Nú er lag - Áskorendapenninn Elín Aradóttir, Hólabaki

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á Norðurlandi vestra, líkt og í öðrum landshlutum. Mikilvægi uppbyggingar þessarar atvinnugreinar er óumdeilt, ekki síst í dreifbýlinu, en þar á atvinnulíf í dag undir högg að sækja vegna erfiðar stöðu í lykilatvinnugrein, þ.e. sauðfjárræktinni. Sveitir Norðurlands vestra hafa upp á ótal margt að bjóða. Ótal náttúruvætti er þar að finna og sögustaðir liggja við hvert fótmál. Í þessu felast mörg tækifæri fyrir frekari uppbyggingu þjónustu. Eitt þessara tækifæra er undirritaðri sérstaklega hugleikið, en það er uppbygging þjónustu við áhugafólk um sögu Agnesar Magnúsdóttur.

Alþýðukonan, Agnes Magnúsdóttir, var síðasta konan, sem tekin var af lífi á Íslandi. Hún var dæmd til dauða, ásamt Friðriki Sigurðssyni, fyrir morð á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni. Sorglegt mál í alla staði. Agnes og Friðrik voru hálshöggvin við Þrístapa í Þingi þann 12. janúar 1830. Árið 2015 kom út söguleg skáldsaga, Náðarstund, sem byggir á sögu Agnesar og rituð er af ástralska rithöfundinum Hönnu Kent. Bók þessi hefur náð dreifingu og vinsældum um heim allan og snortið flesta lesendur sína djúpt. Síðastliðinn vetur bárust þær fréttir frá Hollywood að til stæði að gera kvikmynd eftir sögunni með aðkomu öflugustu aðila þar vestur frá. Enn fæst þó ekki staðfest hvar kvikmynd þessi verður tekin, né heldur hvenær hún verður tilbúin til sýningar. Það er þó ljóst að ef af kvikmyndinni verður gæti það haft í för með sér gríðarlega fjölgun ferðamanna á umræddar söguslóðir, en saga Agnesar teygir sig víða um Austur og Vestur Húnavatnssýslur.

Þrístapar eru staðsettir steinsnar frá þjóðvegi nr. 1. Undirrituð er búsett í tveggja kílómetra fjarlægð frá staðnum og hefur því góða aðstöðu til að fylgjast með umferð þar í grennd. Það er skemmt frá því að segja að fjöldi gesta sem heimsækja þann stað er nú þegar mikill og að því er virðist sífellt vaxandi. Ágangur um svæðið er því talsverður og hefur sveitarfélagið Húnavatnshreppur nú þegar brugðist við honum að vissu marki með gerð göngustígs að svæðinu. Ennfremur eru uppi áform um uppbyggingu bílastæða, merkinga og upplýsingaskilta. Sveitarfélagið hefur jafnframt ráðið til sín ráðgjafa (Verus ehf.) til að koma með hugmyndir að frekari uppbyggingu. Ég veit að ég tala fyrir munn margra íbúa svæðisins að niðurstöðu þeirrar vinnu er beðið með eftirvæntingu, þar sem hér er um að ræða einstakt tækifæri til að byggja upp öflugan ferðamannasegul, ekki aðeins fyrir Húnavatnssýslur, heldur landshlutann allan. Að mínu mati er nú lag að sýna stórhug í verki. Mig dreymir um að á Þrístapasvæðinu rísi myndarleg þjónustubygging, nógu stór til að hýsa veglega sögusýningu, upplýsingamiðstöð, veitingastað, verslun og snyrtiaðstöðu. Aðstöðu sem er okkur íbúum Norðurlands vestra til sóma. Aðstöðu sem sýnir að við erum stolt af svæðinu okkar og að hér býr gestrisið fólk, sem hefur náð að þróa sína siðmenningu á besta hátt síðan á tímum Agnesar og böðla hennar.

Þeir fjármunir sem fengist hafa, til uppbyggingar á Þrístapasvæðinu til þessa, hafa að stórum hluta komið úr sjóðum Húnavatnshrepps og frá ríkinu, eða úr Verkefnaáætlun landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem og úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.  Þá fjármuni ber að þakka, en svo miklu meira þarf til til að hægt sé að byggja upp aðstöðu með þeim hætti sem lýst var hér að ofan. Þó sveitarstjórn og starfsfólk Húnavatnshrepps hafi unnið gott starf við undirbúning uppbyggingarinnar, óttast ég að fámennt og fremur veikburða dreifbýlissveitarfélag muni vart hafa burði til þeirrar uppbyggingar sem þarna þyrfti að eiga sér stað. Það er því gríðarlega mikilvægt að mynda breiða samstöðu um verkefnið. Hér er um að ræða verkefni sem varðar landshlutann allan og er jafnframt tilvalin aðgerð til að framfylgja stefnu stjórnvalda um að stuðla að frekari dreifingu ferðamanna um landið með hliðsjón af náttúruvernd og byggðasjónarmiðum.

Ég skora á Unni Valborgu Hilmarsdóttur, nýráðna framkvæmdastýru Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og annan forsvarsaðila Verus ehf, að taka við pennanum.

Áður birt í 29. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir