt frá því í æsku. Þar spilaði ég 139 leik og náði að festa mig í sessi í landsliðinu. Frá Liverpool gekk ég til liðs við Blackburn. Þaðan fór ég til Sunderland en endaði ferilinn heima í Liverpool borg hjá Tranmere.

Svar: Þetta myndi vera hinn geðþekki miðjumaður Jason McAteer.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Sunnu Ingimundardóttur

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Spurt er um þýskan landsliðsmann - Leikmaðurinn var í atvinnumennsku í yfir 20 og spilaði lengstum í Þýskalandi en einnig á Ítalíu og Englandi. Tvisvar á ferlinum kom leikmaðurinn til Arsenal (þ.e. frá öðru félagsliði) og spilaði samanlagt yfir 100 leiki með liðinu.

Áður birst í 43. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir