Öflugt og vel skipulagt íþróttastarf í Sveitarfélaginu öllu

Góð heilsa er eitt það dýrmætasta sem við eigum og því er mikilvægt að við leggjum okkur fram um að viðhalda henni eins og kostur er. Mataræði er grunnur að góðri heilsu og þar sem börn í nútíma samfélagi verja bróðurpartinum af deginum í leik- eða grunnskólum, er sérstaklega mikilvægt að slíkar stofnanir bjóði upp á hollan og staðgóðan mat (þótt það sé ekki lagaleg skylda sveitarfélaga).

Eins þarf börnum og unglingum að standa til boða fjölbreytt íþróttastarf, en fjölbreytileiki á þeim vettvangi eykur líkurnar á því að þau finni sér grein við sitt hæfi. Samhliða því þarf að gera börnum og unglingum kleift að prófa mismunandi íþróttagreinar án þess að fjárhagur sé hamlandi þáttur í því. Það gefur auga leið að fjölbreytt og vel skipulagt íþróttastarf eykur ástundun og er ein besta forvörnin. Þó svo að Sveitarfélagið Skagafjörður sé á nokkuð góðu róli hvað íþróttastarf varðar, þá má alltaf gera betur.

Svo dæmi séu tekin þá eru töluvert mörg börn innan Sveitarfélagsins sem stendur ekki til boða viðunandi íþróttaaðstaða í sínu allra næsta nágrenni en þarna er fyrst og fremst verið að vísa í óviðunandi íþróttaaðstöðu á Hofsósi. Þar fer íþróttakennsla fram á sviði félagsheimilisins Höfðaborgar. Það er hagur okkar allra að hafa viðunandi íþróttaaðstöðu í öllum þéttbýliskjörnum héraðsins þar sem starfræktir verða leik- og grunnskólar til framtíðar, austan vatna, í Varmahlíð og á Sauðárkróki. Eins er skipulag íþróttaæfinga ekki eins og best verður á kosið og því tilefni til að skoða breytingar í þeim efnum.

Algengt er að æfingar séu skipulagðar seinnipartinn eða undir kvöldmat. Þessar tímasetningar eru oft erfiðar fyrir bæði börn og unglinga, sem eru á þessum tíma dags orðin þreytt eftir annasaman dag og því meiri líkur á að einbeitingaskortur og áhugaleysi fari að gera vart við sig. Það er því mikilvægt að samþætta betur skóla- og íþróttastarf þannig að börn og unglingar geti verið búin að klára sínar íþróttaæfingar á skikkanlegum tíma. Ef sveitarfélagið myndi ráða fleiri íþróttakennara og þjálfara til starfa í samráði við íþróttafélögin væri tækifæri til þess að skipuleggja íþróttaæfingar þannig að þeim væri lokið fyrr að deginum.

Fyrirkomulag sem þetta myndi gefa fjölskyldum möguleika á fleiri samverustundum en það hefur sýnt sig að aukin samvera fjölskyldunnar eykur sjálfstraust og bætir líðan barna, unglinga og ungmenna.

Jóhanna Ey Harðardóttir

Höfundur skipar 2. sæti á L-lista ByggðaListans fyrir komandi Sveitarstjórnarkosningar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir